Stefnuskjöl

Heildarstefna OR

Starfsemi

KJARNASTARFSEMI

OR fer með lögbundin veituverkefni og önnur verkefni í sveitarfélögum eigenda og annarra sveitarfélaga. Kjarnastarfsemi OR varðar almannahagsmuni og felst í rekstri vatnsveitu, hitaveitu, rafveitu og fráveitu, sölu og vinnslu á rafmagni og heitu og köldu vatni. OR getur nýtt þekkingu fyrirtækisins til þátttöku í öðrum veiturekstri, s.s. rekstri gagnaveitu, enda þjóni hann markmiðum eigenda og þátttakan hljóti samþykki þeirra.

HLUTVERK

OR er orku- og veitufyrirtæki sem leggur grunn að lífsgæðum í þeim sveitarfélögum sem hún þjónar.

FRAMTÍÐARSÝN

Auka lífsgæði með samfélagsábyrgð að leiðarljósi.

Stefnuáherslur

Áherslur í þróun starfseminnar miða markvisst að því að OR sé þekkt fyrir að:

 • Nýta náttúrugæði á sjálfbæran og ábyrgan hátt.
 • Vera til fyrirmyndar í umhverfismálum og vinna að stöðugum umbótum.
 • Bera virðingu fyrir þörfum viðskiptavina og veita góða og örugga þjónustu.
 • Búa yfir fjárhagslegum styrk og hagkvæmni og sem tryggir þjónustu í takt við þarfir samfélagsins.
 • Vera eftirsóknarverður vinnustaður þar sem fagþekking og þjónustuvilji fer saman.

Umboð til stjórnenda

UMFANG STARFSEMI

OR þjónar heimilum á veitusvæði sínu, fyrirtækjum og stofnunum í samræmi við lögbundnar skyldur og tryggir umsamin gæði og afhendingaröryggi á vörum og þjónustu fyrirtækisins.

Meginstarfssvæði OR er Suðvesturland. Starfsemi annarsstaðar er skoðuð út frá hlutverki fyrirtækisins, arðsemi og áhættu og skulu staðfest af eigendum áður en stofnað er til skuldbindinga vegna þeirra.

ARÐSEMI

OR skal skila eigendum arði af því fé sem þeir eiga í fyrirtækinu og viðskiptavinum þjónustu á sanngjörnu og samkeppnishæfu verði.

SAMFÉLAGSÁBYRGÐ

OR sé þekkt fyrir að starfa með ábyrgum hætti í samfélaginu.

Gildi: Framsýni | Hagsýni | Heiðarleiki

Heildarstefna OR byggist á eigendastefnu og er sett fram til samræmis við hana. 

Samþykkt af stjórn 22.1.2018

Stefnuskjöl OR

Siðareglur OR samstæðunnar

[Siðareglur yfirfarnar og samþykktar á stjórnarfundi 22.01.2018]

Eitt af gildum OR samstæðunnar er heiðarleiki. Heiðarleiki snýr að því hvernig við komum fram við viðskiptavini og hvert við annað, hvernig við störfum og hvernig við tryggjum gegnsæi í rekstri. Siðareglur okkar byggja á gildinu heiðarleika. Siðareglurnar leiðbeina okkur þegar siðferðileg álitamál koma upp í starfi. Þær hjálpa okkur að láta heiðarleika, virðingu og jafnrétti einkenna öll okkar samskipti hvort sem er við viðskiptavini, samstarfsfólk, stjórn, verktaka eða aðra hagsmunaaðila. Þær eru ekki tæmandi og leysa okkur ekki undan undan þeirri ábyrgð að reiða okkur á eigin samvisku þegar siðferðileg álitamál ber upp.

Við erum heiðarleg:

 • Við erum heiðarleg í öllum samskiptum sem tengjast starfi okkar.

Upplýsingagjöf og trúnaður

 • Við veitum réttar upplýsingar um störf og rekstur fyrirtækisins og eigum frumkvæði að því að veita upplýsingar ef við á.
 • Við virðum þagnarskyldu um trúnaðarupplýsinga eins og við á, einnig eftir að látið er af störfum.
 • Við nýtum okkur ekki trúnaðarupplýsingar sem við fáum í starfi til ávinnings fyrir aðra en fyrirtækið.

