Kapphlaupið að kolefnishlutleysi er hafið

22. sep 2020

Orkuveitan

Edda Sif og Carbfix á alþjóðlegu leiðtogaþingi.

„Það má gera ráð fyrir líflegum og upplýsandi umræðum á þinginu enda er mikilvægt að stafræn þróun og lausnir í loftslagsmálum samtvinnist í meira mæli á komandi árum til að hámarka árangur loftslagsaðgerða. Kapphlaupið að kolefnishlutleysi er hafið,“ segir Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdarstjóri Carbfix sem verður einn lykilgesta á alþjóðlegu leiðtogaþingi umhverfisfrumkvöðla í vikunni.

Þingið sem ber heitið, Exponential Climate Action Summit, fer fram í beinni útsendingu í gegnum Twitter, 24. september, 2020, kl. 15:00. Hátt í 100 þúsund manns hafa skráð sig á þingið sem fer í fyrsta sinn fram með rafrænum hætti.

Þar koma saman helstu hugsuðir og framkvæmdaraðilar á sviði loftlagsmála og ræða hvaða nýsköpun og stefnumótun er þörf á til að helminga útblástur fyrir 2030.

„Það að okkur sé boðið til þátttöku á jafn stórri og virtri ráðstefnu er bæði mikill heiður og viðurkenning á mikilvægi Carbfix aðferðarinnar í baráttunni gegn hlýnun jarðar,“ segir Edda Sif.

Stafræn tækni og hvernig hún nýtist til að tryggja nægilegar aðgerðir í baráttunni gegn hamfarahlýnun verður í brennidepli. Einnig verður farið yfir þær lausnir sem stafræn tæknivæðing býður upp á í orkumálum, samgöngum og iðnaði.

Leiðtogaþingið er haldið í tengslum við loftslagsvikuna í New York, sem sjálf er haldin samhliða allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Alþjóðlegir leiðtogar og helstu frumkvöðlar á sviði viðskipta, stjórnmála og félagasamtaka halda erindi á leiðtogaþinginu og eiga í pallborðsumræðu til að varpa ljósi á það markverðasta sem á sér stað í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Hægt er að fylgjast með ráðstefnunni hér, enginn aðgangseyrir en áhugasamir þurfa að skrá sig.

https://www.wedonthavetime.org/events/exponential-climate-action-summit-202009