OR verður alþjóðlegur jafnlaunaleiðtogi

17. mar 2021

Orkuveitan

OR hlaut í dag viðurkenningu fyrir góðan árangur í jafnlaunamálum hjá samtökum um alþjóðlega jafnlaunavottun. Er þetta í fyrsta sinn sem viðurkenningar fyrir árangur í jafnlaunamálum eru veittar með þessum hætti. „Heiður að vera í hópi fyrstu fyrirtækja,“ segir Víðir Ragnarsson verkefnastjóri jafnréttismála hjá OR.

Verðlaunaafhending fór fram rafrænt en hægt var að fylgjast með í gegnum Facebooksíðu OR. Hubertus Heil atvinnu- og félagsmálaráðherra Þýskalands hélt stutta ræðu og þá hlaut Landspítalinn einnig viðurkenningu fyrir góðan árangur. OR óskar spítalanum til hamingju með góðan árangur.

Viðurkenningin sem ber heitið Universal Fair Pay Check er alþjóðleg jafnlaunavottun sem byggir á samræmdum mælingum á árangri fyrirtækja í jafnlaunamálum óháð landamærum.

Víðir tók við viðurkenningunni fyrir hönd OR og tók síðan þátt í rafrænum pallborðsumræðum.

„Það er mikill heiður að vera í hópi fyrstu fyrirtækja sem eru útnefnd sem alþjóðlegir jafnlaunaleiðtogar og er staðfesting á þeim árangri sem við höfum náð við að ná tökum á kynbundnum launamun,“ sagði Víðir þegar hann tók við viðurkenningunni.

Sagði hann jafnframt mikilvægt að geta haft alþjóðlegan samanburð þegar kemur að jafnlaunamálum. Þá sagði hann að síðustu tíu ár hefði mikil áhersla verið lögð á að jafna laun kynjanna en því hafi endanlega verið náð árið 2017. Síðan þá hafi mikil vinna farið í að mæla og meta gögn til þess að halda launamuninum á réttum stað.

Hægt er að lesa frekar um viðurkenningu OR sem alþjóðlegur jafnlaunaleiðtogi hér.

Award Certificate Universal Fair Pay Check