Sagan

Sagan

Veiturekstur frá 1909

Rætur OR má rekja til áranna; 1909, þegar vatnsveita var stofnuð í Reykjavík, 1921 þegar Rafstöðin við Elliðaár varð upphaf Rafmagnsveitu Reykjavíkur og 1930, þegar fyrstu húsin í Reykjavík voru tengd hitaveitu úr Þvottalaugunum í Laugardal. Starfssvæði OR nær nú til Suður- og Vesturlands auk höfuðborgarsvæðisins. Árið 2002 var sameignarfyrirtækið Orkuveita Reykjavíkur stofnað og þá sameinuðust Akranesveita, Andakílsárvirkjun og Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar veiturekstrinum á höfuðborgarsvæðinu.

Heimildir við skrif tímalínu eru einkum sóttar í Sögu Vatnveitu Reykjavíkur 1909-1999 eftir Hilmar Garðarsson, Sögu Rafmagnsveitu Reykjavíkur eftir Sumarliða R. Ísleifsson og Sögu Hitaveitu Reykjavíkur eftir Lýð Björnsson.

Tímalína

 • 2015

  Uppskiptingu OR lokið

  Lokið er við uppskiptingu OR þegar Veitur birtast viðskiptavinum undir eigin merki.

 • 2014

  OR skipt upp

  OR skipt upp að lagaboði og dótturfélögin Orka náttúrunnar, sem sér um framleiðslu og sölu á rafmagni, og Veitur, sem reka vatnsveitu, hitaveitu, rafveitu og fráveitu, líta dagsins ljós. 

 • 2012

  OR sett eigendastefna

  OR verður fyrsta orkufyrirtækið sem fær samþykkta eigendastefnu. Hún var samþykkt einróma í öllum þremur sveitarstjórnum eigenda.

 • 2010

  Hitaveitan á Hellisheiðarvirkjun tekin í notkun

  Í desember 2010 er fyrsti áfangi hitaveitu frá Hellisheiðarvirkjun tekinn í notkun en aukin framleiðsla á heitu vatni til hitaveitu er ein frumforsenda þess að Hellisheiðarvirkjun er reist.

 • 2007

  Gagnaveita Reykjavíkur stofnuð

  Gagnaveita var stofnuð sem svið innan OR 1. janúar 2005 en er breytt í hlutafélag 1. janúar 2007. Viðskiptavinir Gagnaveitunnar, sem á og rekur Ljósleiðaranetið, eru bæði fyrirtæki og heimili á veitusvæðum OR.

 • 2006

  OR tekur við fráveitum

  Með samningum við eigendur OR, tekur fyrirtækið við því lögbundna hlutverki sveitarfélaganna að byggja upp og reka fráveitur. Hafist er handa við miklar endurbætur á fráveitukerfum í takti við kröfur nýrra tíma.

 • 2006

  Rafmagnsframleiðsla hefst í Hellisheiðarvirkjun

  Jarðhitasvæði Hellisheiðarvirkjunar er sunnan við Hengilinn. Afl fyrsta áfangans er 90 MW fullbyggð getur hún orðið um 300 MW í rafmagni og 400 MW í varmaafli. 

 • 2002

  Akranes, Borgarbyggð og Borgarfjarðarsveit eignast hlut í OR og sérstök lög um OR ganga í gildi.

   Hitaveita Akraness og Borgarbyggðar sameinast OR og er rekin undir merkjum OR. Auk þess leggja Akurnesingar rafveitu sína og Andakílsárvirkjun inn í OR. Eigendahlutfall skiptist á milli Reykjavíkur (94%), Akraneskaupstaðar (5%) og Borgarbyggðar (1%). 

 • 2000

  Vatnsveita Reykjavíkur sameinast Orkuveitu Reykjavíkur

  Starfsvæði OR með vatnsveitum er að mestu á höfuðborgarsvæðinu en einnig víða á Suður- og Vesturlandi.

