Áhættustefna

Áhættustefna

1. Markmið stefnunnar

Grunnhlutverk, helstu skyldur og kjarnastarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur (OR) eru skilgreind í eigendastefnu hennar. Meginmarkmið stjórnar með fjárstýringar- og áhættustefnunni (stefnunni) er að tryggja að OR geti sinnt grunnhlutverki sínu á sem hagstæðastan máta án þess að auka áhættu umfram það sem ásættanlegt er. Fjárstýringar – og áhættustefnan lýsir heildarsýn og meginmarkmiðum stjórnar í þessum grunnatriðum.

Stjórn OR samþykkir og ber ábyrgð stefnunni en stjórn felur áhætturáði að framfylgja henni í rekstri OR. Allar breytingar á stefnunni skulu vera samþykktar af stjórn og eigendafundi áður en þær taka gildi og ber að rýna hana árlega.

Áhættustefnan er samþykkt af stjórn þann 27.10.2014.

2. Fjár- og áhættustýring

2.1 Skilgreining

Áhættustýring felst í því að áhættuþættir eru auðkenndir og þeir metnir. Í kjölfarið eru neikvæð áhrif þeirra takmörkuð með þeim úrræðum sem í boði eru með tilliti til kostnaðar og fylgst með þróun þeirra.

Fjárstýring felst í því að ráðstafa lausu fé þannig að ávöxtun sé hámörkuð að teknu tilliti til stefnunnar. Þá er einnig hlutverk fjárstýringar að greina fjármögnunarþörf og tryggja fjármögnun til framtíðar.

2.2 Markmið

Markmið með fjár- og áhættustýringu hjá OR er að stefna að ásættanlegri afkomu fyrirtækisins á hverjum tíma með tilliti til undirliggjandi áhættu í rekstrinum og að áhættuþættir séu ávallt innan skilgreindra marka sem stjórnin setur.

Tryggja ber að OR hafi viðunandi fjármagn til að standa undir uppbyggingu á þjónustu og reglulegri starfsemi í samræmi við stefnu stjórnar. Stuðla skal að því að OR hafi aðgang að fjölbreyttri fjármögnun frá mörgum fjármálastofnunum og treysta ekki um of á eina tegund fjármögnunar umfram aðra.

2.3 Áhætturáð

Áhætturáð er samráðsvettvangur innan OR hvað áhættustýringu varðar. Áhætturáð, í umboði forstjóra, fylgist meðal annars með því:

 • Að viðhlítandi aðferðir séu notaðar til auðkenningar og mælingar áhættu
 • Að eftirlitskerfi með áhættu séu til staðar og séu skilvirk
 • Að áhættustefnu stjórnar sé fylgt í rekstri OR
 • Að fara yfir undantekningar frá stefnu og vísa til stjórnar eftir atvikum

Forstjóri OR skipar áhætturáð og skiptir verkum á milli nefndarmeðlima.

2.4 Skipulag fjár- og áhættustýringar

Framkvæmdastjóri fjármála OR ber ábyrgð á  umsjón og framkvæmd fjár- og áhættustýringar. Hlutverki fjár- og áhættustýringar OR má skipta í tvennt; eftirlit og stýringu.

Eftirlitshlutverk felst meðal annars í:

 • Að fylgjast með og meta áhættuþætti og þróun þeirra
 • Bera saman við viðmiðunarmörk áhættuþátta í áhættustefnu og útfæra þau mörk nánar
 • Miðla upplýsingum varðandi áhættustýringu til stjórnar, forstjóra og annarra stjórnenda eftir því sem við á
 • Tilkynningum til viðeigandi aðila innan fyrirtækisins nálgist áhætta sett viðmiðunarmörk eða fari yfir þau
 • Meta aðstæður m.t.t. viðbúnaðaráætlunar

Stýring felast meðal annars í:

 • Greiningu á mögulegum aðgerðum til að lágmarka áhættu
 • Útfærsla og framkvæmd á áhættuvörnum
  • Nákvæm útfærsla á vörnum fer fyrir áhætturáð sem samþykkir framkvæmd innan þeirra marka sem stjórn setur
  • Að vekja starfsmenn til vitundar um mikilvægi áhættustýringar
  • Hrinda í framkvæmd viðbúnaðaráætlun þegar við á.

2.5 Áhættuhandbók

Áhætturáð samþykkir og er ábyrgt fyrir áhættuhandbókinni. Fjár- og áhættustýring skrifar og viðheldur áhættuhandbókinni og leggur breytingar fyrir áhætturáð. Áhættu­handbókin skilgreinir verklag, heimildir og ábyrgð. Sér í lagi útfærir áhættuhandbókin nánar það vinnulag sem fylgt er við fjár- og áhættustýringu OR.

2.6 Áhættuskýrsla stjórnar

Stjórn skal fara yfir áhættuskýrslu á hverjum reglulegum fundi sínum. Sérstök áhersla skal lögð á að skýrslan sýni með skýrum og skilvirkum hætti hvernig OR uppfyllir þau mörk sem stefnan setur.

Fjár- og áhættustýring vinnur áhættuskýrsluna mánaðarlega og er skýrslan lögð fyrir áhætturáð og stjórn.

2.7 Mörk stefnu

Fyrir vissa áhættuþætti í stefnunni eru skilgreind mörk. Stjórn er heimilt að samþykkja gjörninga sem víkja frá mörkum í sérstökum tilfellum þegar aðrir hagsmunir eru metnir ríkari.