Fólk í fjarmynd

Sögur af starfsfólki OR samstæðunnar í breyttu vinnuumhverfi

María Rán Ragnarsdóttir © Atli Már Hafsteinsson
María Rán Ragnarsdóttir
© Atli Már Hafsteinsson

maí 2020

María Rán Ragnarsdóttir, afhendingarstjóri ljósleiðarakerfis hjá Gagnaveitu Reykjavíkur

Ég byrjaði í sumarstarfi í ljósleiðaradeild Gagnaveitu Reykjavíkur sumarið eftir að ég lauk B.Sc prófi í vélaverkfræði, en þá vissi ég ekkert um ljósleiðarann og hafði lítið spáð í tæknina. Ég er mjög þakklát og fegin að hafa tekið þessu sumarstarfi því ég hef ílengst hér í 10 ár og hef verið svo heppin að fá að takast á við hin ýmsu störf hjá Gagnaveitunni á þessu árum. Í dag er ég afhendingarstjóri ljósleiðarakerfis Gagnaveitunnar.

Evrópumeistarar

Ég er mjög stolt af því að hafa tekið þátt í að færa Ísland í fyrsta sæti í ljósleiðaranýtingu heimila í Evrópu, en samkvæmt úttekt „Fibre to the home Council Europe“ erum við í því sæti núna. Samkvæmt úttektinni nota 65,9% íslenskra heimila ljósleiðara. Yfir 120.000 heimili á Íslandi eru nú tengd ljósleiðara alla leið eða sem nemur 82% allra heimila. Enn á eftir að tengja um 20.000 heimili á Íslandi. Sé eingöngu miðað við áætlanir Gagnaveitu Reykjavíkur um uppbyggingu ljósleiðara verða um 90% heimila tengd árið 2023. Við erum því að vinna ötullega að framtíðarsýn Gagnaveitunnar sem er að styðja við snjallsamfélag framtíðarinnar þar sem boðið er uppá einfalda og fljótvirka gæðaþjónustu.

María 4.jpg

Mikilvægi ljósleiðarans

Tímar Covid-19 hafa undirstrikað enn betur mikilvægi ljósleiðarans eftir að stór hluti þjóðarinnar fór að vinna heima og skólar að starfa rafrænt. Mikilvægi öflugra og traustra nettenginga hefur sannað sig og umferð um ljósleiðaranet Gagnaveitunnar hefur aukist töluvert. Sérstaklega er þetta áberandi á daginn, sem var áður nokkuð rólegur á heimilistengingum. Ísland er í öfundsverðri stöðu í samkeppni þjóða en traustar nettengingar skipta lykilmáli fyrir þróunarmöguleika atvinnulífs hér í framtíðinni.

Ég starfa í tækniþjónustu- og afhendingadeild sem annast þjónustu við viðskiptavini og stýri ég tækniþjónustu við fjarskiptafélög og aðra viðskiptavini og þjónustu við rekstur ljósleiðarakerfis. Við skiptumst í tvo hópa, annar vinnur á skrifstofu en hinn eru rafvirkjar sem eru úti á örkinni við uppsetningar á heimilum og við rekstur grunnkerfis Ljósleiðarans. Deildin er mjög þjónustumiðuð og við settum okkur það markmið að veita framúrskarandi þjónustu. Við höfum gleði og jákvæðni að leiðarljósi og reynum að framkvæma allar skemmtilegu hugmyndirnar sem koma fram. Sumar slá í gegn en aðrar ekki og við lærum af því. Það sem skiptir mestu máli er að það hafa það svolítið skemmtilegt í vinnunni.

María 3.jpg

Breyttur vinnustaður

Í okkar hópi, sem er mjög hress, eru dagarnir á skrifstofunni oft ansi líflegir og því var frekar erfitt að fara að vinna að heiman. Við vorum sum ansi einmana fyrstu vikuna en síðan komumst við upp á lagið með fjarvinnuna. Við hittumst tvisvar á dag á daglegum fundum og reynum að hrista upp í þeim með þemum og öðru skemmtilegu. Við erum hinsvegar öll farin að hlakka til að koma til baka á vinnustaðinn og hlökkum mest til að komast aftur í góða matinn í mötuneytinu.