Hagsmunaárekstrar

 • Við forðumst hagsmunaárekstra og upplýsum um atriði sem kunna að valda hagsmunaárekstrum í starfi.
 • Við misnotum ekki aðstöðu okkar í eigin þágu eða annarra hvort sem ávinningur af slíku kemur fram strax eða síðar.
 • Við upplýsum um spillingu sem og ólögmæta eða ótilhlýðilega háttsemi sem við verðum vör við í starfi.
 • Við þiggjum hvorki né bjóðum gjafir, greiða eða aðra umbun sem er til þess fallin að hafa áhrif á sjálfstæði eða hlutleysi okkar í starfi.

Við sýnum virðingu:

 • Við leggjum okkur fram um að auka virðingu fyrirtækisins í samfélaginu og tökum ekki þátt í vinnu, verkefnum eða samskiptum sem kastað geta rýrð á orðspor fyrirtækisins.
 • Við leggjum okkur fram við sýna virðingu í samskiptum og að eiga frumkvæði að jákvæðum og uppbyggjandi samskiptum.
 • Við virðum tilfinningar, friðhelgi og einkalíf annarra ef slík mál koma upp í starfi.

Við virðum jafnrétti og önnur mannréttindi:

 • Við stuðlum að jafnrétti á vinnustað og erum málefnaleg og sanngjörn í öllum okkar samskiptum.
 • Við mismunum ekki á ólögmætum eða ómálefnalegum forsendum, svo sem vegna kynferðis, kynþáttar, uppruna, trúar‐ eða stjórnmálaskoðana.
 • Við erum umburðarlynd, tökum tillit til ólíkra sjónarmiða og leyfum hæfileikum hvers og eins að njóta sín.
 • Við beitum ekki aðra einelti eða áreitni af neinu tagi.

Stefna um skjala- og upplýsingastjórnun

[Stefnan yfirfarin og samþykkt á samstæðufundi 27.02.2018]

Í skjala- og upplýsingastjórnun Orkuveitu Reykjavíkur er ISO 15489 staðallinn, sem lýsir bestu starfsvenjum í skjalastjórn, hafður til hliðsjónar. Virk skjalastjórn tekur m.a. á því hvernig gögn eru flokkuð, vistuð, þeim aðgangsstýrt og á lengd á varðveislu þeirra. Þetta stuðlar að góðum stjórnarháttum sem er forsenda skilvirkrar og góðrar þjónustu við viðskiptavini.

Stefnan nær til allra skjala fyrirtækisins óháð kerfum. Með skjali er átt við hvers konar gögn, jafn rituð sem í öðru formi, er hafa að geyma upplýsingar og hafa orðið til, borist eða verið viðhaldið, við starfsemi á vegum fyrirtækisins.

 • OR byggir upp og varðveitir sameiginlega þekkingu og sögu fyrirtækisins með samræmdu skipulagi við vistun upplýsinga.
 • OR leggur áherslu á að leit að upplýsingum sé hraðvirk, auðveld og árangursrík sem eykur hagkvæmni í rekstri.
 • OR leggur áherslu á gegnsæi og markvissa notkun upplýsinga í allri starfsemi fyrirtækisins og tryggir þannig yfirsýn og rekjanleika mála.
 • Öryggi og heilleiki upplýsinga er í samræmi við upplýsingaöryggisstefnu.
 • OR fylgir lögum, reglum og leiðbeiningum er varða skjala- og upplýsingastjórnun.

Sett fram í samræmi við gildi og heildarstefnu OR.

Stefna um vistvænar samgöngur

[Stefnan yfirfarin og samþykkt óbreytt á stjórnarfundi OR 20. nóvember 2017]

Stefna um vistvænar samgöngur byggir á gildum og heildarstefnu Orkuveitu Reykjavíkur (OR).

Það er stefna OR og dótturfélaga að vera í fararbroddi í vistvænum samgöngum og gefa gott fordæmi auk þess að nýta stöðu sína og þekkingu til framþróunar vistvænna samgangna. Sömuleiðis að nýta innviði og orkustrauma samstæðunnar til að breikka framboð á lausnum og auka hlut vistvænna samgangna á Íslandi.

Þetta gera OR og dótturfélög með því að ganga fram með góðu fordæmi, með þróun og uppbyggingu innviða og með því að að nýta afurðir samstæðunnar til framleiðslu vistvænna orkugjafa.