OR hækkar í lánshæfismati Moody's

3. des 2015

Orkuveitan

Árangur í rekstri, bætt sjóðstaða, öflug fjárstýring og efldar áhættuvarnir eru á meðal þess sem matsfyrirtækið Moody‘s tiltekur sem ástæður þess að það hefur hækkað lánshæfismatseinkunn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í Ba3 með stöðugum horfum.

Í upphafi tilkynningar Moody‘s (einungis gefin út á ensku) segir um ástæður hærri einkunnar OR:

Hækkuð lánshæfiseinkunn í Ba3 endurspeglar þann árangur sem fyrirtækið hefur náð bættri rekstrarafkomu, styrkari lausafjárstöðu og minni fjárhagslegri áhættu um leið og efnahagshorfur og markaðshorfur á Íslandi hafa batnað. Hún tekur einnig mið af því að Moody‘s væntir þess að traustari fjárhagsstaða OR standist hugsanleg neikvæð áhrif vegna álverðs, gengis eða vaxta.

Fjárhagsstaða OR hefur styrkst vegna árangursins af framfylgd þeirrar fimm ára áætlunar, sem stjórn fyrirtækisins samþykkti í mars 2011. Afraksturinn hefur verið umfram markmið í nánast öllum þáttum, þar á meðal auknum tekjum, lækkuðum rekstrarkostnaði og frestun tiltekinna fjárfestinga. Að öllu samanteknu, er árangur OR nú þegar umfram markmið Plansins meira en ári áður en þeim átti að vera náð, í desember 2016.

Viðhengi:

Moodys Rating Action for OR - December 2015