 • 1999

  Rafmagnsveita Reykjavíkur og Hitaveita Reykjavíkur sameinast í Orkuveitu Reykjavíkur.

  Tvö öflug veitufyrirtæki renna saman í eitt: Orkuveitu Reykjavíkur. Raforkudreifingin nær á komandi árum til liðlega helmings landsmanna í fimm sveitarfélögum við Faxaflóa; Reykjavík, Kópavogi, Mosfellsbæ, Akranesi og Garðabæ. Hitaveitan er stærsta jarðvarmahitaveita í heimi og er stærsta uppspretta vatns hennar Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun. En í fjölda lághitasvæða, þar sem Reykjadalur í Mosfellsbæ telur mest, eru sótt 600 MW afls. 

 • 1994

  Vatnsveitur verða matvælafyrirtæki

  Ný reglugerð um matvælaeftirlit tekur gildi. Vatnsveitur eru í fyrsta sinn skilgreindar sem matvælafyrirtæki.

 • 1991

  Veitingahús á toppi vatnsgeyma

  Perlan, útsýnir- og veitingahús á toppi vatnsgeymanna á Öskjuhlíð er tekið í notkun. Perlan tengir saman og hvílir ofan á sex hitaveitugeymum sem hver um sig rúmar 4 milljónir lítra af heitu vatni. Hún er stálgrindahús en stálgrindin hefur öðru hlutverki að gegna en tengja saman hitaveitugeyma og mynda hvolfþak. 

   

 • 1990

  Heitavatnsframleiðsla hefst í Nesjavallavirkjun

  Hitaveitan á Nesjavöllum er tekin í notkun 1990 þar sem grunnvatn er hitað upp og flutt til höfuðborgarsvæðisins. Hún framleiðir nú 120 MW af rafmagni og 300 MW í varmaorku. 

 • 1984

  Síðasta vatnsbóli Reykjavíkur lokað

 • 1979

  Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar (HAB) stofnuð

  Upphaf hitaveitu í Borgarfirði má rekja aftur til 7. áratugar síðustu aldar þegar jarðhitamælingar hófust á svæðinu. Eftir árangurslausar tilraunir Borgfirðinga og Akurnesinga fyrstu árin leiddi frumathugun á Deildartunguhver í ljós að hagkvæmt yrði að nýta hitann úr honum í hitaveitu. Hverinn er sá vatnsmesti á Íslandi og Evrópu allri. Hitaveitan er formlega stofnuð árið 1979 á Hvanneyri.

 • 1977

  Ísland rafvætt að fullu

  Hætt er að skrá íbúa án rafmagns í opinberum tölum og telst Ísland því vera fullrafvætt.

 • 1971

  Reykvíkingar fá aðgang að hitaveitu

  98% Reykvíkinga eru tengdir Hitaveitunni. Upp frá þessu fá öll ný hverfi hitaveitu frá fyrsta degi.

 • 1968

  Nauthólsvík lokað

  Baðströndinni í Nauthólsvík er lokað vegna mengunar. Hún er opnuð á ný árið 2000 eftir stórátak í fráveitumálum. 

 • 1965

  Upphaf Landsvirkjunar

  Landsvirkjun er stofnuð af ríki og Reykjavíkurborg. Markmið hennar er að sjá Suður- og Vesturlandi fyrir raforku, meðal annars með virkjun Þjórsár.

  Reykjavíkurborg leggur Sogsvirkjanirnar inn í fyrirtækið á móti vatnsréttindum ríkisins í Þjórsá og eignast tæpan helming í Landsvirkjun. Síðar bætist Akureyrarkaupstaður í hóp eigenda með því að Laxárstöð er lögð til Landsvirkjunar.

 • 1965

  Nesjavellir

  Reykjavíkurborg kaupir jörðina Nesjavelli til  jarðhitanýtingar. Hún hófst árið 1990 þegar heitavatnsframleiðsla hófst í Nesjavallavirkjun.

