Leið 5-6

Leið 5-6

5. Ölfusvatn-Ölkelduháls

Fjölbreytt og skemmtileg leið sem hentar öllum, hreint ævintýri fyrir börn og fullorðna að þræða gilið. Frá upplýsingatöflu við afleggjarann að Ölfusvatni er haldið yfir Grafningsveginn upp með Ölfusvatnsánni, fluga getur verið ágeng hér. Gengið er um kjarri vaxið land norðan árinnar um 2 km, þar sem stikla eða vaða þarf yfir ána. Þá er haldið upp vegarslóða sem fylgir barmi Ölfusvatnsgljúfurs, Mælifell blasir við handan gljúfursins.

Slóðin heldur áfram um sléttlendi að skilti í Seltungum undir Hrómundartindi, hér skiptast leiðir önnur til vesturs að Ölkelduhnúki, hin sem við fylgjum til austurs liggur um grunnt árgil í sveig fyrir tindinn. Þar tekur við stórfenglegur og ógleymanlegur hluti leiðarinnar. Undir austurhlíð Hrómundartinds er gengið inn í gilskorning sem þrengist og dýpkar því lengra sem farið er, gilið er svo þröngt að á köflum virðist sem veggirnir hvolfist yfir.

Eftir létt klifur í enda gilsins er komið upp við Kattartjarnir og gengið um hrjóstruga ása upp í grasi gróinn dal, meðfram Kattartjörn Efri og Álftatjörn. Þarna er frábært útsýni til Þingvallavatns. Gengið er með hlíðum Lakahnúks og Tjarnarhnúks að skilti við Ölkelduháls. Hér skiptast leiðir önnur niður til Dalasels og Klambragils (Leið 3). Hin sem við fylgjum er í raun hluti leiðar 3 að skilti undir Ölkelduhnúk og áfram að Upplýsingatöflu um 1 km vestar.

6. Úlfljótsvatn-Innstidalur

Fjölbreytt útsýnisleið, auðveld en kallar á úthald. Fluga er ágeng og því gott að hafa meðferðis flugnanet. Í bleytu eru legghlífar æskilegar þar sem gengið er í kjarri og djúpu grasi. Frá upplýsingatöflu við Úlfljótsvatn er fylgt vegaslóða til suðurs að Fossá. Þar sveigir slóðin upp með ánni. Gengið er um gott berjaland í nokkuð þéttu kjarri sem gisnar er komið er ofar í ásana. Ofan ásanna er farið yfir Fossá og gengið yfir Selflatir að Grafningsréttum.

Frá Selflötum er haldið upp á við á Dagmálafell með gott útsýni til allra átta, Þingvallavatn, Úlfljótsvatn, Grímsnes og Ingólfsfjall. Áfram er haldið eftir Efjumýrarhrygg í átt að Álút, létt en nokkuð löng ganga. Af Álút er stórfenglegt útsýni yfir Ölfus til Hveragerðis, Kamba og til Þingvallavatns.

Leiðin liggur nú um nokkuð bratta hlíð niður í Reykjadal. Þar er mjög virkt hverasvæði sem hefur breyst nokkuð í jarðskjálftanum 2008, margir nýjir hverir hafa myndast og allnokkuð jarðrask þar sem hlíðar í giljum hafa skriðið fram. Því þarf að fara varlega eins og reyndar á öllum hverasvæðum. Áfram er haldið upp hlíðina undir Dalskarðshnúk og í gegnum Dalskarð.

Úr skarðinu rétt ofan við hverasvæðið sem staðsett er undir Dalskarðshnúk er gott útsýni yfir Klambragil og Molddalahnúka. Gengið er niður slakkann að vegpresti við Dalasel, þar skiptast leiðir, önnur liggur upp á Ölkelduháls (leið 3), hin sem við fylgjum niður í Klambragil. Þar er gott tækifæri til að baða sig í heita læknum, áður en haldið er áfram niður Rjúpnabrekkur til Hveragerðis. (Leið 5).