Leið 3-4

Leið 3-4

3. Ölkelduháls-Klambragil-Ölkelduháls

Ótrúlega skemmtilegur og fjölbreyttur stuttur hringur sem ganga má hvort sem er rétt eða rangsælis. Hentar öllum og er sérstaklega skemmtilegur fyrir börn.
Ekið er af Suðurlandsvegi inn að Ölkelduhálsi að upplýsingatöflu undir Ölkelduhnúk. Þarna má velja hvort ganga skal rétt eða rangsælis.

Við göngum til suðurs (rangsælis) fyrst um gróna móa þar sem leið sveigir til austurs upp brekkustúf og áfram á klettabrún, gengið er niður í gil í nokkuð brattri skriðu, þarna er mikil hveravirkni og til austurs blasir Klambragil við. Heitur lækur rennur um gilið og í hann renna einnig kaldir lækir svo þarna er því frá náttúrunnar hendi frábær aðstaða til að fara í notalegt bað, enginn ætti að sleppa því. Gæta þarf að hitastigi, á köflum er lækurinn mjög heitur. Velja má sitt kjörhitastig upp eða niður með læknum.

Til suðurs liggur leið niður um Rjúpnabrekkur til Hveragerðis. Við höldum áfram til norðurs og upp hlíðina að austanverðu. Þarna er stórkostlegt útsýni í suður og sjást m.a. Kambarnir vel. Í slakka ofarlega undir Dalskarðshnúk er litskrúðugt hverasvæði og þarna er upplagt að staldra við, huga að nesti og njóta útsýnis. Skilti vísar þar til Úlfljótsvatns (Leið 7). Í gilinu rétt vestan við hverasvæðið er góð vatnsuppspretta þar sem fylla má drykkjarílát.

Leiðin liggur nú til norðurs, gengið er í austurhlíð Klambragils um brattar skriður, hér er fetað einstigi. Leiðin er í sjálfu sér auðveld, örugg og öllum fær, en lofthræðsla getur þó gert vart við sig og því gott að hafa göngustaf þarna. Uppi á brún Klambragils er gott útsýni til suðurs og skilti sem skiptir leiðum, önnur í austurátt til Kattartjarna og Ölfusvatns (Leið 6), hin sem við fylgjum til vesturs um Ölkelduháls milli Tjarnarhnúks og Ölkelduhnúks. Hér er gengið um víðáttumikið og öflugt hverasvæði með útsýni til Hengils, Skarðsmýrarfjalls og svo Þingvallavatns til norðurs. Gangan endar við skilti í vesturhlíð Ölkelduhnúks.

4. Rjúpnabrekkur (Hveragerði)-Klambragil

Frá upplýsingatöflu efst í Reykjadal ofan Hveragerðis er haldið af stað til norðurs upp ása og gilskorninga upp með Djúpagili og Reykjadalsá, á köflum utan í bröttum hlíðum. Þessi leið er auðveld, aðeins á fótinn og kjörin fyrir alla fjölskylduna. Börn hafa mjög gaman af þessari leið og þá sérstaklega heita pottinum.

Þessi slóð er mjög greinileg, líklega fjölfarnasta slóðin á Hengillssvæðinu. Ofan ásanna tekur við sléttlendi sem gengið er að austanverðu, slóðin sveigir síðan þvert yfir dalinn þar sem stikla eða vaða þarf yfir Reykjadalsá. Upp er svo haldið greinilega slóð að vestanverðu undir Molddalahnúkum. Neðan við slóðina eru nokkrir stórir athyglisverðir hverir. Slóðin endar í Klambragili við skilti sem skiptir leiðum önnur til vesturs upp á Ölkelduháls (Leið 3), hin upp brekkuna að austanverðu að hverasvæðinu undir Dalskarðshnúkog upp á Ölkelduháls (Leið 3), áhugaverður hringur sem bæta má við gönguna (3,8 km).

Í Klambragili er mikil hveravirkni og ákjósanlegur baðstaður í heitum læk sem rennur um gilið. Hann blandast þarna köldum lækjum sem lækkar hitastigið jafnt og þétt, finna má hitastig við hvers hæfi upp eða niður með læknum. Aðgæta skal vel hitastig þar sem lækurinn getur á köflum verið mjög heitur.