Elliðaárdalur

Elliðaárdalurinn er eitt fjölsóttasta útivistarsvæði Reykvíkinga enda býður hann upp á fjölbreytta möguleika til útivistar. Þar eru stígar og brautir fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur sem og fræðsluskilti um jarðfræði og gróður dalsins.

Elliðaárdalur

Jarðfræði Elliðaárdals er einstök vegna margbreytileika síns. Við Elliðaárósa eru merkileg setlög, kölluð Elliðavogslögin og má þar finna leifar ýmissa plantna sem uxu við Elliðavog fyrir nokkur hundruð þúsund árum og skeljar af grunnsævi. Það má einnig finna jökulrákaðar grágrýtisklappir, hraun frá nútíma og sjávarhjalla. Elliðaárnar hafa oft verið nefndar perla Reykjavíkur, enda einstakt að laxveiðiá renni í gegnum höfuðborg.

Reykjavíkurborg keypti Elliðaárnar árið 1906 til beislunar vatnsafls en Elliðaárvirkjun hefur framleitt rafmagn frá árinu 1921. Trjárækt í Elliðaárdalnum hófst um 1950 og hefur uppgræðslu verið haldið áfram sleitulaust síðan. Félagsheimili Orkuveitu Reykjavíkur í Elliðaárdal var tekið í notkun um 1960.