Skipulag og stjórnendur

Eignarhlutur OR skiptist á milli Reykjavíkurborgar (93,539%), Akraneskaupstaðar (5,528%) og Borgarbyggðar (0,933%). Fyrirtækið starfar á grundvelli laga nr. 136/2013, um OR og reglugerðar nr. 297/2006. Um starfsemina gilda ýmis sérlög á starfssviði fyrirtækisins. Núgildandi  Sameignarsamningur eigenda OR, sem meðal annars kveður á um stjórnarhætti, er frá árinu 2014. Framkvæmdastjórar sveitarfélaganna - borgarstjórinn í Reykjavík, bæjarstjórinn á Akranesi og sveitarstjóri Borgarbyggðar - fara með atkvæði þeirra á aðalfundi. Eigendur hafa sett fyrirtækinu eigendastefnu

PDF iconSkipurit OR samstæðunnar

 

Helstu stjórnendur

Forstjóri OR og framkvæmdastjórar leiða samstæðuna.

Forstjóri

Bjarni Bjarnason

Bjarni Bjarnason forstjóri lauk B.Sc. prófi í jarðfræði frá Háskóla Íslands árið 1981. Þá tók hann licentiat-próf í námaverkfræði frá Tækniháskólanum í Luleå í Svíþjóð 1986. Bjarni tók við forstjórastarfinu 1. mars 2011. Hann hafði þá starfað sem forstjóri Landsvirkjunar Power, dótturfélags Landsvirkjunar, frá 2008 en áður var hann framkvæmdastjóri orkusviðs Landsvirkjunar um sjö ára skeið. Bjarni hefur sinnt ýmsum stjórnunarstörfum á ferli sínum, m.a. sem tæknistjóri Jarðborana hf., framkvæmdastjóri Kísiliðjunnar í Mývatnssveit og forstjóri Íslenska járnblendifélagsins á Grundartanga.

 

Framkvæmdastjórar móðurfélags

Ingvar Stefánsson

Ingvar Stefánsson er framkvæmdastjóri Fjármála. Hann hefur viðskiptafræðipróf á endurskoðunarsviði auk meistaragráðu í fjármálum og stjórnun og hefur víðtæka stjórnunarreynslu úr atvinnulífinu. Hann var starfsmannastjóri hjá Esso í átta ár, forstöðumaður fyrirtækjasviðs Olíufélagsins í fjögur ár, framkvæmdastjóri dótturfyrirtækis Lyfja og heilsu í tvö ár, kennari við Háskólann á Bifröst í fjármálum, samningatækni, stjórnun og stefnumótun samhliða annarri vinnu og loks framkvæmdastjóri og forstöðumaður Íslandsbanka Fjármögnunar, um 40 manna einingar innan bankans, til ársins 2011 þegar Ingvar hóf störf hjá OR.


 

Skúli Skúlason

Skúli Skúlason er framkvæmdastjóri Þjónustu. Hann hefur viðskiptafræðipróf, meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun og hefur víðtæka stjórnunarreynslu úr atvinnulífinu. Hann var deildarstjóri tómstundamála hjá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur í 7 ár og síðar fjármálastjóri þess í 10 ár. Hann var ráðgjafi hjá Capacent ráðgjöf með áherslu á gerð viðskiptaáætlana, almenna rekstrarráðgjöf og áætlanagerð. Hann var stundakennari í rekstrargreiningu við Háskólann í Reykjavík  auk þess sem hann kenndi ýmis námskeið við Opna háskólann og víðar á sviði áætlanagerðar, innkaupastjórnunar og hönnun ferla í rekstri.

 

 

Hildigunnur Thorsteinsson

Hildigunnur Thorsteinsson er framkvæmdastjóri Þróunar. Hún lauk prófi í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2005 og meistaraprófi frá MIT árið 2008 á sviði jarðvarma. Hún hefur unnið að jarðhitamálum allt frá 2005 og árið 2009 hóf hún störf hjá Department of Energy í Washington. Hildigunnur var teymisstjóri og hafði umsjón með tugum rannsóknarverkefna sem ýtt var úr vör með átaki Bandaríkjastjórnar á sviði grænnar orku. Hún gekk til liðs við OR árið 2013.
 

