Orkuveita Reykjavíkur hlýtur staðfestingu á loftslagsmarkmiðum

10. júl 2023

Orkuveitan

Orkuveita Reykjavíkur (OR) hefur fengið staðfestingu frá Science Based Targets initiative (SBTi) um að loftslagsmarkmið samstæðunnar byggi á vísindalegum grunni og styðji við aðgerðir Parísarsáttmálans um að halda hlýnun jarðar innan við 1,5°C.

SBTi var stofnað sem samstarfsverkefni nokkurra óhagnaðardrifinna stofnana árið 2015. Tilgangur þess er að hjálpa fyrirtækjum að setja sér loftslagsmarkmið sem byggja á vísindalegum grunni og styðja við Parísarsáttmálann en einnig hefur verkefnið sett fram ríkar kröfur um heildrænt kolefnisbókhald, sérstaklega hvað varðar óbeina losun í aðfangakeðju. Aðferð SBTi er þekkt og viðurkennd á markaði.

„Við hjá OR höfum lyft grettistaki í að draga úr losun frá jarðhitavirkjununum okkar. En erum nú einnig að bæta í okkar loftslagsbókhald allri þeirri losun sem á sér stað í aðfangakeðju samstæðunnar og ætlum okkur að stíga stór skref til að draga úr þeirri losun, hvort sem það er í gegnum kaup á vörum sem unnar eru úr endurnýttu hráefni eða efni framleiddu með minni losun gróðurhúsalofttegunda. Sem dæmi þá höfum við séð að vörur eins og stállagnir og pípur virðast vera hvað þyngstar í spori OR en ESB áformar að um 30% af stálframleiðslu í Evrópu fari fram með endurnýjanlegu vetni í stað kola,“ segir Hólmfríður Sigurðardóttir umhverfisgyðja Orkuveitu Reykjavíkur.

SBTi hefur enn fremur sett fram staðal fyrir fyrirtæki sem vilja staðfesta loftslagsmarkmið um kolefnishlutleysi (e. Net-zero) en OR hefur skuldbundið sig til þess að fá staðfestingu á að sín markmið uppfylli þann staðal.

Ný sjálfbærnistefna samþykkt

Á dögunum samþykkti stjórn OR nýja sjálfbærnistefnu fyrir samstæðuna sem byggð er upp með sama hætti og umhverfis- og auðlindastefna fyrirtækisins. Þar eru sex áhersluþættir og undir þeim samtals 20 þýðingarmiklir sjálfbærniþættir.

„Stefnan var mótuð eftir vinnustofur með starfsfólki félaganna í samstæðunni og er meginmarkmið þessara breytinga að nýta styrk umhverfis- og auðlindastefnunnar, sem hefur skilað okkur miklum árangri síðasta áratuginn eða svo, til að efla markmiðssetningu okkar og árangur hvað fleiri sjálfbærniþætti snertir en umhverfismálin,“ segir Eiríkur Hjálmarsson sjálfbærnistjóri OR.

Orkuveita Reykjavíkur stefnir áfram á kolefnishlutleysi eigin starfsemi fyrir árið 2030 og kolefnishlutleysi vegna áfangakeðju fyrir árið 2040.