Niðurstaða skuldabréfaútboðs OR

28. feb 2017

Orkuveitan

Útboð á nýjum skuldabréfum Orkuveitu Reykjavíkur fór fram 28. febrúar 2017 í umsjón fjárfestingarbankasviðs Arion banka. Boðin voru verðtryggð jafngreiðslubréf til ríflega 29 ára í flokknum OR090546, verðtryggð jafngreiðslubréf til ríflega 7 ára í flokknum OR090524 og óverðtryggð vaxtagreiðslubréf til tæplega 6 ára í flokknum OR011222.

Orkuveita Reykjavíkur ákvað að taka tilboðum í bréf að nafnverði 2.000 milljónum króna samtals og gefa út skuldabréf í flokki OR090546 að nafnverði 1.050 m.kr. á 3,25% ávöxtunarkröfu, í flokki OR090524 að nafnverði 600 m.kr. á 3,39% ávöxtunarkröfu og í flokki OR011222 að nafnverði 350 m.kr. á 5,60% ávöxtunarkröfu. Tilboð bárust í bréf að nafnverði 3.160 m.kr. samtals, með ávöxtunarkröfu á bilinu 3,21-3,38% í verðtryggða OR090546 flokkinn, á bilinu 3,39-3,40% í verðtryggða OR090524 flokkinn og bilinu 5,60-5,79% í óverðtryggða OR011222 flokkinn.

Gjalddagi áskrifta, útgáfa og afhending bréfa er fyrirhuguð 3. mars 2017. Óskað verður eftir að hin nýju skuldabréf verði tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland þann dag, en fyrsti viðskiptadagur er tilkynntur með að lágmarki eins dags fyrirvara. Áður hafa verið gefin út bréf í OR090546 að nafnverði 5.461.724.833 kr., í OR090524 að nafnverði 1.088.000.000 kr. og í OR011222 að nafnverði 500.000.000 kr. Áður útgefin bréf í þessum flokkum hafa verið tekin til viðskipta.