Leið 9-11

Leið 9-11

9. Innstidalur-Vörðu Skeggi

Nokkuð brött upp úr Innstadal en ein auðveldasta leiðin upp á Vörðu-Skeggja. Leiðin hefst í Sleggjubeinsdal (Leið 2). Frá skilti í austanverðum Innstadal er haldið til norðurs að gömlum skála sem þar er og upp gróinn hrygg til norðausturs, þarna er nokkuð bratt og mesta hækkun þessarar leiðar er upp þennan hrygg. Þarna er greinilegur stígur sem auðvelt er að fóta sig á. Í gilinu austan við hrygginn er litskrúðugt hverasvæði og eftir gilinu rennur heitur lækur sem vinsæll er til baða.

Ofan hryggjar tekur við gróðursælt dalverpi sem gengið er áfram til norðausturs þar til komið er að móbergsstöllum, sem þarf að klöngrast upp. Ofan þeirra taka við berar móbergsklappir, gróður er þarna lítill og mjög viðkvæmur, fylgjum því slóðum. Ofar taka við melar og sendnir ásar, þar er útsýn til Þingvallavatns og yfir Hengilssvæðið austanvert. Við erum nú á hásléttu Hengilsins, skilti skiptir þarna leiðum, önnur til austurs niður til Dyradals og Nesjavalla (Leið 13), hin sem fylgt er að Vörðu-Skeggja.

10. Dyradalur-Vörðu Skeggi

Stórbrotin og falleg leið, hrikaleg á köflum nokkuð bratt en allsstaðar auðvelt að fóta sig. Frá skilti (Leið 1) í dalverpi sunnan við Klungrin er haldið til suðausturs upp gil í norðurhlíð Vörðu-Skeggja sem gnæfir þarna yfir, gengið er um grónar brekkur til austurs þar sem leiðin liðast áfram upp með hlíðum fjallsins, upp og niður þar sem krækt er fyrir kletta og björg. Fallegt útsýni er yfir Klungrin, Skeggjadal og Kýrdalshrygg.

Upp af Kýrdal liggur leiðin aftur niðurávið til norðausturs og sveigir síðan í hálfhring að skilti sem skiptir leiðum önnur til austurs til Nesjavalla (Sjá leið 13) hin sem við fylgjum á Vörðu-Skeggja.

11. Nesjavellir-Vörðu Skeggi

Stórbrotin og falleg leið, hrikaleg og brött þegar ofar dregur en öruggur stígur. Haldið er til vesturs frá upplýsingatöflu handan vegarins við Nesbúð að skilti sem skiptir leiðum, önnur áfram í Nesjavallavirkjun og Köldulaugagil, hin sem við fylgjum til austurs og svo upp eftir Stangarhálsi í suðvestur upp á Ölfusvatnsskyggni. Þar er stórkostlegt útsýni yfir á Ölkelduháls, Grafning, Nesjavallavirkjun og Köldulaugagil.

Áfram liggur leiðin upp undir Nesjaskyggni þar sem sveigt er til vesturs með hlíðinni. Upp af Kýrdalsbrúnum er sveigt upp hlíðina að skilti upp af Kýrdal. Hér skiptast leiðir önnur í Dyradal og Marardal (leið 12), hin sem við fylgjum á Vörðu-Skeggja.