Breytt vinnulag á tímum heimsfaraldurs

2. apr 2020

Orkuveitan

Undanfarnar vikur hafa verið krefjandi fyrir allt starfsfólk OR samstæðunnar, eins og alla í samfélaginu, vegna heimsfaraldurs COVID-19 veirunnar. OR og dótturfélögin Veitur, Orka náttúrunnar, Gagnaveita Reykjavíkur og Carbfix veita yfir 70% landsmanna heitt og kalt vatn, rafmagn og sjá um fráveitu, auk þess sem Ljósleiðari Gagnaveitunnar sér fyrir nettengingum. Mikilvægt er því að tryggja að ekki verði brestur á þessum grunnþjónustum í samfélaginu. Því var gripið til harðari aðgerða hjá OR samstæðunni snemma í ferlinu en víða annarsstaðar. Markmiðið hefur verið að koma í veg fyrir að stór hópur starfsmanna veiktist eða myndi lenda í sóttkví á sama tíma og þar með reyna að tryggja með öllum tiltækum ráðum að grunnþjónustan haldist óskert.

Enn sem komið er, eða frá því COVID-19 faraldurinn hófst, hefur gengið vel að ná fram þessu markmiði. Neyðarstjórn OR samstæðunnar fundar á hverjum virkum degi og metur aðgerðir miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir hverju sinni. Vel hefur gengið að halda uppi hefðbundinni starfsemi við breyttar aðstæður en ríflega helmingur starfsmanna sinnir nú vinnu sinni heima. Viðskiptavinir okkar hafa verið hvattir til að beina samskiptum á netið og í síma og hafa þeir sýnt því skilning og brugðist vel við þeirri beiðni.

Mikið álag á fráveituna

Ein afleiðing þess að fjöldi fólks er nú heima smitað eða í sóttkví er aukin notkun sótthreinsiklúta en miklu magni af blaut-og sótthreiniklútum hefur verið sturtað niður í klósettin undanfarnar vikur. Hefur þetta valdið miklu álagi á fráveituna og varð til þess að hreinsistöð Veitna í Klettagörðum stíflaðist og óhreinsað skólp fór í sjó. Veitur fóru í átak þar sem fólk var minnt á að slíkir klútar eiga heima í ruslafötunni. Málið vakti mikla athygli í fjölmiðlum og einstaklega ánægjulegt var að fjöldi fólks tók þátt í að vekja athygli á málinu á samfélagsmiðlum sem ýtti undir vitundarvakningu um bættari umgengni við veitukerfið sem er sameign okkar allra.

Yfirlit yfir helstu aðgerðir OR samstæðunnar vegna COVID-19

Í lok janúar kom neyðarstjórn OR saman og voru viðbragðsáætlanir við farsóttum yfirfarnar og uppfærðar. Fram fór greining á lykilhópum og á þeim lágmarksmannafla sem þarf til að reka hverja einingu. Í byrjun mars var svo gripið til fyrstu aðgerða sem fólust m.a. í færri og smærri fundum með ytri aðilum, ferðabanni til útlanda á vegum fyrirtækjanna og auknum þrifum á starfsstöðvum. Einnig voru stærri viðburðir felldir niður og Jarðhitasýningunni í Hellisheiðarvirkjun var lokað sökum þess fjölda gesta sem hana sækja og nálægðarinnar við starfsemi virkjunarinnar.

Föstudaginn 6. mars lýsti Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra yfir neyðarstigi á landinu. Samdægurs var gefin út tilkynning um að öll sem það gætu myndu vinna heima á meðan neyðarstig væri í gildi. Unnið var að skipulagningu og undirbúningi alla helgina og á mánudeginum var stór hluti starfsfólks kominn með vinnustöð heim. Jafnframt urðu allir fundir fjarfundir og fólk beðið að sækja ekki stærri mannamót. Starfsfólki í lykilstörfum, svo sem við rekstur veitukerfa og virkjana, var skipt í minni hópa sem voru aðskildir til að lágmarka hættuna á að margir smituðust eða færu í sóttkví á sama tíma.

Þegar Íslensk erfðagreining hóf skimun á COVID-19 veirunni í Turninum í Kópavogi var öll starfsemi Gagnaveitu Reykjavíkur færð úr húsinu og upp á Bæjarháls 1 þar sem höfuðstöðvar OR eru til húsa.

Almannavarnir hertu samkomubann þann 23. mars en áhrif þess á starfsemi OR samstæðunnar voru lítil sem engin enda búið að ganga lengra í öllum ráðstöfunum en ráðleggingar Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra sögðu til um. Nokkrum dögum síðar var svo tekin ákvörðun um að takmarka aðgengi að afgreiðslu á Bæjarhálsi.

Stuðningur við starfsfólk mikilvægur

Mikið kapp hefur verið lagt á að styðja starfsfólk OR samstæðunnar í störfum sínum á þessum krefjandi tímum. Ekki einungis er hátt á þriðja hundrað manns að vinna heima, og aðrir eftir nýju verklagi þar sem strangar reglur eru um alla umgengni, heldur er einnig mikil röskun á skólastarfi sem veldur auknu álagi á það starfsfólk sem er með ung börn. Reynt er að koma til móts við þarfir alls starfsfólks, t.a.m. með sveigjanlegum vinnutíma, heimsendingaþjónustu á búnaði, ítarlegri upplýsingagjöf og annarskonar stuðningi. Boðið er upp á sálfræðiþjónustu, heimaleikfimi og fræðsluefni. Einnig er hugað að gleðinni, m.a. með sameiginlegum rafrænum viðburðum á Workplace.

Þekkingaröflun og miðlun upplýsinga

Þessar aðgerðir munu halda áfram á meðan faraldurinn geysar í samfélaginu og eru þær endurmetnar með reglubundnum hætti. OR samstæðan hefur lagt sig fram við að deila reynslu sinni með öðrum fyrirtækjum og stofnunum þegar leitað hefur verið eftir því. Þá hafa fulltrúar í neyðarstjórn sótt sér þekkingu, bæði innanlands og utan, hjá fyrirtækjum sem hafa staðið frammi fyrir því að þurfa að breyta vinnuháttum til að tryggja áframhaldandi rekstur. Ætlunin er að halda áfram þeirri þekkingaröflun og miðlun upplýsinga og vill OR samstæðan með því leggja sitt lóð á vogaskálarnar til annarra sem gætu haft hag af. Með samráði og samvinnu allra má minnka skaðann sem COVID-19 getur valdið samfélaginu.