OR undirritar samning um viðskiptavakt við Arion banka, Íslandsbanka, Kviku banka og Landsbankann

1. feb 2018

Orkuveitan

Orkuveita Reykjavíkur hefur undirritað samninga við Arion banka hf., Íslandsbanka hf., Kviku banka hf. og Landsbankann hf. um viðskiptavakt á eftirmarkaði með skuldabréf útgefin af OR með auðkennin „OR090524“ og  „OR090546“. Skuldabréfin hafa þegar verið tekin til viðskipta á Nasdaq Iceland en skyldur viðskiptavaka samkvæmt samningi taka gildi þann 7. febrúar nk.

Tilgangur þessa samnings er að efla viðskipti með þau skuldabréf sem samningurinn tekur til, auka seljanleika þeirra á eftirmarkaði og stuðla að eðlilegri verðmyndun.

Viðskiptavakar skuldbinda sig til að setja fram dag hvern, kaup- og sölutilboð í skuldabréfin í Kauphöllinni fyrir opnun markaðar. Tilboð skulu ávallt vera að lágmarki 20 m. kr. í hvorum flokki að nafnverði og skulu tilboð endurnýjuð eigi síðar en innan 15 mínútna frá því að þeim hefur verið tekið.

Hámarksmunur kaup- og sölutilboða viðskiptavaka ákvarðast af verði gildra tilboða og má mest vera 1,0%.

Eigi viðskiptavaki, á einum viðskiptadegi, viðskipti fyrir samanlagt 60 m. kr. eða meira að nafnvirði í ákveðnum flokki í sjálfvirkri pörun er honum heimilt að víkja frá hámarksmun kaup- og sölutilboða það sem eftir lifir viðskipadags í þeim flokki.

Frá gildistöku samninga um viðskiptavakt geta viðskiptavakar fengið tímabundin bréfalán í flokki þeirra skuldabréfa sem samningurinn tekur til.