Stefnuskjöl

Stefnuskjöl

Heildarstefna Orkuveitu Reykjavíkur

1. Hlutverk

1.1. Tilgangur
Orkuveita Reykjavíkur er orku- og veitufyrirtæki sem leggur grunn að lífsgæðum í þeim sveitarfélögum sem hún þjónar. Hún nýtir náttúruna á ábyrgan, sjálfbæran og hagkvæman hátt og af virðingu án þess að ganga á rétt komandi kynslóða.

Orkuveita Reykjavíkur fer með lögbundin veituverkefni og önnur verkefni í sveitarfélögum eigenda og annarra sveitarfélaga í samræmi við stefnu þessa.

Orkuveita Reykjavíkur þjónar heimilum á veitusvæði sínu, fyrirtækjum og stofnunum í samræmi við lögbundnar skyldur og tryggir umsamin gæði og afhendingaröryggi á vörum og þjónustu fyrirtækisins.

Orkuveita Reykjavíkur skal skila eigendum arði af því fé sem þeir eiga í fyrirtækinu og viðskiptavinum þjónustu á sanngjörnu og samkeppnishæfu verði.

1.2. Kjarnastarfsemi
Kjarnastarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur varðar almannahagsmuni og felst í rekstri vatnsveitu, hitaveitu, rafveitu og fráveitu, sölu og framleiðslu á rafmagni og heitu og köldu vatni. Orkuveita Reykjavíkur getur nýtt þekkingu fyrirtækisins til þátttöku í öðrum veiturekstri, s.s. rekstri gagnaveitu, enda þjóni hann markmiðum eigenda og þátttakan hljóti samþykki þeirra.

1.3. Starfssvæði og starfsvið
Meginstarfssvæði Orkuveitu Reykjavíkur er Suðvesturland. Starfsemi annarsstaðar eru skoðuð út frá hlutverki fyrirtækisins, arðsemi og áhættu og skulu staðfest af eigendum áður en stofnað er til skuldbindinga vegna þeirra.

2. Framtíðarsýn

Áherslur í þróun starfseminnar miða markvisst að því að OR sé þekkt fyrir að:

 • Nýta náttúrugæði á sjálfbæran og ábyrgan hátt.
 • Vera til fyrirmyndar í umhverfismálum og vinna að stöðugum umbótum.
 • Bera virðingu fyrir þörfum viðskiptavina og veita góða og örugga þjónustu.
 • Búa yfir fjárhagslegum styrk og hagkvæmni og sem tryggir þjónustu í takt við þarfir samfélagsins.
 • Vera eftirsóknarverður vinnustaður þar sem fagþekking og þjónustuvilji fer saman.
 • Starfa með ábyrgum hætti í samfélaginu.

3. Gildi

 • Framsýni
 • Hagsýni
 • Heiðarleiki

Samþykkt af stjórn 25.1.2016

Önnur stefnuskjöl OR

Arðsstefna

Samþykkt um arðgreiðsluskilyrði er gerð í samræmi við ákvæði í eigendastefnu OR. Í henni er gert ráð fyrir að stjórn samþykki arðsstefnu fyrir fyrirtækið, sem hljóta skuli staðfestingu eigenda. Í samþykktinni eru fjárhagslegir mælikvarðar, sem uppfylltir skulu, áður en til arðgreiðslu kemur og arðgreiðslur mega ekki brjóta gegn.

Eigendur OR eru þrír; Reykjavíkurborg (93,5%), Akraneskaupstaður (5,5%) og Borgarbyggð (1%). Sveitarstjórnir allra eigenda hafa samþykkt tillögu stjórnar um að OR greiði eigendum ekki arð nema að fjárhagsstaða fyrirtækisins uppfylli tiltekin skilyrði. Þau snúa meðal annars að eiginfjárhlutfalli, lausafjárstöðu, skuldsetningu og hlutfalli hagnaðar sem greiða má út í formi arðs. Tillagan var samþykkt samhljóða af öllum sveitarfélögunum.Skilyrðin eru þessi:

 2016-20182019-
1. Veltufjárhlutfall>1,0>1,0
2. Eiginfjárhlutfall>35%>40%
3. FFO vaxtaþekja>3,5>3,5
4. RCF / nettó skuldir>11%>13%
5. FFO / nettó skuldir>13%>17%
6. Hlutfall arðs af hagnaði hvers árs≤50%≤50%

 

Skilgreiningar:

FFO = Handbært fé frá rekstri (e. funds from operation)

FCF = Heildarsjóðstreymi (e. free cash flow)

Nettó skuldir = Vaxtaberandi skuldir – handbært fé

EBITDA = Rekstarhagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir

FFO Vaxtaþekja = mælir getu fyrirtækis til að standa við vaxtagreiðslur af skuldbindingum sínum

RCF = Handbært fé frá rekstri - arðgreiðslur

Áhættustefna

[Stefna yfirfarin og samþykkt á stjórnarfundi 28.11.2016]

Meginmarkmið áhættustefnu er að tryggja að Orkuveita Reykjavíkur geti sinnt grunnhlutverki sínu á sem hagstæðastan máta með lágmarksáhættu. Þetta gerir OR með því að:

 • draga úr sveiflum í afkomu samstæðunnar á hverjum tíma með tilliti til undirliggjandi áhættu í rekstrinum og að áhættuþættir séu ávallt innan skilgreindra marka sem stjórnin setur og er skráð í áhættuhandbók. Mynd að neðan tilgreinir helstu áhættuþætti í samstæðu OR.
 • tryggja að OR hafi nægt fé til að standa undir uppbyggingu á þjónustu og reglulegri starfsemi
 • stuðla skal að því að OR hafi aðgang að fjölbreyttri fjármögnun frá mörgum fjármálastofnunum og treysta ekki um of á eina tegund fjármögnunar umfram aðra

Stjórn felur áhætturáði að framfylgja áhættustefnu í rekstri OR og innan marka sem sett eru í áhættuhandbók. Breytingar á mörkum krefjast samþykktar stjórnar OR.

