Fólk í fjarmynd

Sögur af starfsfólki OR samstæðunnar í breyttu vinnuumhverfi

Ellen.jpg

Mars 2020

Ellen Ýr Aðalsteinsdóttir, mannauðssérfræðingur

Hvaða jákvæðu breytingar sérð þú í þessum breyttu aðstæðum?

Þó að það hafi legið fyrir í nokkurn tíma að við færum að miklu leyti í fjarvinnu um leið og neyðarstigi yrði lýst yfir þá vorum við ekki búin að þjálfa okkur sérstaklega í þeim hluta. Það er ótrúlegt að upplifa að fara úr því að vera fyrirtæki sem kunni ekki fjarvinnu yfir í að vera fyrirtæki sem er orðið leiðandi í fjarvinnutækni

Ég finn fyrir mikilli samkennd og þakklæti á meðal starfsfólks. Við erum að tengjast og kynnast á nýjan hátt, það hefði verið erfiðara að fara í gegnum svona tímabil án tækninnar. Þessar aðstæður hafa dregið enn betur fram í dagsljósið hve samstilltur og flottur hópur vinnur hjá OR samstæðunni sem tekur nýjum áskorunum með jákvæðni og útsjónarsemi. Það væri líka gaman að skoða hvaða jákvæðu áhrif breytt vinnulag gæti haft á kolefnisspor okkar.

Hvað hefur mannauðsteymi OR samstæðunnar gert til að tækla þetta nýja vinnuumhverfi?

Þar sem við sinnum mikilvægri grunnþjónustu samfélagsins þá skipti miklu máli að hlúa vel að mannauði okkar í þessum aðstæðum því kerfin eru ekkert án starfsfólksins sem rekur þau. Við ákváðum strax að leggja áherslu á að rækta bæði líkamlega og andlega heilsu allra og fylgjumst vel með líðan fólks.

„Hvernig líður þér“ er mikilvæg spurning sem við spyrjum oft og sýnum frumkvæði af því að hafa samband við fólk og kanna aðstæður. Samhliða því er lögð áhersla á að horfa fram á við og muna að þetta er tímabundið ástand sem mun taka enda.

Ellen 2.jpg

Við höfum boðið upp á sálfræðitíma í gegnum Teams og, í samvinnu við sálfræðiþjónustuna Líf og sál, sett saman góð ráð í heimavinnu bæði í formi myndbanda og fræðsluefnis. Einnig erum við með sérstaka fræðslu fyrir stjórnendur í að stjórna í fjarvinnu – því það eru líka nýjar aðstæður fyrir okkur. Það er mikið stuðningsefni og góð ráð að finna á veraldarvefnum sem við deilum á Workplace og fáum oft á tíðum góðar umræður í kringum.

Rannsóknir sýna að í fjarvinnu er hætta á að fólk taki færri pásur og sitji jafnvel lengi við tölvuna því mörkin milli vinnu og einkalífs hverfa skyndilega. Til að sporna við því erum við að hvetja starfsfólk til að skipuleggja daginn í lotum og bæta hreyfingu og pásum inn í dagskrána. Það eru ýmsar leiðir til að brjóta upp daginn en á meðal þess sem við höfum lagt áherslu á er jóga og heimaleikfimi í gegnum Workplace eða Teams og ætlum við að enda þriðju vikuna í heimavinnu á að fara öll saman í gegnum leidda hugleiðslu með Flow meditation á Workplace.

Við höfum lagt áherslu á að skapa góða upplifun og sameiginleg augnablik í rafrænni samveru því það ýtir undir samstöðu og samkennd. Það verður líka að vera gaman í vinnunni og við leitum allra leiða til að finna tækifærin í áskorunum og ástandinu og hafa gaman. Í því samhengi höfðum við samband við Berg Ebba uppistandara og báðum hann um að taka að sér uppistand sem var streymt í beinni á Workplace. Hann tók vel í þá tilraun og hélt dúndur uppistand fyrir nánast tómum sal og við fjölmörgu sem heima sátum skemmtum okkur konunglega og vorum virk á umræðuþræði á meðan uppistandinu stóð. Þessi viðburður tókst gríðarlega vel og það var gott að fara hlægjandi inn í helgina.

Ellen 3.jpg

Hvers hlakkar þú mest til þegar samkomubannið er yfirstaðið?

Það má með sanni segja að lífi fjölskyldunnar hafi verið snúið á hvolf og öll plön gufað upp. Ætli ég byrji ekki á því að skipuleggja með hraði utanlandsferð, bústaðarferð og skelli í eitt gott matarboð. Svo bruna ég með fjölskylduna upp í sveit og skála í kampavíni við fólkið mitt þar. 😊

Af hverju var OR samstæðan svona fljót að bregðast við nýjum aðstæðum?

Hjá OR samstæðunni ríkir mikil öryggisvitund sem hefur komið bersýnilega í ljós núna í þessum miklu og fljótu viðbrögðum allra í samstæðunni. Sterk öryggismenning er lykilatriði og hefur aðstoðað okkur í að vera skrefi á undan og ganga fumlaust til verka á hverju stigi. OR samstæðan hefur áður farið í gegnum erfiðar aðstæður og við kunnum mjög vel að taka á málum af festu. Fyrirtækið ber umhyggju fyrir starfsfólki og því er mikill vilji að gera frekar meira en minna til að vernda starfsfólk okkar og viðskiptavini.