Sævar Freyr Þráinsson er forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Sævar hefur meðal annars starfað sem forstjóri Símans, 365 miðla og nú síðast sem bæjarstjóri á Akranesi. Þar sem Akraneskaupstaður er einn eigenda OR, hefur Sævar Freyr haft hlutverki að gegna gagnvart fyrirtækinu, sem bæjarstjóri. Hann hefur meðal annars stutt við framgang Carbfix og nýtt reynslu sína og bakgrunn í verkefnum tengdum Ljósleiðaranum.
Sævar er með cand.oecon gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands með áherslu á markaðsmál. Starfsreynsla Sævars telur hátt í þrjátíu ár og hefur hann verið stjórnandi nær allan þann tíma. Hann starfaði hjá Símanum í 18 ár og þar af sjö ár sem forstjóri á afar erfiðum tímum í íslensku samfélagi. Hann var forstjóri 365 miðla í þrjú ár en frá árinu 2017 hefur hann gegnt stöðu bæjarstjóra í heimabæ sínum Akranesi.
Ellen Ýr Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastýra Mannauðs og menningar hjá OR, er með Diploma í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands og hefur starfað í mannauðsmálum frá árinu 2006. Fyrst sem mannauðsráðgjafi á mannauðssviði Símans og frá 2017 sem mannauðleiðtogi hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Ellen hefur komið að ýmsu er snýr að mannauðsmálum hjá OR og hefur m.a. verið bakhjarl stjórnenda við framkvæmd mannauðsstefnu og svokallaður vaxtarsproti (growth agent) og kyndilberi breytinga sem hefur það markmið að skapa virði fyrir viðskiptavini, starfsfólk og rekstur OR.
Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra Rannsókna og nýsköpunar, er með meistaragráðu í byggingarverkfræði með áherslu á framkvæmdir og ákvörðunartöku sem og með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Frá 2018 hefur hún verið forseti iðn- og tæknifræðideildar Háskólans í Reykjavík en var áður sviðsstjóri byggingarsviðs við tækni- og verkfræðideild skólans. Hera hefur mikla reynslu af stjórnun og verkefnisstjórnun í flóknum verkefnum. Hún starfaði áður hjá verkfræðistofunni EFLU, fyrst á orkusviði og síðar framkvæmdasviði. Árin 2011 til 2015 stýrði hún alþjóðlegum hátækniverkefnum hjá stoðtækjaframleiðandanum Össuri.
Benedikt K. Magnússon er framkvæmdastjóri Fjármála. Hann er með M.Sc. próf í fjármálum frá Háskóla Íslands og hefur víðtæka reynslu af hvoru tveggja fjármála- og rekstrarráðgjöf sem og af stafrænni umbreytingu fyrirtækja. Benedikt starfaði hjá KPMG frá árinu 2001, var á meðal eigenda frá árinu 2008 og sat í stjórn fyrirtækisins á árunum 2009 – 2013. Benedikt sat í framkvæmdastjórn og var sviðsstjóri ráðgjafarsviðs KPMG frá árinu 2013.
Skúli Skúlason er framkvæmdastjóri Þjónustu. Hann hefur viðskiptafræðipróf, meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun og hefur víðtæka stjórnunarreynslu úr atvinnulífinu. Hann var deildarstjóri tómstundamála hjá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur í 7 ár og síðar fjármálastjóri þess í 10 ár. Hann var ráðgjafi hjá Capacent ráðgjöf með áherslu á gerð viðskiptaáætlana, almenna rekstrarráðgjöf og áætlanagerð. Hann var stundakennari í rekstrargreiningu við Háskólann í Reykjavík auk þess sem hann kenndi ýmis námskeið við Opna háskólann og víðar á sviði áætlanagerðar, innkaupastjórnunar og hönnun ferla í rekstri.
Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna, lauk BA prófi í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands 1998 og meistaraprófi í stjórnun og stefnumótun frá sama skóla árið 2004. Hún hóf störf hjá Starfsmannamálum OR árið 2004, hafði umsjón með starfsþróunarmálum frá árinu 2006 og mannauðsstjóri frá árinu 2012. Áður starfaði Sólrún við kennslu og sem ráðgjafi á Stuðlum, meðferðarheimili ríkisins fyrir unglinga.