Áhættustefnan byggir á gildum og heildarstefnu OR og er sett fram til samræmis við eigendastefnu fyrirtækisins.

 

Siðareglur OR samstæðunnar

[Dags. 23.3.2017]

Eitt af gildum OR samstæðunnar er heiðarleiki. Heiðarleiki snýr að því hvernig við komum fram við viðskiptavini og hvert við annað, hvernig við störfum og hvernig við tryggjum gegnsæi í rekstri. Siðareglur okkar byggja á gildinu heiðarleika. Siðareglurnar leiðbeina okkur þegar siðferðileg álitamál koma upp í starfi. Þær hjálpa okkur að láta heiðarleika, virðingu og jafnrétti einkenna öll okkar samskipti hvort sem er við viðskiptavini, samstarfsfólk, stjórn, verktaka eða aðra hagsmunaaðila. Þær eru ekki tæmandi og leysa okkur ekki undan undan þeirri ábyrgð að reiða okkur á eigin samvisku þegar siðferðileg álitamál ber upp.

Við erum heiðarleg:

 • Við erum heiðarleg í öllum samskiptum sem tengjast starfi okkar.

Upplýsingagjöf og trúnaður

 • Við veitum réttar upplýsingar um störf og rekstur fyrirtækisins og eigum frumkvæði að því að veita upplýsingar ef við á.
 • Við virðum þagnarskyldu um trúnaðarupplýsinga eins og við á, einnig eftir að látið er af störfum.
 • Við nýtum okkur ekki trúnaðarupplýsingar sem við fáum í starfi til ávinnings fyrir aðra en fyrirtækið.

Hagsmunaárekstrar

 • Við forðumst hagsmunaárekstra og upplýsum um atriði sem kunna að valda hagsmunaárekstrum í starfi.
 • Við misnotum ekki aðstöðu okkar í eigin þágu eða annarra hvort sem ávinningur af slíku kemur fram strax eða síðar.
 • Við upplýsum um spillingu sem og ólögmæta eða ótilhlýðilega háttsemi sem við verðum vör við í starfi.
 • Við þiggjum hvorki né bjóðum gjafir, greiða eða aðra umbun sem er til þess fallin að hafa áhrif á sjálfstæði eða hlutleysi okkar í starfi.

Við sýnum virðingu:

 • Við leggjum okkur fram um að auka virðingu fyrirtækisins í samfélaginu og tökum ekki þátt í vinnu, verkefnum eða samskiptum sem kastað geta rýrð á orðspor fyrirtækisins.
 • Við leggjum okkur fram við sýna virðingu í samskiptum og að eiga frumkvæði að jákvæðum og uppbyggjandi samskiptum.
 • Við virðum tilfinningar, friðhelgi og einkalíf annarra ef slík mál koma upp í starfi.

Við virðum jafnrétti og önnur mannréttindi

 • Við stuðlum að jafnrétti á vinnustað og erum málefnaleg og sanngjörn í öllum okkar samskiptum.
 • Við mismunum ekki á ólögmætum eða ómálefnalegum forsendum, svo sem vegna kynferðis, kynþáttar, uppruna, trúar‐ eða stjórnmálaskoðana.
 • Við erum umburðarlynd, tökum tillit til ólíkra sjónarmiða og leyfum hæfileikum hvers og eins að njóta sín.
 • Við beitum ekki aðra einelti eða áreitni af neinu tagi.

Upplýsingatæknistefna

Orkuveita Reykjavíkur lítur á upplýsingatækni sem mikilvægan þátt í að styðja við rekstur fyrirtækisins og nauðsynlegan þátt í virðiskeðju þess. Upplýsingatæknistefna varðar hagnýtingu á upplýsingatækni í starfsemi fyrirtækisins þar sem kerfi, þjónusta og tækninýjungar skulu vera öflug stoð við þau markmið sem fyrirtækið hefur sett sér.

Gagnaöryggi er mikilvægur þáttur í rekstri upplýsingakerfa og er lögð áhersla á áreiðanlegar upplýsingar sem nýttar eru til stýringar, þjónustu og ákvarðanatöku.

Það er stefna OR í upplýsingatækni að:

 • kerfi og gögn séu áreiðanleg, aðgengileg og örugg
 • heildaryfirsýn á upplýsingatækni sé á einum stað
 • rekstur upplýsingatækni sé eins hagkvæmur og kostur er
 • notendur upplýsingatækni hafi greiðan aðgang að þjónustu sem taki mið af þörfum þeirra hverju sinni

Upplýsingatæknistefna OR byggir á gildum og heildarstefnu OR og er sett fram til samræmis við eigendastefnu fyrirtækisins.