 • 1961

  Sundlaug Vesturbæjar vígð

   Sérstaka athygli vekja svokallaðir „heitir pottar“ við laugarbakkann.

 • 1959

  Steingrímsstöð hefur rekstur

  Þriðja og síðasta Sogstöðin vígð. Síðar verður Sogsvirkjun, eigandi virkjananna þriggja, lögð niður við stofnun Landsvirkjunar 1965.

 • 1958

  Gufuborinn

  Ríkið og Reykjavíkurborg festa kaup á „gufubornum“ sem gjörbyltir allri jarðvarmanýtingu, jafnt á lághita- og háhitasvæðum. Áratugina á eftir er gufuborinn nýttur til að afla aukins heits vatns með því að endurvirkja lághitasvæðin í Laugarnesi, Reykjum og Reykjahlíð og boranir voru hafnar með honum í Elliðaárdal. 

 • 1956

  Kjarnfræðanefnd Íslands stofnuð

  Kjarnfræðanefnd Íslands er stofnuð. Henni er ætlað að rannsaka hagnýtingu kjarnorku, sem almennt var álitin mikilvægasti orkugjafi framtíðarinnar.

 • 1955

  Kolviðarhóll keyptur

  Reykjavíkurborg kaupir jörðina Kolviðarhól með jarðhitanýtingu þar í huga. Hún hefst ekki fyrr en 2006 þegar Hellisheiðarvirkjun tekur til starfa.

   

 • 1953

  Írafosstöð

  Írafossstöð í Soginu hefur rekstur.

 • 1952

  Fjárfest í IBM gataspjaldavélum

  Rafmagnsveita Reykjavíkur og Hagstofan festa saman kaup á IBM gataspjaldavélum. Upphaf tölvualdar á Íslandi.

 • 1950

  Írafossvirkjun í Sogi

  Framkvæmdir hefjast við Írafossvirkjun í Sogi. Samhliða er unnið að undirbúningi áburðarverksmiðju í Gufunesi til að nýta hluta orkunnar.

 • 1947

  Andakílsárvirkjun

  Andakílsárvirkjun er tekin í gagnið.  Rekstur hefst í Andakílsárvirkjun í október 1947. Virkjunin leysir vélknúnar rafstöðvar af hólmi sem notaðar höfðu verið bæði á Akranesi og í Borgarnesi og nálægu dreifbýli. Virkjun árinnar lauk 1974 þegar ný vélasamstæða er tekin í notkun. Heildarframleiðslugeta er 8 MW.

 • 1947

  Jarðhitarannsóknir hefjast í Henglinum

  Ríkið, Reykjavíkurbær og Hafnarfjörður hefja jarðhitarannsóknir í Henglinum. Talið er að orkan sé næg en bortæknin ekki fyrir hendi. 

 • 1943

  Hnitbjörg

  Hnitbjörg, listasafn Einars Jónssonar, tengist hitaveitunni frá Reykjum fyrst húsa. Reykjavík er hitaveituvædd í kjölfarið. Til að anna aukinni eftirspurn eftir heitu vatni er ákveðið að taka Reykjaveituna í Mosfellsbæ í notkun í nóvember 1943.

 • 1940

  Baðherbergi

  Áætlað er að helmingur skráðra íbúða í Reykjavík hafi yfir að búa baðherbergi.

 • 1937

  Ljósafossvirkjun

  Ljósafossvirkjun í Sogi er tekin í notkun. Stærstur hluti orkunnar fer í að knýja Rafha-eldavélarnar sem allir vilja eignast. 

  Sogsstöðvar er samheiti yfir þrjár vatnsaflsvirkjanir í Soginu sem voru byggðar af Reykjavíkurborg og ríkinu til að tryggja rafmagn í Reykjavík og á Suður- og Vesturlandi. Ljósafossstöð er sú fyrsta. Síðar koma Írafossstöð og Steingrímsstöð.

