Leið 1-2

Leið 1-2

1. Dyradalur-Marardalur-Engidalur

Um 5 km eru í Marardal en 2 km bætast við ef farið er áfram inn í Engidal. Þetta er auðveld leið sem hentar flestum, börn ráða vel við þessa leið. Aðeins þarf þó að gæta sín á klöppum sem geta verið hálar þar sem laus sandur er ofan á brattri klöpp.

Þetta er einstaklega falleg leið sem hefst við upplýsingatöflu í Dyradal. Haldið er til vesturs upp slakkann og þá til suðurs í átt að nokkuð hárri klettabrún, auðveld slóð er upp á brúnina þar sem við tekur ganga um eitt stórkostlegasta móbergs belti Hengilssvæðisins, Klungrin.

Þarna eru kynjamyndir náttúrunnar allt um kring og gaman að skjótast þangað upp í þoku sem eykur upplifunina enn frekar. Suður endi klettanna er sérlega athyglisverður og minnir helst á fílahjörð. Áfram liggur leiðin eftir móbergshryggnum um stóra og smáa skessukatla sem vindurinn hefur mótað í bergið. Þarna er útsýni til bæði austurs og vesturs og inn undir Vörðu-Skeggja sem gnæfir yfir dalverpi nokkru, þar sem finna má skilti sem skiptir leiðum.

Leið er til austurs upp og með norðurhlíðum Hengilsins (Leið 12). Sú sem við veljum liggur til vesturs upp litla hæð þar sem útsýni yfir Mosfellsheiði og Svínahraun opnast. Slóðin liggur nú niðurávið til suðausturs í átt að klettaskoru á brún Marardals.

Þaðan er haldið niður allbratta og grýtta brekku niður á botn dalsins þar sem lækur fellur niður í fossum í gili í austurendanum. Þarna er kjörið að staldra við og njóta fegurðar dalsins. Þegar gengið er eftir dalnum endilöngum og út um skarðið að sunnanverðu, er komið í gil sem liggur áfram til suðvesturs og opnast inn í  Engidal þar sem Múlasel er, sem er annar skála Orkuveitunnar á Hengilssvæðinu. Í gilinu á milli Marardals og Engidals er skilti og við það hefst ein leiðanna á toppinn, Vörður-Skeggja sjálfan.

2. Sleggjubeinsdalur-Innstidalur

Í Innstadal er kjörið að ganga með börn, gangan er auðveld og fjölbreytni dalsins mikil og ekki skemmir heitur lækur fyrir. Leiðin hefst í Sleggjubeinsdal innan við Hellisheiðarvirkjun. Gengið er upp hrygginn milli Sleggju og Skarðsmýrarfjalls upp í Sleggjubeinsskarð. Að austanverðu er öflugt hverasvæði sem skartar mikilli litadýrð.  Uppi í skarðinu er skilti sem skiptir leiðum, önnur um vesturhlíð skarðsins upp á Vörðu-Skeggja (Leið 10), hin sem við göngum leiðir okkur inn í Innstadal sem er innstur Hengladala.

Slóðin heldur áfram með suðurhlið dalsins sem er grasi gróinn og sléttur, girtur fjöllum allan hringinn, Hengillinn í allri sinni dýrð til norðurs. Til norðvesturs gengur gil upp í Hengilinn með tignarlegum klettabeltum þar má ganga á Vörðu-Skeggja þó ekki sé það stikuð leið. Að austanverðu er gróið hraun, þar þrengist dalurinn. Lækur rennur eftir dalnum sem verður að Hengladalsá og síðar Varmá, lækjarvatnið er gott til að fylla á drykkjarílát.

Í hrauninu er skilti sem skiptir leiðum, önnur áfram til austurs yfir á Ölkelduháls (Leið 8), hin til norðurs upp á Vörðu-Skeggja (Leið 11). Ef genginn er spotti yfir dalinn inn á Vörðu-Skeggja leiðina, að gömlum skála og þaðan niður í gilið austan við skálann, er komið að heitum læk. Þar er notalegt að skella sér í bað eða aðeins fótabað, velja má hitatig eftir því hve ofarlega er farið.