Ég tel að við munum koma inn á breyttan vinnustað þegar við komum til baka. Þetta ástand hefur sýnt að við getum ýmsu breytt í vinnulagi okkar. Til dæmis ætlum við að halda áfram með fjarfundi og minnka þannig akstur á milli staða sem sparar tíma og er umhverfisvænna. Einnig ætlum við að greina vel hvaða tækifæri heimavinnan hefur gefið okkur og nýta þau á breyttum og framsýnum vinnustað.

Þorvaldur Smári Valgarðsson © Atli Már Hafsteinsson
Þorvaldur Smári Valgarðsson
© Atli Már Hafsteinsson

apríl 2020

Þorvaldur Smári Valgarðsson, starfsmaður í þjónustuveri OR

Sérstakt að vera með viðskiptavininn „inná“ heimilinu

Ég var á skíðum á Akureyri þegar það var hringt í mig og mér sagt að við myndum fara að vinna heima. Ég er gríðarlega ánægður að hafa náð að fara norður í smá frí áður en þessi atburðarrás hófst. Ég setti upp vinnuaðstöðu í aukaherbergi hér heima en þar hef ég í raun allt sem ég þarf tæknilega séð til að getað stundað mína vinnu og get þjónustað viðskiptavini okkar og samstarfsfélaga með nánast sama hætti og áður. Það er óneitanlega sérstakt að vinna heima og vera með viðskiptavininn „inná“ heimilinu en það er hægt að skilja á milli vinnutímans og frítímans t.d. með því að fara út að labba eftir vinnu eða með því að skipta úr vinnufötum yfir í hversdags föt. Það er samt mikill söknuður eftir mötuneytinu og kaffivélunum á Bæjarhálsi.

Happaskref

Ég byrjaði að vinna hjá OR fyrir um fjórum árum eftir að félagi minn, sem vann hjá dótturfélagi samstæðunnar, sagði mér að að það væri verið að auglýsa eftir fólki. Ég sótti um það starf og líka starf í þjónustuveri sem var auglýst á sama tíma. Fékk ekki starfið sem ég var upphaflega að vonast eftir en fékk starf í þjónustuverinu. Það reynist mikið happaskref því hér hefur mér liðið ákaflega vel, hef frábæra samstarfsfélaga og yfirmenn. Það er virkilega ánægjulegt hvað komið er vel fram við starfsfólkið og það er alltaf mannleg nálgun á hlutina.

Hér eru mjög opnar samskiptaleiðir og fólk hvatt til að styðja hvert annað og afla sér þekkingar. Ég hef verið heppinn og fengið að taka þátt í ýmsum verkefnum sem ég hef fengið að vinna með kollegum mínum.

Þorvaldur 1.jpg

Covid hefur áhrif á vinnu starfsfólks en þjónustan breytist lítið

Vissulega hefur Covid haft áhrif en en þá aðallega á vinnu starfsfólks sem hefur þurft að vinna að heiman. Viðskiptavinirnir verða hins vegar lítið varir við breytingar. Við vorum búin að innleiða tvö stór kerfi um áramótin og horfðum fram á rólegri tíma á vormánuðum. Það hefur ekki alveg gengið eftir en þessi kerfi voru þó komin í fulla virkni sem betur fer.

Við erum um tuttugu í okkar deild sem þurftum að færa vinnustöðvar okkar heim og sem betur fer vorum við vel undirbúin. Við vorum öll komin með fartölvur og búin að prófa fjarvinnu áður en þetta skall á. Þá var þessi veruleiki sem við upplifum núna mjög fjarlægur, að það gæti komið til þess að þurfa að vinna heima dag eftir dag, viku eftir viku.

Við erum samt mjög heppin, ákvörðunin um að fólk færi að vinna heima var tekin snemma og það hefur verið haldið mjög vel utan um starfsfólkið. Við erum jú að vinna hvert í sínu horni en við höfum náð að halda sambandi í sameiginlegu netspjalli og svo eru vikulegir myndfundir. Það er gott fyrir sálina að fá að sjá samstarfsfólkið sitt í smástund og rifja upp að maður er ekki einn á báti.

Þorvaldur 2.jpg

Mest spurt um reikninga

Algengustu spurningarnar frá viðskiptavinum snúast reikninga og hvernig hægt er að leysa hnúta sem kunna að myndast. Það getur verið krefjandi að takast á við þau mál en við reynum samt eftir fremsta megni að aðstoða fólk og gera eins vel og hægt er, en þannig var það líka áður en faraldurinn hófst.

