CarbFix

Ein mikilvægasta áskorun aldarinnar er að ráðast gegn loftslagsvánni.

Ein leið til að lækka varanlega styrk koltvíoxíðs í andrúmslofti er að binda það sem grjót í berglögum. Þá aðferð hefur Orkuveita Reykjavíkur þróað frá árinu 2007 við Hellisheiðarvirkjun í samstarfi við Orku náttúrunnar, Háskóla Íslands og erlendar rannsókna- og vísindastofnanir. Aðferðin er kölluð CarbFix.

Meginmarkmið CarbFix verkefnisins eru þrjú:

  • Að auka skilning á því hvað verður um koltvíoxíð sem dælt er niður í berggrunninn til langs tíma litið.
  • Að þróa tækni til að binda koltvíoxíð varanlega í jarðlögum.
  • Að gefa út og miðla niðurstöðum rannsókna og tilrauna svo þær geti nýst sem víðast.

Loftmynd af Hellisheiðarvirkjun

Koltvísýringur er um 0,42% útblásturs Hellisheiðarvirkjunar. Koltvíoxíðið er skilið frá gufunni í útblæstrinum, því blandað saman við vatn – svipað og þegar sódavatn er gert – og vatninu síðan veitt niður um borholur. Koltvíoxíðið binst basaltberginu á um eins kílómetra dýpi.

Þessi binding koltvíoxíðs í bergi er þekkt sem náttúrulegt ferli á jarðhitasvæðum og sést sem hvítar doppur eða holufyllingar í grjóti.

CarbFix verkefnið hefur notið styrkja í gegnum tíðina og umfangsmestir hafa verið styrkir úr rannsóknar- og vísindaáætlunum Evrópusambandsins.

CarbFix er samstarfsverkefni Orkuveitu Reykjavíkur, Háskóla Íslands, Earth Institute við Columbia University í Bandaríkjunum, CNSR í Frakklandi, NanGeoScience við Kaupmannahafnarháskóla í Danmörku og AMPHOS 21 Consulting á Spáni.