Leið 7-8

Leið 7-8

7. Marardalur-Vörður Skeggi

Erfið leið sem reynir nokkuð á úthald. Mjög brött leið í fyrstu. Leiðin hefst í Dyradal (Leið 1). Úr Marardal er gengið til suðurs um klettaskarð að skilti í gilinu, þar er vísað á Engidal/Sleggjubeinsskarð (Leið 4), við ætlum leiðina sem vísar á Vörðu-Skeggja. Frá skilti er haldið beint af augum upp mjög bratta gróna hlíð til austurs, auðvelt er að fóta sig í brekkunni þrátt fyrir brattann.

Á þessari leið er mesta hækkun tekin strax í fyrstu brekku um 3-400 metrar. Útsýni er stórkostlegt til vesturs og fallegt að horfa niður í Engidal og Marardal. Slóðin þarna er fremur óljós, þetta er sennilega ein fáfarnasta leið á Hengilssvæðinu, en eins og á öðrum leiðum eru stikur mjög greinilegar. Ofan hlíðar tekur við stór mosavaxin slétta þar sem Vörðu-Skeggi gnæfir yfir til norðurs.

Slóðin liggur yfir sléttuna og sveigir til suðurs þar sem krækt er upp með gilskorningi inn á mikla móbergssléttu sem teygir sig langa leið til suðurs. Haldið er að skilti beint framundan sem skiptir leiðum, önnur niður í Sleggjubeinsskarð (Leið 10), hin sem fylgt er áfram á Vörðu-Skeggja.

8. Sleggjubeinsskarð-Vörðu Skeggi

Nokkuð erfið leið, virðist löng en er álíka og aðrar leiðir á Vörðu-Skeggja. Hækkar jafnt og þétt. Þessi leið er ekki fyrir lofthrædda. Leiðin hefst í Sleggjubeinsdal (Leið 2). Frá skilti í Sleggjubeinsskarði er í fyrstu haldið skáhalt upp vesturhlíð Sleggju, leiðin sveigir til vesturs um gróna ása. Hér borgar sig að fylgja slóð þótt stikur sjáist í fjarska til norðurs og freistandi að stytta sér leið, gil sem skera ásana gera þá styttingu að engu. Leiðin sveigir til norðurs um ása með góðu útsýni yfir Innstadal, allt er þetta jafnt og þétt á fótinn.

Útsýni til allra átta eykst eftir því sem ofar er komið. Efst í ásunum er krækt fyrir gil og klifin allbrött en stutt brekka, þar taka við móbergsstallar sem þræddir eru áfram uppávið. Ofan stallanna er komið á örmjóan hrygg með brattar skriður niður í Innstadal að austanverðu, en 400 metra þverhnýpið niður í Engidal að vestanverðu, þessi leið er ekki ráðleg fyrir lofthrædda.

Hryggurinn samanstendur af háum móbergsdröngum með skörðum á milli, gengið er einstigi utan í austurhlið hryggsins að allnokkru skarði milli dranganna, þarna er frábær útsýnispallur sem opnast eins og gluggi til vesturs. Leiðin liggur nú upp mjög bratta hlíð með lausum jarðvegi, hér þarf að fara varlega og hafa örugga fótfestu í hverju skrefi. Göngustafur er nauðsyn hér, sennilega varasamasti staðurinn á stikuðum leiðum um Hengilinn.

Ofan hlíðar er komið á myndarlega grasflöt, Vörðu-Skeggi blasir nú við og haldið er áfram til norðurs nú niðurávið um mólendi í fyrstu en svo um klappir og kletta sem taka á sig furðulegustu myndir og áfram yfir móbergssléttu að skilti. Leiðir skiptast þarna, önnur til vesturs niður í Marardal (Leið 9), hin sem við fylgjum, til austurs upp á Vörðu-Skeggja.