Orkuveita Reykjavíkur semur við NIB um græna fjármögnun

15. des 2023

Orkuveitan

Orkuveita Reykjavíkur og Norræni fjárfestingabankinn (NIB) hafa samið um græna lánsfjármögnun bankans á orku- og veituframkvæmdum að fjárhæð 100 milljóna bandaríkjadala sem svara til um 13,8 milljarða íslenskra króna. Lánsféð verður einkum nýtt til að efla raforkuvinnslu Orku náttúrunnar á Hengilssvæðinu og treysta hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu. Lánasamningurinn er til 10 ára og má draga á lánið í 18 mánuði frá undirritun.

Aukin eftirspurn eftir rafmagni og hita

Notkun á heitu vatni hefur aukist mikið með aukinni húsnæðisuppbyggingu síðustu ár og eftirspurn margvíslegs atvinnulífs eftir varmaorku fer sömuleiðis vaxandi. Veitur hafa því endurskoðað áætlanir sínar um öflun heits vatns. Undanfarin ár hefur aukinni eftirspurn alfarið verið mætt með því að auka vinnslugetu í virkjunum systurfélagsins Orku náttúrunnar á Hengilssvæðinu. Nú er einnig áformuð aukin jarðhitaleit á lághitasvæðum í kringum höfuðborgina. Þá hefur notkunin einnig kallað á fjölbreyttar aðgerðir til að auka flutningsgetu hitaveitukerfisins til einstakra hluta höfuðborgarsvæðisins.

Orka náttúrunnar rekur jarðgufuvirkjanir á Nesjavöllum og á Hellisheiði. Samanlagt rafafl þeirra er 423 megavött. Það er fyrir utan heitavatnsframleiðsluna í virkjununum, sem nú stendur undir meira en helmingi þarfar hitaveitunnar á höfuðborgarsvæðinu. Til að viðhalda ábyrgri vinnslu þarf að afla aukinnar gufu úr þessu eina stærsta jarðhitasvæði landsins. Fyrirhugaðar eru boranir þar og tvöföldun gufulagnar frá nýtingarsvæðinu við Hverahlíð.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri OR:

„Ég fagna þessu samkomulagi við Norræna fjárfestingarbankann um fjármögnun okkar mikilvægu grænu orkuverkefna en bankinn hefur áður komið að fjármögnun margra okkar umfangsmestu fjárfestinga í endurnýjanlegri orkuvinnslu og umhverfisvænum veiturekstri.

Eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku og áreiðanlegri þjónustu veitukerfanna vex ört. Við í OR-samstæðunni höfum metnað fyrir lífsgæðum fólks og að vera bakhjarlar öflugs græns atvinnulífs. Eftir nýlega atburði á Reykjanesskaga þurfum við líka að huga að orkuöryggi til langs tíma í nýju ljósi.

Það er gott að hafa fjölbreytta kosti um fjármögnun. Framlegð frá rekstri Orkuveitu Reykjavíkur til að standa undir fjárfestingum er traust. OR hefur líka gengið vel í útgáfu grænna skuldabréfa og þessi beina græna lánsfjármögnun nú er mikilvæg. Þá stendur fjármögnun Coda Terminal, loftslagsverkefnis Carbfix í Straumsvík, nú yfir með sölu nýs hlutafjár. Það skiptir máli að eiga slíka valkosti þegar verkefnin eru stór og brýn.“