Útivistarsvæði

Útivistarsvæði

Starfsemi okkar er á og í nánd við nokkur, fjölsótt útivistarsvæði.  Á Hengilssvæðinu eru Nesjavalla- og Hellisheiðarvirkjanir, Elliðaárvirkjun er í Elliðaárdalnum og vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins eru í Heiðmörk.

Útivistarsvæðin á fræðsluvef:

Öskjuhlíð

Í Öskjuhlíð er net hjóla- og göngustíga og þá hefur skógrækt verið sinnt af kappi, en þar hafa tæplega 200.000 tré verið gróðursett. Þar eru einnig merkilegar jarðfræðilegar og sögulegar minjar. Veitinga- og útsýnisstaðurinn Perlan er samgróinn ímynd borgarinnar. Hitaveitutankarnir voru reistir árið 1940 gegndu lykilhlutverki í að miðla heitu vatni til Reykvíkinga.

Perlan

Sundlaugarnar

Sundlaugar á Íslandi eru um 170 talsins og dreifast um allt land. Laugarnar eru baðstaðir og heilsulindir, samkomustaðir fólks og uppspretta hollrar hreyfingar, útiveru og ánægjulegra samverustunda allan ársins hring. Langflestar þessara lauga eru hitaðar með jarðhitavatni. Aðrar sundlaugar eru hitaðar með rafmagni eða orku sem verður til við sorpbrennslu. Stöku laugar nýta jarðhitavatn með því að leiða það í gegnum varmaskipti og breyta þannig upp köldu vatni í heitt. 

Frá fyrstu tíð

Íslendingar hafa nýtt heita vatnið til baða allt frá landnámsöld og sennilega er elsta og jafnframt frægasta laugin, Snorralaug í Reykholti í Borgarfirði. Laugin er nefnd eftir Snorra Sturlusyni og kemur við sögu í Sturlungu. Talið er að Snorri hafi verið uppi frá 1178-1241. Fyrsti heiti potturinn sem byggður var eftir fornri hefð var tekin í notkun í Vesturbæjarlaug árið 1962. Í dag eru heitu pottarnir mikilvægur hluti af sundlaugarmenningu Íslendinga.

Heitar staðreyndir:

  • Reykvíkingar fóru árið 2000 að minnsta kosti fimmtán sinnum í sund á ári. Árið 1970 fóru þeir níu sinnum á ári í sund. 
  • Um 90 prósent sundlauga á Íslandi eru hitaðar með jarðvarma.  
  • Meðalstór sundlaug notar svipað magn af heitu vatni á hverju ári og 80-100 einbýlishús. 
  • Hver íbúi notar að meðaltali tæplega eitt tonn af heitu vatni og 220 lítra af köldu vatni á sólarhring. 
Laugardalslaug

Hengilssvæðið

Hengilssvæðið er háhitasvæði u.þ.b. 20 kílómetra suðaustur af Reykjavík.  Á ári hverju stunda tugþúsundir Íslendinga útivist á Hengilssvæðinu en þar eru gönguleiðir alls um 110 km að lengd. Svæðið er að mestu opið almenningi, en vegarslóðar geta verið lokaðir tímabundið vegna framkvæmda við Hellisheiðarvirkjun.  Hengilssvæðið er á virku gosbelti. Þar er að finna heita hveri, hraungíga, ár og vötn og gróðursæla bletti.

 

 


Nesjavallavirkjun er rúmlega 10 kílómetra norðaustur af Hellisheiðarvirkjun, skammt frá Þingvöllum.  Unnið hefur verið að uppgræðslu á Nesjavöllum frá árinu 1990 og hefur rúmlega hálfri milljón skógarplantna hefur verið plantað á jörðum Orkuveitunnar og Reykjavíkurborgar í landi Nesjavalla og Grafningi.  Í kjölfarið hefur aðstaða til útivistar á Nesjavöllum stórbatnað.

 

 

Heiðmörk

Heiðmörk er hluti vatnsverndarsvæðis höfuðborgarsvæðisins en þar eru Gvendarbrunnar og önnur vatnstökusvæði Orkuveitunnar. Í Heiðmörk er fjölbreytt landslag og gróður, enda hefur Skógræktarfélag Reykjavíkur unnið þar gott verk í samstarfi við okkur. Víða má finna skjólgóðar lautir og vöxtulega lundi sem gestir og gangandi geta notið.

Vatnstökusvæði í Heiðmörk

Fjölbreytt fuglalíf er á svæðinu, einkum á svæðinu kringum Elliðavatn og Myllulækjartjörn. Í Heiðmörk er gott berjaland og uppskera sveppa hefur margfaldast með tilkomu skógarins. Um Heiðmörk hafa verið lagðir göngustígar sem eru einnig skíðagöngubrautir á veturna.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalurinn er eitt fjölsóttasta útivistarsvæði Reykvíkinga enda býður hann upp á fjölbreytta möguleika til útivistar. Þar eru stígar og brautir fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur sem og fræðsluskilti um jarðfræði og gróður dalsins.

Elliðaárdalur

Jarðfræði Elliðaárdals er einstök vegna margbreytileika síns. Við Elliðaárósa eru merkileg setlög, kölluð Elliðavogslögin og má þar finna leifar ýmissa plantna sem uxu við Elliðavog fyrir nokkur hundruð þúsund árum og skeljar af grunnsævi. Það má einnig finna jökulrákaðar grágrýtisklappir, hraun frá nútíma og sjávarhjalla. Elliðaárnar hafa oft verið nefndar perla Reykjavíkur, enda einstakt að laxveiðiá renni í gegnum höfuðborg.

Reykjavíkurborg keypti Elliðaárnar árið 1906 til beislunar vatnsafls en Elliðaárvirkjun hefur framleitt rafmagn frá árinu 1921. Trjárækt í Elliðaárdalnum hófst um 1950 og hefur uppgræðslu verið haldið áfram sleitulaust síðan. Félagsheimili Orkuveitu Reykjavíkur í Elliðaárdal var tekið í notkun um 1960.