Erling Freyr Guðmundsson er framkvæmdastjóri Ljósleiðarans ehf. Hann lagði fyrst stund á rafvirkjun og lauk MBA-prófi frá Háskólanum í Reykjavík 2009. Erling stofnaði Ljósvirkjann, þjónustufyrirtæki við fjarskiptafyrirtæki, árið 1996 og upp úr aldamótum stofnaði hann ásamt öðrum Industria, fyrirtæki sem sérhæfði sig í þjónustu við uppbyggingu ljósleiðarakerfa. Hann rak það fyrirtæki hér á landi frá 2003 og síðan á Bretlandseyjum frá ársbyrjun 2008. Árið 2013 tók Erling við framkvæmdastjórn fjarskipta- og tæknisviðs 365 miðla og starfaði frá miðju ári 2014 sem fjármálastjóri við endurskipulagningu á Hringrás og tengdum félögum. Hann hóf störf hjá OR í ársbyrjun 2015.
Árni Hrannar Haraldsson Árni hefur búið í Sviss frá árinu 2011 og síðustu ár starfað sem framkvæmdastjóri og borið ábyrgð á aðfangakeðju MSPharma sem er alþjóðlegt lyfjafyrirtæki með starfsemi víða um heim. Þá hefur Árni Hrannar einnig gegnt lykilhlutverkum hjá Xantis Pharma í Sviss, Actavis og 66° Norður. Árni Hrannar hefur mikla reynslu sem yfirmaður í markaðsleiðandi fyrirtækjum bæði innanlands og á alþjóðamarkaði. Hann hefur haft fjölþætt mannaforráð og borið ábyrgð á umfangsmiklum rekstri. t.d. innkaupum, framleiðslu og stýringu á flóknum aðfangakeðjum.
Hann lauk B.SC. námi í efnafræði frá Háskóla Íslands árið 1997 og M.SC. gráðu í rekstrarverkfræði frá Danmarks Tekniske Universitet (DTU) árið 2000.
Edda Sif Pind Aradóttir er framkvæmdastýra Carbfix og kolefnisfargari. Hún er efnaverkfræðingur og lauk doktorsnámi frá HÍ árið 2011. Edda starfaði áður sem forstöðumaður nýsköpunar og framtíðarsýnar á Rannsókna- og nýsköpunarsviði OR og var verkefnisstýra Carbfix loftslagsverkefnisins frá árinu 2011. Í störfum sínum fyrir OR leiddi Edda m.a. stefnumótandi verkefni hvað varðar sjálfbæra auðlindanýtingu til framtíðar auk þess sem hún stýrði stórum alþjóðlegum nýsköpunarverkefnum styrktum af rammaáætlun ESB um orku- og loftslagsmál. Edda hefur unnið ötullega að miðlun upplýsinga um kolefnisförgun sem mótvægisaðgerð við loftslagsvána, m.a. í mörgum útbreiddustu fjölmiðlum heims og á stefnumótandi viðburðum þjóðarleiðtoga. Edda hóf störf hjá OR árið 2003.
Undir forstjóra OR heyra níu stjórnendur sérfræðisviða, sem starfa með öllum einingum samstæðunnar.
Guðrún Erla Jónsdóttir, Stefnustjóri OR, lauk M.Sc.prófi í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands 2006 og doktorsnámi, PhD, við sama skóla árið 2022. Hún hafði viðkomu í þremur erlendum háskólum á skólagöngu sinni, San Diego State University, Copenhagen Business School og Syddansk Universitet.
Sérhæfing hennar er á sviði stjórnarhátta og stefnumótandi hlutverks stjórna. Guðrún Erla starfaði, fyrst kvenna, sem framkvæmdastjóri Orkuveitu Húsavíkur frá 2008 þar til hún gekk til liðs við OR árið 2015. Hún var fyrst kvenna til að taka sæti í stjórn Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja, árið 2012 og var sú fyrsta í sæti varaformanns frá árinu 2016 - 2019.