Á þessum árstíma er fólk mikið að hugsa um framkvæmdir og þarf þá að fá teikningar af lögnum eða sækja um rafmagn eða heitt vatn. Annars koma til okkar ótrúlegustu fyrirspurnir sem við reynum að leysa úr og það er virkilega gefandi og oft mjög fróðlegt.

Samstaða og náungakærleikur

Það góða sem hefur komið út úr þessu öllu saman er samstaða fólks. Hún skiptir öllu máli. Þá er líka gott að skynja náungakærleikann og hvað fólki er umhugað að gera vel, alveg sama hvað á bjátar.

Í okkar hópi er fólk á öllum aldri og það er ekki sjálfgefið að það sé hægt að taka deild eins og þessa, senda öll heim og láta þau vinna þaðan, ein alla daga. Samt hefur það gengið upp. Við sjáum núna að það er ekkert mál að vinna heima. Jú það er krefjandi en vel hægt með réttu hugarfari og vissunni um að þegar þessu verður öllu lokið getur fólk aftur farið að haga sínu daglega lífi án hafta og kvíða.

Ég get vel hugsað mér að vinna heima einn til tvo daga í viku þegar fram líða stundir. Við erum með nokkra starfsmenn sem voru ekki með starfsstöðvar sínar á Bæjarhálsi þegar þetta allt byrjaði og það er virkilega gaman að sjá það fólk núna reglulega á myndfundum. Ég vona svo sannarlega að það haldist.

Þorvaldur 3.jpg

Umhverfið breytist hratt

Það hefur mikið unnist hjá okkur á örfáum árum við að bæta svartíma fyrirspurna og eins hafa gæði þjónustunnar breyst verulega til hins betra. Ekki það að hún hafi verið slæm en við stefnum á að vera framúrskarandi. Þjónustusíður viðskiptavina hafa batnað stórlega með viðbótum einsog rafrænum heimlagnaumsóknum, svo er komið netspjall og spjall á Facebook allan sólarhringinn. Umhverfið breytist hratt og viðskiptavinur okkar eru farnir að geta afgreitt sig sjálfir í sífellt meiri mæli. Það gefur okkur færi á að gefa þeim sem koma með flóknari spurningar meiri tíma og vonandi að veita betri þjónustu.

Stefnan okkar er fyrst og fremst að veita sífellt betri þjónustu. Að vinna að því að bæta upplifun viðskiptavinarins og koma í veg fyrir að fólk þurfi að hafa samband aftur af því fyrirspurn var ekki svarað fyllilega í fyrstu atrennu. Það á margt eftir að breytast í framtíðinni og eflaust verður ekki allt eins og við sjáum það fyrir okkur. Það sem er samt gott í öllu þessu róti er hversu vel er hugsað um starfsfólkið hér og að því er hjálpað við að aðlagast öllum þeim breytingum sem verða.

Eitthvað sem maður bjóst aldrei við

Ég hlakka innilega til að geta hitt alla fjölskylduna saman án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að smita einhvern. Þetta eru fordæmalausir tímar fyrir okkur flest og eitthvað sem maður bjóst aldrei við að upplifa. Þetta hefur kennt mér hvað samstarfsfólkið og öll þessi daglegu litlu samskipti eru mikils virði. Það er samt ágætt að sakna, því þá veit maður hvað er dýrmætt í lífinu og getur látið sig hlakka til að njóta þess aftur, vonandi kemur það fljótlega tilbaka með hækkandi sól.

Páll Ragnar Pálsson © Atli Már Hafsteinsson
Páll Ragnar Pálsson
© Atli Már Hafsteinsson

apríl 2020

Páll Ragnar Pálsson, verkstjóri fráveitu hjá Veitum

Fráveitan veitir mikilvæga þjónustu sem enginn getur verið án en fæstir leiða hugann að í amstri dagsins. Páll Ragnar Pálsson, verkstjóri í fráveitu segir okkur frá því hvernig álagið margfaldaðist hjá fráveitunni á Covid tímanum og hvaða tækifæri hann sér í að breyta vinnustaðarmenningunni

Frá Sauðárkróki í fráveituna

Páll Ragnar Pálsson er uppalinn á Sauðárkróki og ákvað 8-9 ára að fara í vélstjóranám. „Ákvörðunin var líklega tekin þegar ég heimsótti verknámið í Fjölbrautarskólanum á Króknum og sá öll tækin og tólin, rennibekki, söx, plötubeygjuvélar, valsa og nóg af verkfærum til að smíða og lagfæra hluti. Þá var ekki aftur snúið,“ segir Páll

Að námi loknu við Vélskólann fór Páll á sjó á ísfisktogaranum Klakki hjá FISK Seafood og var þar í tíu ár fyrir utan stutt stopp í landi við endann á góðærinu. Þegar efnahagshrunið skall á árið 2008 fór hann aftur á sjóinn.

