OR og Reykjavíkurborg styrkja uppsetningu hleðslubúnaðar

21. des 2020

Orkuveitan

OR og Reykjavíkurborg hafa styrkt 31 húsfélag við uppsetningu hleðslubúnaðar fyrir rafbíla.

„Það er náttúrulega mjög þægilegt að geta rennt í hlað og stungið beint í samband í stað þess að vera með snúru inn um glugga íbúðar á annarri hæð í blokk,“ segir Pétur Karlsson þrívíddarhönnuður og íbúi við Eskihlíð 10a í Reykjavík.

Pétur og aðrir íbúar Eskihlíðar 10 settu upp tvær hleðslustöðvar með samtals fjórum tenglum nú í september og hlutu styrk frá OR og Reykjavíkurborg til verksins.

Samtals hafa 31 húsfélag í Reykjavík fengið samþykktan styrk til uppsetningar hleðslubúnaðar fyrir rafbíla. Þar undir er 1.141 íbúð sem fær aðgang að hleðslubúnaði en samtals nemur styrkupphæðin 42,7 milljónum en fyrsta styrk var úthlutað í september 2019.  

„Ég er á svona Hybrid-bíl sem ég fékk mér í ágúst og þetta er allt annað líf. Ég stefni á að skipta út vinnubílnum og fá mér rafmagnsbíl í staðinn – þetta er eina vitið,“ segir Pétur sem er sá eini í blokkinni sem er að nota hleðslubúnaðinn sem stendur. Hann segir þó mikla sátt hafa verið í húsinu um að ráðast í framkvæmdirnar enda stefni flestir á að skipta yfir í rafmagn á næstunni.

Það var í apríl 2019 sem OR, Veitur og Reykjavíkurborg undirrituðu samning um uppbyggingu innviða til hleðslu á rafbílum í Reykjavík. Eitt af verkefnunum í samkomulaginu var stofnun sjóðsins sem ætlað er að styrkja húsfélög fjölbýlishúsa sem hafa sett upp hleðslubúnað fyrir rafbíla á sínum lóðum.

Samningurinn er til þriggja ára og kveður á um að OR leggur til 20 milljónir á ári og Reykjavíkurborg 20 milljónir. Nú er fyrsta árinu að ljúka en styrkurinn er eingöngu veittur til fjöleignarhúsa með 5 íbúðum eða fleiri samkvæmt skráningum fasteigna hjá Þjóðskrá Íslands. 

Hámarks styrkupphæð er 1.500.000 kr. en þó aldrei meira en sem nemur 67% af heildarkostnaði verksins með virðisaukaskatti sem greiddur er í samræmi við framlagða reikninga.

Pétur segist alfarið nota hleðslustöðina á planinu við Eskihlíð 10 og er stoltur meðlimur rafbílafjölskyldunnar sem fer ört stækkandi hér á landi. „Ég er alveg splynkunýr og mér líkar mjög vel. Ég vona að sem flestir fylgi okkur og skipti yfir í rafmagnið,“ segir Pétur að lokum. 

Húsfélög sem uppfylla skilyrði styrkveitingar geta sótt um hér