 


Framkvæmdastjórar dótturfélaga

Gestur Pétursson

Gestur Pétursson er framkvæmdastjóri Veitna. Hann lauk meistaragráðu í iðnaðar- og rekstrarverkfræði með áherslu á orkumál og áhættustýringu frá Oklahoma State University í Bandaríkjunum árið 1998. Gestur var framkvæmdastjóri öryggis-, heilbrigðis- og umhverfismála hjá Elkem Ísland frá því í árslok 2010 og forstjóri fyrirtækisins síðustu liðlega fimm árin. Í störfum sínum fyrir Elkem Ísland vann hann að innleiðingu og samþættingu nýsköpunar í fyrirtækjamenningu félagsins til að takast á við þau tækifæri sem orkuskiptin í heiminum fela í sér, vöruþróun gagnvart viðskiptavinum og umbótum á kostnaðargrunni verksmiðjunnar á Grundartanga. 


 

Erling Freyr Guðmundsson

Erling Freyr Guðmundsson er framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. Hann lagði fyrst stund á rafvirkjun og lauk MBA-prófi frá Háskólanum í Reykjavík 2009. Erling stofnaði Ljósvirkjann, þjónustufyrirtæki við fjarskiptafyrirtæki, árið 1996 og upp úr aldamótum stofnaði hann ásamt öðrum Industria, fyrirtæki sem sérhæfði sig í þjónustu við uppbyggingu ljósleiðarakerfa. Hann rak það fyrirtæki hér á landi frá 2003 og síðan á Bretlandseyjum frá ársbyrjun 2008. Árið 2013 tók Erling við framkvæmdastjórn fjarskipta- og tæknisviðs 365 miðla og starfaði frá miðju ári 2014 sem fjármálastjóri við endurskipulagningu á Hringrás og tengdum félögum. Hann hóf störf hjá OR í ársbyrjun 2015.

 

Berglind Rán

Berglind Rán Ólafsdóttir er framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar ohf. Hún er sameindalíffræðingur með MBA próf frá IESE í Barcelona. Hún kom til starfa hjá Orku náttúrunnar 2017 og hafði þá meira en áratugarreynslu af viðskiptaþróun meðal annars hjá Landsvirkjun, Medis og Íslenskri erfðagreiningu.

 

 


Stoðeiningar

Undir forstjóra heyra átta stjórnendur sérfræðisviða, sem starfa með öllum einingum samstæðunnar.

Kristjana Kjartansdóttir, gæðastjóri, lauk MS í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands 2010, uppeldis- og kennslufræði frá sama skóla 1995 og tók B.Sc. próf í rekstrartæknifræði frá Tækniháskólanum í Óðinsvéum 1987. Kristjana hefur gegnt stjórnunarstörfum á ferli sínum hérlendis og erlendis m.a. sem framleiðslustjóri hjá Teledyne Gavia ehf., deildarstjóri hjá Miros AS í Noregi og deildarstjóri hjá FSu. Auk þess hefur hún starfað við kennslu og sem ráðgjafi hjá 7.is.

Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri, er líffræðingur frá Háskóla Íslands 1983 með Meistarapróf í jarðvegslíffræði frá Árósaháskóla í Danmörku auk MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hólmfríður á langan feril að baki á sviði umhverfismála en hún starfaði m.a. á Skipulagsstofnun um 12 ára skeið, lengst af sem sviðsstjóri umhverfissviðs. Hún hóf störf hjá OR árið 2007.

Reynir Guðjónsson er öryggisstjóri OR. Hann hefur langa reynslu af starfi á því sviði. Hann vann hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins um árabil og var öryggisfulltrúi hjá RioTinto-Alcan og gæðastjóri þar. Hann vann einnig sem forvarnarfulltrúi hjá VÍS um tveggja ára skeið.

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi OR, lauk blaðamannaprófi frá Ohio University 1989 og starfaði við ýmsa fjölmiðla í um 15 ár. Hann var aðstoðarmaður borgarstjórans í Reykjavík 2003 til 2006 þegar hann var ráðinn til OR. Eiríkur lauk meistaraprófi í verkefnastjórnun frá Verkfræðideild Háskóla Íslands (MPM) vorið 2008.