„Gamlárskvöld árið 2014 eignaðist ég tvíbura með konu minni Huldu og vorum við orðin fimm manna fjölskylda. Þegar ég átti að fara í minn fyrsta túr eftir fæðingarorlof var sú kveðjustund með þeim erfiðari sem ég hafði upplifað og því tími til kominn að segja skilið við sjóinn. Ég réð mig því til Veitna sumarið 2015 sem vélfræðingur í fráveitu. Í dag starfa ég sem verkstjóri í fráveitu og fæ að fara fyrir hópi harðduglegra starfsmanna fráveitunnar sem sjá til þess að fráveitan virki og flæði í rétta átt. Fyrsta fráveitan var lögð árið 1896 af nunnunum við Landakotsspítala sem lögðu hana niður Ægisgötuna og auðvelduðu mjög losun skólps frá spítalanum og væntanlega um leið minnkað smithættu.“ Segir Páll.

Páll 2.jpg

Álagið miklu meira en búist var við

Páll segir að Veitur hefðu búist við að álagið myndi minnka við Covid-19 og tækifæri gæfust til að fara í stærri verkefni fráveitunnar. Niðurstaðan var því miður allt önnur. Mikið magn blautklúta fór að berast í fráveituna og greinilegt að notkun þeirra hafi aukist mikið við sótthreinsun. Vegna þessa jókst álagið margfalt og hafði hreinsistöðin í Klettagörðum ekki undan. Starfsfólk þurfti að losa stíflur úr sniglum, síum og þvottapressum frá því það mætti til vinnu og fram á nótt. Svona var ástandið í 11 sólarhringa í röð en starfsfólk stóð sig ótrúlega vel og gerði ekkert annað en að standa í þessu þessa daga.

„Notendur virtust fyrst átta sig á að blautklútar ættu að fara í ruslatunnuna en ekki klósettið eftir að við fengum góða hjálp frá samskiptadeild OR sem fór að auglýsa og senda tilkynningar á fjölmiðla - og svo frábær liðsauki frá Víði Reynissyni í þríeykinu - að álagið fór að minnka.

Við erum þó ekki ennþá komin með 100% virkni þar sem búnaður skemmdist hjá okkur og erum við enn að vinna í að lagfæra stöðina. Við höfum frétt af fráveitum út í heimi með svipuð vandamál þar sem mikið magn blautklúta berst. Þar er vandinn einnig vegna skorts á klósettpappír en þá eru ýmsir hlutir notaðir til að þrífa afturendann sem eiga alls ekki heima í holræsakerfinu. Ímyndið ykkur að vera föst heima í einangrun, jafnvel fárveik, og klósettið ykkar stíflast og allt flæðir um gólfin.

Páll 3.jpg

"Hreinir kjallarar - alltaf"

Framtíðarstefna Veitna er „Hreinar strendur – alltaf“. En einnig erum við með stefnu fyrir nánari framtíð sem er „Hreinir kjallarar – alltaf“, við viljum styrkja kerfið okkar þannig að notendur okkar eigi ekki hættu á að skólp flæði inn til þeirra,“ segir Páll sem segir að Covid-19 hafi haft talsverð áhrif á starfsemi fráveitunnar.

Í byrjun mars, þegar farið var að skoða hvernig ætti að skipta vinnunni á milli fólks til að koma í veg fyrir að allt starfsfólk gæti smitast í einu var ákveðið að skipta hópnum upp í fernt. Þá sem unnu heima, þá sem unnu á Bæjarhálsi auk þess sem vinnuflokkunum var skipt í tvennt og settar voru upp starfsstöðvar í hreinsistöðvunum í Ánanaustum og Klettagörðum. Þegar samkomubann var hert enn frekar fækkaði hópunum úr fjórum í þrjá og enginn í framkvæmdahluta fráveitu hefur verið starfandi frá Bæjarhálsi. Með þessu fyrirkomulagi hefur tekist að halda nánast óskertri starfsemi.

