Íslenska djúpborunarverkefnið - IDDP

Borað að rótum jarðhitakerfa

Iceland Deep Drilling Project (IDDP) er rannsóknar- og þróunarverkefni á sviði jarðhitanýtingar sem miðar að því að efla þekkingu á eðli háhitasvæða. Í verkefninu felst að bora jarðhitaholur niður á meira dýpi en tíðkast í hefðbundinni jarðhitanýtingu með það fyrir augum að dýpka þekkingu á jarðhitanum og komast að því hvort hægt sé að stækka vinnslusvæði jarðhita niður á við. Lítið er vitað með vissu um rætur jarðhitakerfa en þekking á þeim getur eflt sjálfbærni jarðhitanýtingar og aukið orkuöryggi til lengri tíma.

Afla gagna um eðli og uppruna

Vitað er að hitinn í jarðhitakerfunum kemur að neðan. Samspil hitauppsprettunnar og jarðhitakerfa, sem leyfa hagkvæma nýtingu, er hins vegar afar flókið. Ýmsar tilgátur eru á lofti en skortur á beinum mælingum til að sannreyna þær. Boranir niður fyrir núverandi nýtingarsvæði geta aflað gagna um eðli og uppruna jarðhitans á svæðunum og hvort hann sé nýtilegur og þá hvernig.

Hugmyndin að verkefninu kviknaði á níunda áratug síðustu aldar. Við borun á Nesjavöllum var komið niður í mjög heit jarðlög þar sem hiti jarðhitavökvans og þrýstingur hans voru meiri en áður höfðu sést hér á landi. Ekki tókst að beisla aflið í neðsta hluta borholunnar með þess tíma tækjum og tækni. Því var steypt í botn hennar en grynnri æðar í holunni hafa verið nýttar nú í tæpan aldarþriðjung.

Samstarf stærstu orkufyrirtækjanna

Stærstu íslensku orkufyrirtækin á sviði jarðhitanýtingar – Orkuveita Reykjavíkur, Landsvirkjun og HS Orka – ýttu IDDP-verkefninu úr vör árið 2001 í tilraun til að reyna sig aftur við svipaðar aðstæður og upp komu á Nesjavöllum. Fleiri hafa komið að verkefninu á ýmsum stigum þess síðan. Gengið var út frá því að orkufyrirtækin boruðu hvert sína djúpu holuna á sínu nýtingarsvæði. Tvær hafa þegar verið boraðar og hefur hvor með sínum hætti aukið þekkingu á þeim áskorunum sem við blasa þegar dýpra er borað eða í heitari jarðlög en alla jafna.

IDDP-1 var boruð í Kröflu sumarið 2009

Stefnt var niður á 4,5 kílómetra dýpi en borinn lenti á bráðinni kviku á um 2,1 km. dýpi. Það tókst að fá gufu úr holunni og var hún öflug. Efnainnihald gufunnar var hins vegar til vandræða vegna tæringar og útfellinga auk þess sem stálfóðring stóðst ekki álagið.

IDDP-2 var boruð á Reykjanesi 2016

Holan varð dýpsta jarðhitahola sem vitað er til að boruð hafi verið í veröldinni. Hún varð í 4,6 km. djúp. Hár hiti mældist og mikill þrýstingur en aftur skemmdist stálfóðring innan í holunni og hefur dýpsti hluti holunnar síðan reynst óaðgengilegur.

IDDP-3 verður á Hengilssvæðinu

Framundan er borun þriðju holunnar undir merkjum verkefnisins. Nú er keflið hjá Orkuveitu Reykjavíkur og verður holan boruð á Hengilssvæðinu sem Orka náttúrunnar, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, nýtir í Nesjavallavirkjavirkjun og Hellisheiðarvirkjun. Vísinda- og tæknifólk fyrirtækjanna er að draga saman reynslu og þekkingu af fyrirliggjandi gögnum og reynslu og meta hvaða tækni, verkþekkingu og vísindaþekkingu þarf að þróa betur til þess að IDDP-3 skili sem mestum árangri.

Tengiliður

Gunnar Gunnarsson
verkefnastjóri IDDP3
6176986

gunnar.gunnarsson@or.is

eu.jpg

Þetta verkefni hefur fengið styrkveitingu frá Horizon 2020, rannsóknar- og þróunarsjóð Evrópusambandins, undir styrknúmerinu 864242. Rannsóknarefni: LC-SC3-SCC-1-2018-2019-2020: Snjallar borgir og samfélög.

Ábyrgð efnisins sem fram kemur á þessari síðu og í verkefninu Hlöðum betur liggur alfarið hjá höfundum verkefnisins. Efnið þarf ekki endilega að endurspegla skoðanir Evrópusambandins og Framkvæmdastjórn ESB og eru þau ekki ábyrg fyrir notkun á upplýsingum sem koma þar fram.