Um sumarhús á vatnsverndarsvæðinu í Heiðmörk

4. des 2023

Orkuveitan
Frá vatnsverndarsvæðunum í Heiðmörk.

Búseta á grannsvæðum vatnsverndar er óheimil. Orkuveita Reykjavíkur hefur sýnt mikinn samningsvilja svo íbúabyggð á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins í Heiðmörk víki með tíð og tíma. Vatnsverndin var ákveðin með sameiginlegri samþykkt allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu með hagsmuni almennings og atvinnulífs að leiðarljósi. Meirihluti þjóðarinnar fær neysluvatn sitt úr vatnsbólum innan vatnsverndarsvæða höfuðborgarsvæðisins og því mikilvægt að tryggja gæði neysluvatns fyrir almenning til framtíðar.

Orkuveitan hefur þegar náð samkomulagi við meirihluta eigenda frístundahúsa innan vatnsverndarinnar í Heiðmörk um það hvernig byggð þar leggist af. Núverandi vatnsvernd höfuðborgarsvæðisins, sem var samþykkt af öllum sveitarfélögunum árið 2015, er alveg skýr um það að íbúabyggð er bönnuð innan vatnsverndarinnar. Yfirstandandi dómsmál OR er gagnvart húseigendum á svæðinu sem hafa alfarið hafnað samningum. Þau sem gengið hafa til samninga við OR halda húsum sínum til ársins 2030.

Almenna reglan er sú að heilsársbúseta í frístundahúsum er ekki heimil og hefur til að mynda Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur lýst áhyggjum af viðvarandi búsetu innan vatnsverndarinnar.

Afstaða OR, sem landeiganda og ábyrgðaraðila vatnsveitunnar, hefur legið fyrir í um 20 ár. Staðan nú er því ekki ný og húseigendum ljós, enda hafa tveir dómar fallið á síðustu árum þar sem réttindi Orkuveitunnar hafa verið staðfest.