Umhverfi

Umhverfi

OR er falin mikil ábyrgð á þeim auðlindum sem hún nýtir. Hún felst í því að tryggja sjálfbæra nýtingu þeirra svo kynslóðir framtíðar eigi sömu tækifæri og við til hagnýtingar þeirra. Hlutverk OR er því að verja auðlindirnar.

 

Umhverfismál

OR og dótturfélög hennar sinna fjölbreyttri starfsemi sem hefur jákvæð áhrif á daglegt líf þorra þjóðarinnar. Fjölbreyttri starfsemi fylgja umhverfisáhrif sem kalla á fyrirbyggjandi aðgerðir, vöktun og eftirlit en einnig opin og fagleg samskipti við íbúa, leyfisveitendur og opinbera aðila. Innan OR er mikla þekkingu að finna um hagnýtingu jarðvarma og aðra þætti í starfsemi fyrirtækisins. Við leggjum okkar að mörkum til að miðla þekkingu og hvetja til ábyrgrar umgengni við umhverfið.

Framleiðsla OR stuðlar að heilnæmum lífsskilyrðum og tækifærum til umhverfisvænnar starfsemi. Jákvæð umhverfisáhrif eru ráðandi þegar ákvarðanir eru teknar um þróun virkjana og veitna. Þær eru byggðar á því að OR setur markið hátt varðandi gæði, afhendingaröryggi og hagkvæmni og birtir greinargóðar upplýsingar um frammistöðu sína og framtíðaráætlanir í þeim efnum.