Orkuveitan gerist bakhjarl Hringiðu

3. jan 2024

Orkuveitan

Orkuveitan og KLAK – Icelandic Startups hafa gert með sér samstarfssamning þess efnis að Orkuveitan verði einn af bakhjörlum viðskiptahraðalsins Hringiðu.

Markmið Hringiðu er að á Íslandi rísi öflug fyrirtæki sem byggja á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins, skapa verðmæt og áhugaverð störf og skili árangri í umhverfis- og loftslagsmálum á Íslandi. Hringiðu er ætlað að draga fram, efla og styðja nýja tækni og aðferðir sem raunverulega leysa aðsteðjandi úrlausnarefni í umhverfis- og loftslagsmálum.

Viðskiptahraðallinn byggir á alþjóðlegri fyrirmynd og býður upp á metnaðarfullan vettvang til vöruþróunar og góðan undirbúning fyrir fjármögnun.

Orkuveitan mun eiga tvo fulltrúa í stýrihópi verkefnisins og leggur einnig fram fjármagn sem tryggir rekstur þess.

„Ísland hefur tækifæri til að taka forystu á sviði orkuskipta og loftslagsmála og einstakt tækifæri til að skipa sér í fremsta flokk á alþjóðavísu í umhverfismálum. Með því að efla stuðning við nýsköpun og þróun nýrra lausna á sviði umhverfis- og loftslagsmála má jafnframt stuðla að auknum útflutningsverðmætum sem byggja á sölu hugvits og hugverka,“ segir Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri KLAK.

Sævar Freyr Þráinsson forstjóri Orkuveitunnar segir að stuðningur við verkefni sem þessi séu mikilvæg enda líti Orkuveitan á sig sem yfir hundrað ára gamlan frumkvöðul.

„Við höfum mörg dæmi úr sögu Orkuveitunnar þar sem nýsköpun og hugvit hafa leyst þær áskoranir sem við höfum staðið frammi fyrir. Nærtækast er að nefna hitaveituna og rafveituna á sínum tíma en nýjasta dæmið okkar er auðvitað Carbfix. Þar sáum við einmitt þessi atriði, hugvit og nýsköpun, leysa vandamál sem við vorum með í virkjunum okkar. Það verkefni hefur síðan vakið verðskuldaða athygli lang út fyrir landsteinana. Við hjá Orkuveitunni munum halda áfram að leggja áherslu á nýsköpun og það er því afar ánægjulegt að geta komið með ekki bara fjármagn heldur einnig þekkingu að þessu metnaðarfulla verkefni sem Hringiða er.“