Breki Logason stjórnandi Samskipta og samfélags útskrifaðist með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2015. Hann hefur víðtæka reynslu af fjölmiðlum þar sem hann starfaði sem blaða- og fréttamaður auk þess sem hann var fréttastjóri Stöðvar 2. Hann hefur einnig starfað í auglýsingageiranum, sem ráðgjafi í heilbrigðisráðuneytinu og sem framkvæmdastjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Your Day Tours sem hann stofnaði árið 2015.
Reynir Guðjónsson er öryggisstjóri OR. Hann hefur langa reynslu af starfi á því sviði. Hann vann hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins um árabil og var öryggisfulltrúi hjá RioTinto-Alcan og gæðastjóri þar. Hann vann einnig sem forvarnarfulltrúi hjá VÍS um tveggja ára skeið.
Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri, er líffræðingur frá Háskóla Íslands 1983 með Meistarapróf í jarðvegslíffræði frá Árósaháskóla í Danmörku auk MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hólmfríður á langan feril að baki á sviði umhverfismála en hún starfaði m.a. á Skipulagsstofnun um 12 ára skeið, lengst af sem sviðsstjóri umhverfissviðs. Hún hóf störf hjá OR árið 2007.
Elín Smáradóttir, yfirlögfræðingur OR, útskrifaðist úr lagadeild Háskóla Íslands árið 1994 og hlaut héraðsdómslögmannsréttindi árið 1996. Hún starfaði hjá Skipulagsstofnun á árunum 1994-2003 og síðan hjá Orkustofnun til ársins 2008 þegar hún gekk til liðs við OR.
Aðalheiður Sigurðardóttir er forstöðumaður verkefnastofu hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Hún er viðskiptafræðingur með meistarapróf í verkefnastjórnun (MPM) og frekara nám í þeim fræðum frá Stanford Center for Professional Development. Frá 2011 starfaði hún sem verkefnisstjóri hjá Össuri og leiddi alþjóðlega verkefnastofu Össurar frá árinu 2016. Þá hefur Aðalheiður sinnt stundakennslu í verkefnastjórnun á meistarastigi meðfram vinnu síðustu ár.
Eiríkur Hjálmarsson er sjálfbærnistjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Hann er með BSJ gráðu í blaðamennsku og meistarapróf í verkefnastjórnun (MPM). Eiríkur starfaði á ýmsum fjölmiðlum í 15 ár, meðal annars sem fréttamaður á Stöð 2, dagskrárstjóri Bylgjunnar og ritstjóri Vísis.is. Hann var aðstoðarmaður borgarstjóra Reykjavíkur þar til hann hóf störf í samskiptamálum hjá OR árið 2006. Eiríkur hefur verið leiðandi í innleiðingu sjálfbærniviðmiða í skýrslugjöf OR og Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í stefnumótun samstæðunnar frá árinu 2015.
Birna Bragadóttir er forstöðukona Elliðaárstöðvar og Jarðhitasýningar. Hún er með MBA próf frá HR og BA gráðu í félagsfræði. Hún hefur starfað við ráðgjöf á sviði stefnumótunar, vinnustaðamenningar og þjónustustjórnunar. Birna var framkvæmdarstjóri Sandhotel og leiddi uppbyggingu hótelsins. Birna starfaði jafnframt um langt skeið við mannauðs- og þjónustustjórnun hjá bæði Icelandair og OR. Birna var formaður stjórnar Hönnunarsjóðs og er stjórnarkona í KÍO.
Sigríður Auður Arnardóttir, forstöðumaður samhæfingar og stjórnsýslu er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands. Sigríður hefur gegnt embætti ráðuneytisstjóra í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, áður umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, frá árinu 2014 eftir að hafa verið staðgengill ráðuneytisstjóra. Þá gegndi hún embætti skrifstofustjóra á skrifstofu umhverfis og skipulags frá árinu 2012, skrifstofu laga og stjórnsýslu frá 2007 og skrifstofu laga og upplýsingamála í ráðuneytinu frá 2003.