Tækifæri til breyta vinnustaðamenningu

„Ég er mjög þakklátur fyrir hversu mikið starfsfólk hefur viljað leggja á sig til að láta þetta allt ganga upp og allar þessar breytingar á starfsemi. Við sjáum hvað við, sem samstæða, erum ótrúlega fjölhæf og sveigjanleg og hugsun eins og „þetta hefur alltaf verið gert svona“ heyrist ekki heldur er viðhorfið „prófum að gera þetta svona“.

Við höfum tækifæri til breyta vinnustaðamenningu samstæðu OR á ótrúlegan hátt. Við höfum séð að mörg verkefni má vinna í fjarvinnu. Það er erfitt að skipta um skólpdælu í Gufunesi úr sumarbústaðnum en það er vel hægt að hliðra til verkefnum og undirbúa verk í fjarvinnu með fleiri starfsmönnum þannig að fleiri eigi sinn part í þeim. Hvort þetta muni allt gerast 4. maí, þegar samkomubanni verður aflétt, veit ég ekki en það er líka allt í lagi. Við þurfum að tileinka okkar viðhorf um stöðugar umbætur, þá verður þetta ekkert mál,“ segir Páll sem ætlar sjálfur að byrja á að fara með fjölskylduna í sund um leið og samkomubanni verði aflétt.

Belinda Eir Engilbertsdóttir © Atli Már Hafsteinsson
Belinda Eir Engilbertsdóttir
© Atli Már Hafsteinsson

apríl 2020

Belinda Eir Engilbertsdóttir, sérfræðingur lóða og lendna hjá OR

130 km af merktum gönguleiðum á Hengilssvæðinu

Einn af fallegri stöðum á landinu til að stunda útivist, í bakgarðinum hjá íbúum höfuðborgarsvæðisins, er Hengilssvæðið að mínu mati. Þar er hægt að njóta útivistar allt árið um kring. Ég á mér margar uppáhalds leiðir á því svæði og erfitt að gera upp á milli þeirra en gönguleiðin kringum Nesjavallavirkjun stendur alltaf fyrir sínu. Á Hengilssvæðinu er flest það sem prýðir íslenska náttúru; áhugavert landslag, hvera- og gígasvæði, fjölbreytt gróðurfar, ár og stöðuvötn.

Við höfum unnið markvisst að því að búa í haginn fyrir útivistarfólk með vel merktum gönguleiðum, upplýsingskiltum og gönguskála. Í dag rekur Orkuveitan samtals 130 km af merktum leiðum á Hengilssvæðinu. Hér er hægt að nálgast kort af ellefu áhugaverðum gönguleiðum á Hengilssvæðinu.

Belinda 2.jpeg

Mjög lánsöm að geta verið að vinna mikið úti á sumrin

Það fylgir því mikil ábyrgð að merkja gönguleiðir og beina fólki frá ákveðnum svæðum sem geta verið hættuleg fyrir bæði fólkið og náttúruna á svæðinu. Framtíðarsýn svæðisins þarf að vera skýr og búið sé að tryggja fjármagn til lengri tíma í viðhald áður en farið er í gerð gönguleiða. Á Hengilssvæðinu eru til dæmis gönguleiðir skipulagðar þannig að þær geti verið þar í árhundruð án mikils viðhalds og í takti við náttúruna.

Ég er með smá athyglisbrest þannig að það hentar mér að vera með puttana í fjölbreyttum verkefnum til að halda athyglinni og gerir í leiðinni starfið áhugavert. Ég er líka mjög lánsöm að geta verið að vinna mikið úti á sumrin og meira inni yfir veturinn.

Belinda 3.jpeg

Gefur mér von um framtíð komandi kynslóða

Helstu jákvæðu breytingarnar við samkomubannið er að mínu mati umhverfisleg, minni umferð og neysla. Nú fær maður meiri tíma til að hugsa um það sem skiptir mestu máli, og er beint fyrir framan mann, fjölskyldu og vini. Þetta ástand sýnir líka hvað stjórnvöld í heiminum geta gert á stuttum tíma og gefur mér von um framtíð komandi kynslóða í þeim gríðarstóru ákvörðunum sem þarf að taka í umhverfismálum.

Ég er búin að vera starfsmaður í þjálfun ef svo má segja í nokkur ár. Bý á Akranesi og hef verið að vinna heima 1-2 daga í viku yfir vetratímann og bý það vel að hafa sér skrifstofu heima. En það að vera ekki að hitta fólk stanslaust hefur mér fundist erfiðast, er mikil félagsvera og fæ orku með því að umgangast aðra.

