Kröftug uppbygging samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur

22. maí 2023

Orkuveitan
Borhola á Hellisheiði í blæstri.

Kröftug uppbygging með talsverðum fjárfestingum setur mark sitt á árshlutareikning samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur fyrir fyrsta fjórðung ársins. Fjárfestingar námu 4,7 milljörðum króna fyrstu þrjá mánuðina, sem er 6% meira en á fyrra ári og um fjórðungi meira en á fyrsta ársfjórðungi 2021. Fjárfestingar eru talsverðar hjá öllum fyrirtækjunum í samstæðunni. Þau eru, auk móðurfélagsins, Veitur, Orka náttúrunnar, Ljósleiðarinn og Carbfix. Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti árshlutareikning F1 2023 í dag.

Aukin umsvif

Tekjur samstæðunnar á fyrsta ársfjórðungi vaxa frá fyrra ári en rekstrarkostnaður einnig. Kostnaðarmegin munar mestu um aukin kaup á raforku til endursölu og hækkaða gjaldskrá vegna flutnings á rafmagni. Ör uppbygging nýsköpunarfyrirtækisins Carbfix kemur einnig fram í uppgjörinu. Þetta, ásamt samdrætti í tekjum af raforkusölu til stóriðju vegna lækkaðs álverðs, veldur því að framlegð og rekstrarhagnaður var minni á fyrstu þremur mánuðum yfirstandandi árs en á sama tíma 2022. Hagnaður á fyrsta ársfjórðungi nam 2,3 milljörðum króna. Eins og oft áður hefur þróun álverðs talsverð áhrif á reiknaða niðurstöðu tímabilsins. Hagnaður er þannig minni en á fyrra ári en veltufé frá rekstri sambærilegt við fyrsta fjórðung 2022.

Miklar fjárfestingar

Umfangsmestu fjárfestingar innan samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur eru á vegum Veitna. Bygging nýrrar dælustöðvar fráveitu við Vogabyggð er stórt verkefni sem og áframhaldandi endurnýjun Deildartunguæðar auk þess sem snjallvæðing orkumæla á öllu veitusvæðinu stendur nú sem hæst.

Í virkjanarekstri Orku náttúrunnar er verið að auka förgunargetu koldíoxíðs á Hellisheiði og Nesjavöllum, undirbúningur vegna tvöföldunar Hverahlíðarlagnar stendur yfir og uppfærsla stjórnbúnaðar á Nesjavöllum. Ljósleiðarinn vinnur hvorttveggja að stækkun grunnnets fyrirtækisins og uppfærslu tækni- og hugbúnaðar. Stærsta verkefni Carbfix er uppbygging Coda Terminal förgunarstöðvarinnar við Straumsvík auk uppbyggingar á fyrirtækinu sjálfu. Stærstur hluti fjárfestinga móðurfélagsins hefur runnið í upplýsingakerfi og endurbyggingu húsnæðisins við Bæjarháls.

Fjármögnun gengur vel

Verulegur hluti fjárfestinganna er fjármagnaður með framlegð af rekstri fyrirtækjanna og styrktist eiginfjárhlutfall samstæðunnar lítillega á fjórðungnum. Útgáfa Orkuveitu Reykjavíkur á grænum skuldabréfum hefur gengið vel. Sala þeirra hefur aflað 7,5 milljarða króna í tveimur útboðum á árinu, í mars og í maí, og fjárhæðin verið nýtt til nýrra fjárfestinga og afborgana af eldri lánum. Þá er OR í viðræðum við alþjóðlegar fjármálastofnanir um fjármögnun verkefna OR á næstu árum. Fjárfestar virðast hafa traust á samstæðunni því kjörin sem boðist hafa eru sambærileg við þau sem Lánasjóður sveitarfélaga hefur fengið með sínum útboðum. Þá stendur nú yfir undirbúningur að útgáfu nýs hlutafjár í Ljósleiðaranum, sem heimild hefur fengist til að selja nýjum meðeigendum að fyrirtækinu. Samsvarandi ferli hjá Carbfix er lengra komið.