Elín Smáradóttir, lögfræðingur OR, útskrifaðist úr lagadeild Háskóla Íslands árið 1994 og hlaut héraðsdómslögmannsréttindi árið 1996. Hún starfaði hjá Skipulagsstofnun á árunum 1994-2003 og síðan hjá Orkustofnun til ársins 2008 þegar hún gekk til liðs við OR.

Anna Margrét Björnsdóttir, skjalastjóri, er bókasafns- og upplýsingafræðingur frá Danmarks Biblioteksskole 1988 og með meistarapróf í verkefnastjórnun frá Verkfræðideild Háskóla Íslands (MPM) árið 2007. Hún hóf störf hjá OR vorið 2012 en starfaði áður sem deildarstjóri upplýsingadeildar Hagstofu Íslands og síðar sem verkefnastjóri manntals 2011.

Sólrún Kristjánsdóttir, mannauðsstjóri, lauk BA prófi í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands 1998 og meistaraprófi í stjórnun og stefnumótun frá sama skóla árið 2004. Hún hóf störf hjá Starfsmannamálum OR árið 2004, hafði umsjón með starfsþróunarmálum frá árinu 2006 og mannauðsstjóri frá árinu 2012. Áður starfaði Sólrún við kennslu og sem ráðgjafi á Stuðlum, meðferðarheimili ríkisins fyrir unglinga.

Guðrún Erla Jónsdóttir, stefnustjóri, lauk B.Sc.prófi í ferðamála- og viðskiptafræði frá Háskóla Íslands 2004 með viðkomu í San Diego State University. Hún stundaði framhaldsnám í Syddansk Universitet í Odense og lauk M.Sc.prófi í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands 2006. Guðrún Erla starfaði sem skrifstofustjóri hjá Orkuveitu Húsavíkur til 2008 og síðan sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins þar til hún gekk til liðs við OR árið 2015.

Starfslýsing forstjóra

Nafn: Bjarni Bjarnason

Kennitala: 040656-2359

Forstjóri hefur á hendi framkvæmd stefnu stjórnar fyrirtækisins. Hann skipuleggur starfsemi fyrirtækisins og tryggir að það starfi í samræmi við tilgang þess. Forstjóri ber ábyrgð gagnvart stjórn fyrirtækisins á hinum daglega rekstri . Forstjóri skal sitja stjórnarfundi  og er handhafi eigendavalds í dótturfélögum.

Forstjóri  skipuleggur reksturinn í samræmi við samþykktir félagsins, lög og reglur, skuldbindingar,  körfur og venjur. Hann felur stjórnendum að greina áhættur, leita tækifæra og setur lykilárangursmælikvarða í samvinnu við stjórn og starfsmenn. Forstjóri sér til þess að meðferð eigna fyrirtækisins sé með tryggilegum hætti.

Forstjóri annast allan daglega rekstur fyrirtækisins, allar framkvæmdir og undirbúning þeirra, sjóðvörslu og reikningshald og ráðningu starfsliðs. Hann tryggir fjármagn til rekstrar og samhæfir störf undirmanna sinna.

Forstjóri kemur fram fyrir hönd fyrirtækisins í öllum málum sem varða venjulegan rekstur og tryggir samskipti við hagsmunaaðila.

Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Til óvenjulegra og mikilsháttar ákvarðana teljast t.d. ráðstafanir sem samræmast ekki stefnu og áætlunum fyrirtækisins á hverjum tíma. Slíkar ráðstafanir getur forstjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn, nema að ekki sé unnt að bíða ákvörðunar stjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi fyrirtækisins. Í slíkum tilvikum skal stjórn tafarlaus tilkynnt um ráðstöfunina.

Kaup og sala fastafjármuna og hlutabréfa skal ávallt vera háð samþykki stjórnar.

Forstjóri hefur eftirlit með rekstri fyrirtækisins. Honum ber að veita stjórn og endurskoðendum reglulega upplýsingar um rekstur fyrirtækisins og aðrar upplýsingar sem þeir óska eftir. Forstjóri upplýsir stjórn um árangur og frávik frá áætlunum.

Forstjóri stuðlar að stöðugum  umbótum í rekstri.