Vottað loftslagsbókhald Orkuveitunnar

18. mar 2024

Orkuveitan

Loftslagsbókhald Orkuveitunnar hefur nú hlotið óháða alþjóðlega vottun sem eykur mjög á áreiðanleika þess. „Þetta mikilvæga skref, sem við vitum ekki til að annað íslenskt fyrirtæki hafi stigið ennþá, er merkilegur áfangi í leið okkar að kolefnishlutleysi,“ segir Hólmfríður Sigurðardóttir umhverfisstjóri, en áður hefur Orkuveitan hlotið góða einkunn af hálfu hins alþjóðlega Carbon Disclosure Project og fyrirtækið hefur fengið staðfest af SBTi að loftslagsmarkmið fyrirtækisins séu í samræmi við loftslagsmarkmið Parísarsáttmála Sameinuðu þjóðanna um að halda hlýnun heimsins innan við 1½ gráðu.

Gefið út samhliða Ársskýrslu

Loftslagsbókhaldið var gefið út á dögunum samhliða samþættri Árs- og sjálfbærniskýrslu Orkuveitunnar 2023 og er aðgengilegt hér á vef fyrirtækisins.

Í vottunarferlinu var farið eftir kröfum ISO 14064-1 staðalsins og það var alþjóðlega vottunarfyrirtækið Bureau Veritas sem staðfesti réttmæti bókhaldsins. Farið var ítarlega ofan í saumana á orku- og veitustarfsemi Orkuveitunnar og einstökum verkefnum sem stuðla að líffræðilegri fjölbreytni og kolefnisbindingu. Fyrirtækið hefur starfað að landgræðslu, uppgræðslu og öðrum landbótum um áratugaskeið og hluti vottunarferlisins var að staðfesta jákvæð áhrif þessa starfs á loftslagið. Markmiðið var að ná betur utan um loftslags- og umhverfisáhrif fyrirtækisins og leiddi ferlið einnig í ljós áður ókannaða losunarþætti gróðurhúsalofttegunda sem ekki voru taldir fram í eldra loftslagsbókhaldi.

Góð gögn nýttust í jafnlaunamálum – nú í loftslagsmálum

„Við eigum mikið verk fyrir höndum að ná kolefnissporinu niður en að vita nákvæmlega hvar við erum stödd er ákaflega mikilvægt í þeim leiðangri,“ segir Hólmfríður umhverfisstjóri. „Við sáum það í baráttu við kynbundinn launamun innan fyrirtækisins að áreiðanleg gögn um hann gegndu lykilhlutverki í að ráða niðurlögum hans. Það sama gildir í baráttunni við loftslagsvána, nú þegar við höfum áreiðanleg gögn erum við miklu betur í stakk búin að meta hvaða aðgerðir bera mestan árangur og hvað er hreinlega ekki að virka.“

Koldíoxíð í gufunni sem nýtt er í virkjunum á Hengilssvæðinu vega langþyngst í kolefnisspori Orkuveitunnar, eða 68%. Stefnt er að því að á næsta ári aukist kolefnisbinding við Hellisheiðarvirkjun svo mjög að orkuvinnslan verði enn sporléttari fyrir loftslagið. Tilraunabinding við Nesjavallavirkjun hófst á árinu 2023 og stefnt að nánast fullri hreinsun þar árið 2030.

Nýr þáttur sem skrifast nú í kolefnisbókhald Orkuveitunnar er losun fráveitu í sjó. Fráveitur Veitna, dótturfélags Orkuveitunnar, eru tengdar um 40% heimila og fyrirtækja í landinu og um 20% að auki veita skólpi í stöðvar Veitna í Reykjavík til hreinsunar. Í stóra samhenginu vegur fráveitan ekki þungt að sögn Hólmfríðar, eða um 3%, en þetta er nýr þáttur sem við verðum að huga betur að, segir hún.

Samstarf með birgjum

Óbein losun Orkuveitunnar, það er losun sem hlýst af vörum og þjónustu sem fyrirtækið kaupir, er hluti loftslagsbókhaldsins og vegur fjórðung í allri losun. Þar eru veigamiklir losunarþættir framleiðsla þess stáls sem notað er í lagnir af ýmsu tagi og svo losun frá vinnuvélum og farartækjum verktaka, sem vinna fyrir Orkuveituna. „Þessi hluti losunarinnar, í svokölluðu umfangi þrjú, er það sem allur heimurinn er að glíma við og fyrirtæki á borð við Orkuveituna verða að hjálpa sínum birgjum og hvetja þá til að gera betur,“ segir Hólmfríður. „Við erum búin að hitta hluta af okkar birgjum og gera þeim grein fyrir markmiði okkar um kolefnishlutleysi árið 2040,“ bætir Hólmfríður við og segir að nú þegar sé að finna í ýmsum útboðsgögnum Orkuveitunnar ákvæði sem efla samkeppnishæfni þeirra birgja sem útvegað geta kolefnisléttari vöru eða þjónustu. „Markmið okkar njóta ríks skilnings meðal birgjanna og með sameiginlegu átaki  erum við staðráðin í ná loftslagsmarkmiðum Orkuveitunnar,“ segir Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri Orkuveitunnar.

loftslagsbokhald.jpg