Carbfix tilnefnt til alþjóðlegra verðlauna

28. apr 2020

Orkuveitan

Carbfix kolefnisförgunaraðferðin hefur verið tilnefnd til alþjóðlegu Keeling Curve verðlaunanna. Verðlaunin eru veitt árlega þeim sem náð hafa eftirtektarverðum árangri við að minnka losun eða auka bindingu gróðurhúsalofttegunda í þágu loftslagsmála.

Verðlaunin eru kennd við Charles David Keeling, doktor í efnafræði við Scripps stofnunina í haffræðum við Kaliforníuháskóla, en hann hóf rannsóknir á magni CO2 í andrúmsloftinu árið 1958. Starf hans markaði upphaf rannsókna á loftlagsbreytingum og tengslum hækkandi hlutfalls CO2 í andrúmslofti við aukna notkun jarðefnaeldsneytis. Grafið sem sýnir þessi tengsl hefur verið kennt við hann og nefnt Keeling kúrfa (Keeling Curve).

Ánægjuleg viðurkenning

„Það er ánægjuleg viðurkenning að fá þessa tilnefningu en hún endurspeglar sívaxandi áhuga og tiltrú á að Carbfix kolefnisförgunaraðferðin geti nýst við að draga úr styrk gróðurhúsaloftegunda í andrúmslofti og þannig spornað gegn loftslagsvánni ,“ segir Edda Sif Pind Aradóttir framkvæmdastýra Carbfix.

Tíu verkefni verðlaunuð

Alls eru tuttugu áhugaverð verkefni tilnefnd til Keeling Curve verðlaunanna á heimsvísu ár hvert og hljóta tíu þeirra verðlaun en tilkynnt verður í júní hver þessara verkefna verða fyrir valinu. Auk Carbfix eru þrjú önnur kolefnisbindingarverkefni tilnefnd að þessu sinni. Eitt þeirra snýr að verndun skóga í Borneo þar sem eru einar stærstu kolefnisbirgðir á heimsvísu. Annað verkefni snýr að þróun tækni til mælinga á loftgæðum og styrk gróðurhúsalofttegunda með hjálp gervitungla sem er bæði ódýrari og nákvæmari aðferð en sú sem notuð er í dag. Þriðja verkefnið sem tilnefnt er til verðlaunanna auk Carbfix er þróun kælibúnaðar fyrir bændur í sveitum Indlands sem er knúinn með úrgangi frá landbúnaði.

Carbfix

Carbfix aðferðin felst í að fanga og farga CO2 úr útblæstri í stað þess að sleppa því út í andrúmsloftið. Vatni með uppleystu CO2 – nokkurs konar sódavatni - er dælt ofan í berglög þar sem náttúrleg ferli taka við og umbreyta uppleysta koltvíoxíðinu varanlega í grjót. Orkuveita Reykjavíkur hefur frá árinu 2007 leitt þróun aðferðarinnar í samstarfi við Háskóla Íslands og erlendar rannsókna- og vísindastofnanir. Orka náttúrunnar hefur beitt Carbfix aðferðinni til að stórlega minnka losun CO2 og H2S frá Hellisheiðarvirkjun frá árinu 2014 og er aðferðin nú orðin sannreynd sem hagkvæm og umhverfisvæn lausn við varanlega förgun þessara lofttegunda. Carbfix hefur frá árinu 2019 verið rekið sem sjálfstætt dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur.