Brennisteinsvetni

Losun brennisteinsvetnis frá virkjunum á Hengilssvæðinu var í brennidepli umhverfismála frá því Hellisheiðarvirkjun var ræst árið 2006. Þessi jarðhitalofttegund veldur lyktarmengun, tæringu á málmum og getur verið hættulegt fólki í mjög háum styrk. Með sívaxandi lofthreinsun við Hellisheiðarvirkjun frá árinu 2014 hefur tekist að draga úr útblæstri um 75% og markmiðið er sporlaus vinnsla.

Árið 2010 voru í fyrsta sinn sett opinber umhverfismörk fyrir styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Þá var þegar hafinn undirbúningur að því að hreinsa brennisteinsvetni, ásamt koltvíoxíði, úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar. Lofthreinsistöð var gangsett árið 2014 og frá ári hefur hreinsun og binding brennisteinsvetnis í bergi vaxið stig af stigi. Í berggrunninum breytist brennisteinsvetnið í brennisteinskís, sem einnig hefur nöfnin pýrít og glópagull.

Styrkur brennisteinsvetnis hefur aldrei farið yfir opinber mörk samkvæmt reglugerð.

Meira um loftgæði á vef Orku náttúrunnar.