Áhugasamur um Carbfix-tæknina

18. maí 2021

Orkuveitan
Bjarni Bjarnason forstjóri OR tekur á móti Blinken við Hellisheiðarvirkjun
© Atli Már Hafsteinsson

Það var nokkuð létt yfir Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna þegar hann mætti í Hellisheiðarvirkjun Orku náttúrunnar um kaffileytið í dag. Bjarni Bjarnason forstjóri OR tók á móti Blinken, kynnti honum jarðhitanýtinguna og ekki síst Carbfix-tæknina sem hann reyndist mjög áhugasamur um.

Þá var Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra einnig viðstaddur heimsóknina ásamt Höllu Hrund Logadóttur, sem tekur við starfi orkumálastjóra á næstu dögum. Þær Hildigunnur Thorsteinsson stjórnarformaður Orku náttúrunnar og Edda Sif Pind Aradóttir framkvæmdarstýra Carbfix ræddu einnig við ráðherrann.

Blinken var mjög áhugasamur um Carbfix-tæknina og sagði m.a. að honum fyndist mikilvægt á þessum tímum að vita að tæknin væri til – það gæfi okkur von.

Þá spurði hann hvað stæði í vegi fyrir því að tækninni yrði beitt á stærri skala og hversu útbreitt basalt væri í heiminum. Blinken velti einnig fyrir sér hvort niðurdæling með þessum hætti hefði í för með sér einhverjar aukaverkanir.

Bjarni Bjarnason forstjóri OR ræddi um jarðhitann við Blinken sem sagðist nokkuð fróður í þeim efnum enda nýtir hann hita jarðar til að kynda húsið sitt með svokallaðri varmadælutækni.

Margir erlendir fjölmiðlamenn voru með í för auk fulltrúa íslenskra fjölmiðla.

Eftir stutta kynningu á Jarðhitasýningu ON fór Edda Sif með ráðherrana tvo á niðurdælingasvæði Carbfix fyrir koldíoxíð og kíktu þau inn í eitt af hinum sérkennandi borholukúluhúsum á virkjanasvæðinu. Þar áttu þeir Guðlaugur og Blinken gott spjall við Eddu Sif og var slegið á létta strengi.

Þeir Guðlaugur Þór og Blinken fengu að lokum gjöf frá OR, borkjarna með CO2 holufyllingum sem Carbfix aðferðin hefur steinrennt.