Til hamingju Edda Sif og Carbfix

21. jan 2022

Orkuveitan
„Við erum mjög stolt af því að hljóta svo afgerandi viðurkenningu í þessari virtu alþjóðlegu keppni þar sem samkeppnin var hörð,“ segir Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix.
© Sigurður Ólafur Sigurðsson

Edda Sif Pind Aradóttir framkvæmdastýra Carbfix, dótturfyrirtækis OR hlaut hvatningarverðlaun Félags kvenna í atvinnulífinu í gærkvöld og var valin úr hópi 150 kvenna.

Edda hlaut viðurkenninguna á sjónvarpsstöðinni Hringbraut en dómnefnd skipuð sjö einstaklingum úr viðskiptalífinu stendur að valinu. Formaður dómnefndar er Hulda Ragnheiður Árnadóttir hjá Náttúruhamfaratryggingum Íslands og fyrrverandi formaður FKA.

FKA Viðurkenningarhátíðin er haldin árlega þar sem konur úr atvinnulífinu eru heiðraðar. Þar koma félagskonur FKA og öll kyn úr framlínu íslensks viðskipta- og atvinnulífs saman. Á hátíðinni eru eftirfarandi viðurkenningar veittar: FKA viðurkenningin, þakkarviðurkenningin og hvatningarviðurkenningin en viðurkenningarnar voru fyrst veittar árið 1999.

Jafnrétti og fjölbreytni skilar auknum árangri

„Ég lít á þetta fyrst og fremst sem mikla viðurkenningu og sýnir okkur að miklar væntingar eru gerðar til starfsfólks og tækni Carbfix. Ísland getur skapað sér mikil tækifæri með markvissri uppbyggingu græns og loftslagsvæns iðnaðar sem og útflutningi á hugviti. Ég lít á þessa viðurkenningu sem hvatningu til okkar hjá Carbfix að halda áfram að leggja okkar af mörkum þar,“ segir Edda Sif, sem hefur verið lykilkona hjá Carbfix frá upphafi verkefnisins.

Edda hefur verið ein þeirra sem hefur þróað aðferðina og fylgt henni gegnum rannsókna- og tilraunafasa auk innleiðingar hennar hér á landi.

„Það skiptir öllu máli að þessi nýi og loftslagsvæni iðnaður sem Carbfix er hluti af sé frá upphafi byggður upp með alhliða jafnrétti að leiðarljósi. Konur hafa leitt þróun og uppbyggingu Carbfix allar götur frá 2007 og málaflokkurinn er okkar hjartans mál. Þá er ég ekki bara að vísa til jafnréttis kynjanna heldur fjölbreytileika almennt enda er margsannað að jafnrétti og fjölbreytni bætir ákvarðanatöku og skilar auknum árangri.‘‘

Mikilvæg umræða í samfélaginu

FKA gaf út sérblað (síða 52) með Fréttablaðinu í tilefni af viðurkenningarhátíð félagsins þar sem kastljósinu var beint að konum í viðskipta- og atvinnulífinu. Í þeim hópi mátti finna fleiri konur úr OR samstæðunni. Auk Eddu Sifjar má finna flott viðtöl við þær Kolbrúnu Rögnu Ragnarsdóttur, Nýsköpunarstjóra ON og Silju Mist Sigurkarlsdóttur Markaðsstjóra ON.

„Við hjá Orkuveitunni erum auðvitað afar stolt yfir okkar flotta fólki sem iðulega kemur fram og tekur þátt í mikilvægum umræðum í samfélaginu okkar. Þessar konur eru flottar fyrirmyndir og eiga það sameiginlegt að leggja allt sitt í að gera heiminn að betri stað,“ segir Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Mannauðs og menningar OR.