 • 1933

  Hitaréttindi og rannsóknir

  Bæjarstjórn Reykjavíkur tryggir sér hitaréttindi að Reykjum í Mosfellsdal og hefur rannsóknir á svæðinu.

  Rannsóknir á jarðhitasvæðinu að Reykjum hefjast í september 1933 til þess að anna aukinni eftirspurn. Árið 1937 er hitaveita komin í 58 hús.

 • 1930

  Austurbæjarskóli

  Austurbæjarskóli er fyrsta húsið í Reykjavík sem hitað er með vatni úr Þvottalaugunum. Hitaveita Reykjavíkur stofnuð.

   

 • 1928

  Borun hefst eftir heitu vatni

  Árið 1928 er fyrsta holan boruð við Þvottalaugarnar í Reykjavík, sem höfðu verið notaðar um áratugi til þvotta. Við borunina jókst vatnsstreymið til yfirborðsins og náði 14 lítrum á sekúndu af 87°C heitu vatni. 

 • 1926

  Vindrafstöð á Kópavogshálsi

  Vindrafstöð er sett upp á Kópavogshálsi, sú fyrsta á Íslandi. Hún sér Kópavogshæli fyrir orku.

 • 1921

  Elliðaárstöð tekin í notkun

   Rekstur Rafmagnsveitu Reykjavíkur hefst.

  Í árslok 1919 ákveður bæjarstjórn Reykjavíkur að láta reisa 1000 hestafla virkjun við Elliðaárnar. Framkvæmdum við virkjunina lauk á vormánuðum 1921 og var stöðin vígð hinn 27. júní sama ár. Rafmagnið er leitt með ofanjarðarlínu í aðveitustöð á Skólavörðuholti, sem þá var í útjaðri bæjarins. Þaðan er raforkunni dreift í neðanjarðarleiðslum til átta spennibreytistöðva í bænum. 

   

 • 1910

  Gasstöð við Hlemm

  Rekstur Gasstöðvar Reykjavíkur við Hlemm hefst. Næstu áratugina sér hún bæjarbúum fyrir gasi, einkum til matseldar. Rekstri var hætt 1956.

 • 1909

  Vatnsveita Reykjavíkur tekur til starfa

  Vatnið er í fyrstu sótt í Elliðaárnar en síðar Gvendarbrunna.

  Árið 1908 var hafist handa um að leggja vatnspípur um Reykjavíkurbæ og telst Vatnsveita Reykjavíkur stofnuð 16. júní 1909. Vatni er hleypt í bæinn „til reynslu“ úr Elliðaám. Stofndagur Vatnsveitu Reykjavíkur er þó jafnan talinn 2. október 1909 þegar  leiðsla frá Gvendarbrunnum er tekin í notkun. Með þessum virkjunarframkvæmdum eiga Reykvíkingar greiðan aðgang að nægu hreinu vatni, enda leið ekki á löngu þar til vatnsneysla þeirra margfaldaðist. Vatnsnotkun í Reykjavík eykst úr 18 lítrum á sólahring í rúmlega 200 lítra á sólarhring á hvern íbúa fljótlega eftir tilkomu vatnsveitunnar.

 • 1904

  Borað eftir neysluvatni

  Reykvíkingar reyna að bora eftir neysluvatni í Vatnsmýrinni. Vatnið reynist ódrekkandi.

 • 1899

  Fyrstu rafmagnsljósin á Íslandi

  Fyrstu rafmagnsljósin kveikt á Íslandi í Ísafoldarprentsmiðju. Ljósin fengu rafmagn frá olíuknúinni ljósavél.

 • 1895

  Baðhúsfélag

  Baðhúsfélag er stofnað í miðbæ Reykjavíkur. Það býður upp á heit og köld böð auk steypibaða. Reksturinn gengur illa vegna lítilla viðskipta.

 • 1888

  Boð um að setja upp rafveitu í Reykjavík

  Breskt fyrirtæki býðst til að koma upp rafveitu í Reykjavík innan við áratug eftir að Edison finnur upp ljósaperuna.