Siðareglur

Siðareglur

1. gr. Markmið

Í þessu skjali er lýst þeirri háttsemi sem starfsfólk Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga sýnir af sér við störf sín.

Í fyrirtækinu er lögð áhersla á heiðarleika, gagnkvæma virðingu og traust.

2. gr. Almennar starfsskyldur

Starfsfólk Orkuveitunnar gegnir störfum sínum af alúð og samviskusemi, með hagsmuni fyrirtækisins í öndvegi, án tillits til eigin hagsmuna eða persónulegra skoðana. Starfsfólk gætir kurteisi og réttsýni, hefur í heiðri heiðarleika og sanngirni og starfar í anda jafnréttis. Starfsfólk sýnir viðskiptavinum virðingu og umburðarlyndi , virðir friðhelgi heimila sem fara þarf inn á og rækir störf sín af þjónustulund og ábyrgð. Starfsfólk upplýsir viðskiptavini um réttindi þeirra og þjónustu fyrirtækisins.

Starfsfólk vinnur saman af heilindum og hlutlægni að settum markmiðum fyrirtækisins, sýnir hvert öðru virðingu og virðir verkaskiptingu sín á milli, vinnutíma og frítíma hvers annars. Starfsfólk forðast að hafast nokkuð að sem er því til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein er það vinnur við. Starfsfólk aðhefst ekkert það sem telst andstætt hagsmunum fyrirtækisins. Starfsfólk virðir tilfinningar og einkalíf hvers annars.

3. gr. Hæfni

Starfsfólk gætir þess að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til starfs þess á hverjum tíma. Það leggur sig fram um að viðhalda faglegri hæfni sinni og þekkingu í starfi og auka hana sjálfu sér og starfseminni til hagsbóta.

Starfsfólk gætir að andlegri og líkamlegri heilsu sinni og samstarfsmanna.

4. gr. Umhverfið

Starfsfólk virðir umhverfið og gætir þess að ákvarðanir fyrirtækisins hafi sem minnst áhrif á náttúru landsins. Þess er gætt að valda ekki óþarfa spjöllum á náttúrunni, mannvirkjum og sögulegum minjum.

5. gr. Samfélagið

Starfsfólk virðir mikilvægi Orkuveitu Reykjavíkur í samfélaginu og leggur sig fram til að auka virðingu og efla ímynd fyrirtækisins svo það verði áfram leiðandi sem góður þjóðfélagsþegn.

Starfsfólk Orkuveitu Reykjavíkur virðir lög og reglugerðir.

6. gr. Öryggismál

Starfsfólk fer eftir öryggisreglum og virðir eigið öryggi sem og samstarfsmanna.

Starfsmenn virða öryggi samborgaranna og ganga þannig um vinnusvæði að ekki stafi hætta af.

7. gr. Hagsmunaárekstrar

Starfsfólk forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum og vekur athygli á því ef hætta er á þeim. Þetta á einnig við ef breytingar verða á högum starfsfólks sem gætu valdið slíkum hagsmunaárekstrum.

Starfsfólk misnotar ekki aðstöðu sína í þágu einkahagsmuna sinna eða annarra, hvort sem ávinningur af slíku kemur fram strax eða síðar, þ.m.t. eftir að störfum hjá Orkuveitu Reykjavíkur lýkur.

Starfsfólk upplýsir um spillingu, ólögmæta eða ótilhlýðilega háttsemi, sem það kann að verða vart við í störfum sínum.

8. gr. Trúnaður

Starfsfólk gætir trúnaðar um upplýsingar  sem það fær í starfi sínu og gæta ber trúnaðar um. Þessi þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum.

9. gr. Ráðningar í störf

Hjá Orkuveitu Reykjavíkur er þess gætt að við ráðningar í störf sé í hvívetna fylgt lögum og reglum, kjarasamningum, starfsmannastefnu og jafnréttisstefnu fyrirtækisins. Þess er gætt að málefnaleg sjónarmið liggi að baki vali á starfsmönnum.

10. gr. Gjafir og fríðindi

Hjá Orkuveitu Reykjavíkur eru ekki þegnar boðsferðir, gjafir eða önnur fríðindi sem tengjast viðskiptum fyrirtækja eða einstaklinga við Orkuveituna, ef líta má á gjafirnar sem endurgjald fyrir greiða eða sérstaka þjónustu.

Orkuveita Reykjavíkur heimilar atburði og gjafir í hófi eins og tíðkast vegna markaðssetningar hjá sambærilegum fyrirtækjum.