Traust rekstrarafkoma Orkuveitu Reykjavíkur

28. nóv 2022

Orkuveitan

4,7 milljarða króna hagnaður varð af starfsemi samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur fyrstu níu mánuði ársins. Rekstrarafkoma og fjárflæði frá rekstri er stöðugt en reiknaðar stærðir vegna mikils flökts á álverði og verðbólgu innanlands hafa áhrif á heildarniðurstöðu árshlutareiknings samstæðu OR, sem stjórn samþykkti í dag. Innan samstæðunnar eru, auk móðurfélagsins; Veitur, Orka náttúrunnar, Ljósleiðarinn og Carbfix.

OR Árshlutareikningur samstæðu F3 2022.pdf

Tekjuvöxtur það sem af er ári skýrist einkum af háu álverði framan af árinu. Tekjur allra starfsþátta samstæðunnar jukust milli ára um á bilinu 3-16%. Minnstur varð tekjuauki vatnsveitunnar en aðrar tekjur, þar sem Ljósleiðarinn vegur þyngst, jukust hlutfallslega mest. Þrátt fyrir að Orkuveita Reykjavíkur hafi fest stóran hluta vaxta á langtíma lánum, sjást ýmis verðbólguáhrif í árshlutauppgjörinu. Þar má nefna hækkandi verð á aðföngum, hækkandi tilboð í framkvæmdaverk og hækkandi verðbætur verðtryggðra lána.

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR

Nýleg fjárhagsspá Orkuveitu Reykjavíkur fyrir árin 2023-2027 endurspeglar mikla þátttöku fyrirtækjanna í samstæðunni í samfélagslegum verkefnum næstu ára. Þar má nefna fjárfestingu vegna átaks ríkis og sveitarfélaga í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, borgarlínuverkefni sveitarfélaga og ríkis auk annarra orkuskipta.

Á sama tíma og stjórnvöld hvetja okkur til fjárfestinga áttfaldar annar armur ríkisvaldsins stýrivexti í landinu á innan við tveimur árum. Háir vextir eiga, að öðru jöfnu, að hvetja okkur til að slá á frest verkum sem ekki eru brýn. Það eru því krefjandi tímar í starfseminni en vonandi að ytri aðstæður muni ekki hefta þau umbótaverkefni sem við tökum þátt í.