Stöðug og góð rekstrarafkoma OR

27. maí 2019

Orkuveitan

Rekstur Orkuveitu Reykjavíkur gekk vel á fyrsta fjórðungi ársins og var niðurstaða reksturs góð sem og framlegðin. Ytri áhrifaþættir voru ýmist hagfelldir eða ekki en heildarniðurstaða reksturs samstæðu OR á tímabilinu var hagnaður sem nam 3,9 milljörðum króna. Innan samstæðunnar eru, auk móðurfélagsins, Veitur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur. Árshlutareikningur samstæðunnar var staðfestur af stjórn OR í dag.

OR - Árshlutareikningur samstæðu F1 2019

Rekstur F1 2015-2019

Miklar fjárfestingar

Í takti við hraða uppbyggingu húsnæðis á helsta þjónustusvæði fyrirtækisins voru fjárfestingar með mesta móti á fyrstu þremur mánuðum ársins og námu alls 3,7 milljörðum króna. Auk uppbyggingar og viðhalds hefðbundinna veitukerfa – vatnsveitu, hitaveitu, rafveitu og fráveitu – var einnig fjárfest í nýjum gufuborholum á Hengilssvæðinu og unnið er að tengingu heimila í Árborg og Reykjanesbæ við Ljósleiðara Gagnaveitu Reykjavíkur.

Fyrstu þrjá mánuði ársins 2018 námu fjárfestingar samstæðunnar 2,8 milljörðum. Aukningin losar því 900 milljónir króna eða þriðjung.

Bjarni Bjarnason, forstjóri:

Rekstur fyrirtækjanna í OR-samstæðunni gengur prýðilega. Góð tök eru á útgjöldum sem hefur gert okkur kleift að lækka verð á hluta þjónustunnar og ávaxta það fé sem sveitarfélögin þrjú sem eiga Orkuveitu Reykjavíkur hafa bundið í þessum undirstöðurekstri.

Í grunninn er starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur umhverfisvæn; að nýta landsins gæði með ábyrgum hætti til að útvega fólki og atvinnulífi heilnæmt neysluvatn, græna orku, reka fráveitu til hreinlætis og gagnaveitu sem stenst kröfur tímans. Og þó kolefnisspor þessarar starfsemi sé með því minnsta sem sést í sambærilegum rekstri annarsstaðar vinnum við hörðum höndum að minnka það enn frekar.

Á fyrsta fjórðungi ársins leitaði fyrirtækið fyrirtækið fyrir sér í fyrsta skipti með útgáfu á grænum skuldabréfum til að fjármagna að hluta þann fjölda umhverfisverkefna sem við stöndum fyrir. Áhugi á bréfunum var mikill enda höfðu þau fengið dökkgrænan stimpil í óháðu mati. Við teljum að hagstæðari kjör hafi fengist fyrir vikið og við sjáum fram á að halda slíkri útgáfu áfram.

Lykiltölur fjármála

Fleiri lykiltölur fjármála OR-samstæðunnar eru birtar hér á vefnum ásamt fjárhagslegum markmiðum sem unnið er að.