#metoo vinnustofur
Apríl 2018
![]() | Í apríl eru haldnar #metoo vinnustofur þar sem allt starfsfólk OR samstæðunnar hittist og ræðir opinskátt um viðfangsefnið; hvernig viljum við hafa þetta og hverju þurfum við að breyta? Vinnustofurnar standa ennþá yfir en þegar eru komnar góðar hugmyndir sem unnið verður nánar með í maí. Viðfangsefni #metoo snúast um menningu sem við sem samfélag erum öll partur af, og það er því mikilvægt fyrir okkur að skapa vettvang til að ræða hlutina. |
Vísindadagur OR 2018
Mars 2018
Hinn árlegi Vísindadagur OR samstæðunnar fór fram í Hörpu á pí-daginn, 14. mars, sem jafnframt er fæðingardagur Alberts Einstein og dánardagur Stephen Hawking. Erindin voru fróðleg og skemmtileg og gestir fjölmargir. Dagskrá Vísindadagsins má sjá í upptöku af erindum dagsins hér til hliðar. |
OR á Framadögum
Febrúar 2018
Framadagar 2018 voru nýverið haldnir í HR þar sem háskólanemum gafst tækifæri að kynna sér framtíðarmöguleika á vinnumarkaði. OR var á staðnum, ásamt öðrum fyrirtækjum OR samstæðunnar, og sýndi áhugasömum nemum vinnustaðinn okkar í sýndarveruleika. Einnig buðum við upp á gott kaffi og stöldruðu margir við og spjölluðu við starfsfólk okkar sem kynnti samstæðuna sem eftirsóknarverðan framtíðarvinnustað. |
Kynbundinn launamunur
Desember 2017
Óútskýrður kynbundinn launamunur hjá OR og dótturfélögunum mælist nú 0,29% konum í hag. Mælingin, sem byggð er á launagreiðslum fyrir desembermánuð, er önnur mælingin sem sýnir muninn á þennan veg. Í nóvember var munurinn í fyrsta sinn konum í vil og mældist þá 0,20%. Stefna OR og dótturfélaganna – Veitna, Orku náttúrunnar og Gagnaveitu Reykjavíkur – hefur verið að útrýma kynbundnum launamun. Hann hefur verið talinn innan tölfræðilegra skekkjumarka frá árinu 2015 og hafa fyrirtækin hlotið gullmerki jafnlaunaúttektar PwC frá þeim tíma. ![]() |
Matarsóun minnkar enn
Nóvember 2017
![]() | Átak okkar um að minnka matarsóun er í fullum gangi og nálgumst við markmiði okkar um að fara úr því að sóa 20 kg af mat á dag í 12 kg fyrir áramót. Starfsfólk matstofunnar okkar hefur tekið upp á því snjallræði að bjóða starfsfólki að taka afganga með sér heim að loknum vinnudegi. Framtak þeirra hefur mælst vel fyrir og leggur sannarlega lóð á vogarskálarnar. |
Bleikur dagur
Október 2017
![]() | Bleiki dagurinn var haldinn hátíðlegur 13. október sl. og sýndi starfsfólk OR samstöðu og hafði bleikt í fyrirrúmi. Starfsfólk matstofu bauð upp á bleikan skyrdrykk og bollakökur og vakti um leið athygli á árvekniátaki Bleiku slaufunnar og baráttunni gegn krabbameini hjá konum. |
Samstæðudagurinn
Október 2017
![]() | Þann 30. september sl. héldum við samstæðudaginn okkar. Markmið dagsins var að efla samstæðumenningu og horfa til þess að við erum ein fjölskylda. Dagurinn var frábær og endaði svo um kvöldið í Hörpu þar sem samstæðan hélt árlega árshátíð. Á myndinni stýrir Magnús Magnús Magnússon starsfólki OR samstæðunnar í víkingaklappi. |
Matarsóun
Október 2017
Áætlað er að rúmlega 5% af árlegri heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi megi rekja til matarsóunar. Frá því í vor hefur OR samstæðan verið með átak um að minnka matarsóun, en við settum okkur markmið að fara úr því að sóa 20 kg á dag í 16 kg á dag. Það tókst og vel það - fórum niður í 13,5 kg og fögnuðum við þeim áfanga með glæsilegri matarveislu í september sl.
Við erum alls ekki hætt og samkvæmt loftslagsmarkmiðum OR til ársins 2020 stefnum við að því að minnka matarsóun um 40%. Það þýðir 12 kg á dag og stefnum við ótrauð að því að ná því markmiði fyrir áramót.
Vistvænar samgöngur
September 2017
![]() | Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélög hlutu Samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar árið 2017. Undanfarin fimm ár hefur dregið jafnt og þétt úr notkun starfsfólks á einkabílum knúnum jarðefnaeldsneyti og notkun starfsmanna á reiðhjólum, rafhjólum og rafbílum hefur aukist. Ýmislegt er í boði fyrir þá sem vilja ferðast með vistvænum hætti til vinnu. Mánaðarlegur og skattfrjáls samgöngustyrkur, afsláttur af strætókorti, vaxtalaust lán til kaupa á hjóli, hvort sem um er að ræða hefðbundið hjól eða rafhjól. Einnig getur starfsfólk fengið lánað rafhjól til að prófa, eina viku í senn. |
Fjölbreytt nám í Iðnum og tækni í vetur
September 2017
![]() | Iðnir og tækni, sem er samstarfsverkefni OR samstæðunnar og Árbæjarskóla, er nú starfrækt þriðja veturinn í röð. Verkefnið hefur það markmið að vekja áhuga nemenda á iðn- og tæknistörfum og kynna þeim þau fjölbreyttu störf og starfstækifæri sem iðn- og tækninám hefur upp á að bjóða. Námið er fjölbreytt og byggir á fræðslu, vettvangsferðum og verklegum æfingum. Margir starfsmenn dótturfyrirtækja OR hafa komið að kennslunni undanfarin ár og munu í vetur miðla efninu af áhuga og þekkingu. |