Stjórn

Kjöri núverandi stjórnar OR var lýst á aðalfundi 3. apríl 2017. Frá vinstri á myndinni eru: Rakel Óskarsdóttir, bæjarfulltrúi á Akranesi, Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi, Björn Bjarki Þorsteinsson, forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar sem er áheyrnarfulltrúi, Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor sem er formaður stjórnar, Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi, Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður, og Gylfi Magnússon prófessor, sem er varaformaður stjórnar.

Þessi eru varamenn: Auður Hermannsdóttir, Margrét Björnsdóttir, Páll Gestsson, Marta Guðjónsdóttir, Halldór Halldórsson og Ólafur Adolfsson. Varaáheyrnarfulltrúi er Ragnar Frank Kristjánsson.
 

PDF iconStarfsreglur stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur
 

Tvær nefndir starfa á vegum stjórnar OR:

Endurskoðunarnefnd

Endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar starfar fyrir Reykjavíkurborg og þar með talið dótturfyrirtæki hennar. Endurskoðunarnefndina skipa  Ólafur B. Kristinsson löggiltur endurskoðandi, sem er formaður, Ingvar Garðarsson löggiltur endurskoðandi, Inga Björg Hjaltadóttir lögmaður og  Sunna Jóhannsdóttir viðskiptafræðingur sem tilnefnd er af stjórn OR. Nánari upplýsingar um störf endurskoðunarnefndar má finna á heimasíðu Reykjavíkurborgar.

Framkvæmdastjóri innri endurskoðunar OR er Guðmundur I. Bergþórsson. Guðmundur er með BS próf í hagfræði, MS próf í viðskiptafræði og MS próf í heilsuhagfræði frá Háskóla Íslands. Hann er enn fremur með viðurkenningar frá Alþjóðasamtökum innri endurskoðenda sem innri endurskoðandi (Certified Internal Auditor) með áherslu á innri endurskoðun stjórnkerfa í áhættustýringu (Certification in Risk Management Assurance) og hefur lokið þjálfun sem stjórnandi í endurskoðun stjórnkerfis upplýsingaöryggis (ISO/IEC 27001 Lead Auditor) frá breska staðlaráðinu. Guðmundur starfaði sem hagfræðingur, sviðsstjóri og aðstoðarframkvæmdastjóri á Landspítalanum frá 1999 til ársins 2006 en þá hóf hann störf sem innri endurskoðandi OR.

Starfskjaranefnd

Starfskjaranefnd var sett á fót í janúar 2013. Hún er sett á fót í samræmi við áskilnað í Eigendastefnu OR að fyrirtækið móti sér starfskjarastefnu. Nefndina skipa stjórnarmennirnir Sigríður Rut Júlíusdóttir og Kjartan Magnússon auk Ástu Bjarnadóttur, doktors í vinnu- og skipulagssálfræði.

Áhættustefna

[Stefna yfirfarin og samþykkt á stjórnarfundi 28.11.2016]

Meginmarkmið áhættustefnu er að tryggja að Orkuveita Reykjavíkur geti sinnt grunnhlutverki sínu á sem hagstæðastan máta með lágmarksáhættu. Þetta gerir OR með því að:

  • draga úr sveiflum í afkomu samstæðunnar á hverjum tíma með tilliti til undirliggjandi áhættu í rekstrinum og að áhættuþættir séu ávallt innan skilgreindra marka sem stjórnin setur og er skráð í áhættuhandbók. Mynd að neðan tilgreinir helstu áhættuþætti í samstæðu OR.
  • tryggja að OR hafi nægt fé til að standa undir uppbyggingu á þjónustu og reglulegri starfsemi
  • stuðla skal að því að OR hafi aðgang að fjölbreyttri fjármögnun frá mörgum fjármálastofnunum og treysta ekki um of á eina tegund fjármögnunar umfram aðra

Stjórn felur áhætturáði að framfylgja áhættustefnu í rekstri OR og innan marka sem sett eru í áhættuhandbók. Breytingar á mörkum krefjast samþykktar stjórnar OR.

Áhættustefnan byggir á gildum og heildarstefnu OR og er sett fram til samræmis við eigendastefnu fyrirtækisins.

 

Arðsstefna

Samþykkt um arðgreiðsluskilyrði er gerð í samræmi við ákvæði í eigendastefnu OR. Í henni er gert ráð fyrir að stjórn samþykki arðsstefnu fyrir fyrirtækið, sem hljóta skuli staðfestingu eigenda. Í samþykktinni eru fjárhagslegir mælikvarðar, sem uppfylltir skulu, áður en til arðgreiðslu kemur og arðgreiðslur mega ekki brjóta gegn.

Eigendur OR eru þrír; Reykjavíkurborg (93,5%), Akraneskaupstaður (5,5%) og Borgarbyggð (1%). Sveitarstjórnir allra eigenda hafa samþykkt tillögu stjórnar um að OR greiði eigendum ekki arð nema að fjárhagsstaða fyrirtækisins uppfylli tiltekin skilyrði. Þau snúa meðal annars að eiginfjárhlutfalli, lausafjárstöðu, skuldsetningu og hlutfalli hagnaðar sem greiða má út í formi arðs. Tillagan var samþykkt samhljóða af öllum sveitarfélögunum.Skilyrðin eru þessi:

 2016-20182019-
1. Veltufjárhlutfall>1,0>1,0
2. Eiginfjárhlutfall>35%>40%
3. FFO vaxtaþekja>3,5>3,5
4. RCF / nettó skuldir>11%>13%
5. FFO / nettó skuldir>13%>17%
6. Hlutfall arðs af hagnaði hvers árs≤50%≤50%

 

Skilgreiningar:

FFO = Handbært fé frá rekstri (e. funds from operation)

FCF = Heildarsjóðstreymi (e. free cash flow)

Nettó skuldir = Vaxtaberandi skuldir – handbært fé

EBITDA = Rekstarhagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir

FFO Vaxtaþekja = mælir getu fyrirtækis til að standa við vaxtagreiðslur af skuldbindingum sínum

RCF = Handbært fé frá rekstri - arðgreiðslur