Belinda 4.jpeg

Veðrið hefur verið eins og ráðvilltur unglingur

Það sem hefur haldið geðheilsunni góðri á þessum tímum er aðallega útivist og fjölskyldan. Veðrið hefur verið eins og ráðvilltur unglingur, eina stundina er sól en aðra rigning og rok. Ég hef því að venju bara klætt mig vel, sama hvernig viðrar, áður en ég skelli mér í stutta fjallgöngu eða út að skokka.

Að hlusta og horfa á skemmtiefni og ekki kafa of djúpt í allt það neikvæða á í fréttum og á netinu hjálpar mér líka. Tónlist getur alltaf komið mér í gott skap og að hækka í botn getur ekki klikkað. Hef líka haldið fast í rútínu á morgnana; vakna, gera mig tilbúna, klæða mig í vinnuföt, búa um rúmið o.þ.h. en að vera ekki í náttbuxunum allan daginn með ógreitt hárið.

Það fyrsta sem ég mun gera þegar samkomubannið er yfirstaðið mun ég bjóða vinkonunum í pottinn heima þar sem hver freyðivínsflaskan af annarri verður opnuð, síðan verður haldið inn þar sem dansað verður fram á nótt.

Edda Sif Aradóttir © Atli Már Hafsteinsson
Edda Sif Aradóttir
© Atli Már Hafsteinsson

apríl 2020

Edda Sif Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix

Við vinnum að því að skapa nýja atvinnugrein í íslensku efnahagslífi

Það felast tækifæri í öllum áskorunum og COVID-19 heimsfaraldurinn er þar engin undantekning. Ég myndi vilja sjá íslenskt hagkerfi endurræst með sjálfbærni og loftslagshlutleysi að leiðarljósi þegar lífið fer að ganga sinn vanagang aftur.

Ríkisstjórnir og seðlabankar heimsins standa í ströngu þessar vikurnar við að örva hagkerfin með stærstu björgunarpökkum sögunnar. Björgunarpakki Norðmanna er að mínu mati sérstaklega áhugaverður þar sem hann felur í sér að flýta fjárfestingum í kolefnishreinsun og -förgun sem Norðmenn horfa til sem nýrrar atvinnugreinar.

Aðgerðin nýtur víðtæks stuðnings m.a. frá ólíkum aðilum atvinnulífsins þar sem um er að ræða mikilvæga loftslagsaðgerð sem jafnframt er líkleg til að skapa störf til framtíðar. Ísland getur gert slíkt hið sama enda erum við mjög rík af heppilegum berglögum sem gera gott betur en norsk berglög og geyma ekki bara CO2 heldur farga varanlega hratt og vel í steindir.

Edda 2.jpg

Yfir 95% af CO2 sem dælt hafði verið niður hafði umbreyst í steindir á innan við tveimur árum.

Ég er svo lánsöm að hafa fengið að fylgja Carbfix eftir allt frá fyrsta degi. Fyrstu árin var ég í námi og fjallaði doktorsverkefnið mitt um þróun hermireikninga sem spá fyrir um örlög CO2 í kjölfar förgunar í berglög. Þetta var krefjandi en spennandi verkefni og ég minnist þess gjarnan þegar ég loksins fékk niðurstöður úr líkanreikningum sem spáðu fyrir um að CO2 myndi steinrenna neðanjarðar á 3-5 árum. Það voru margir efins um niðurstöður líkansins, sögðu mér að þetta væri hin áhugaverðasta litla stúdía hjá mér en að CO2 myndi aldrei steinrenna þetta hratt neðanjarðar. Þess vegna var þeim mun sætara að fá niðurstöður úr tilraunaniðurdælingum sem svart á hvítu sýndu að yfir 95% af CO2 sem dælt hafði verið niður hafði umbreyst í steindir á innan við tveimur árum.

Eftir að ég lauk doktorsnáminu mínu árið 2011 tók ég við sem verkefnisstýra Carbfix og svo sem framkvæmdastýra í lok síðasta árs þegar eigendur og stjórn OR tóku þá ákvörðun að stofna dótturfélag um Carbfix.

Forréttindi að hafa það að starfi að reyna að leysa loftslagsvandann

Það eru forréttindi að hafa það að starfi að reyna að leysa loftslagsvandann, eina alvarlegustu áskorun samtímans, með nýsköpun, dug og þor að vopni. Samstarfsfólkið mitt er framúrskarandi og við viðhöldum sterkum tengslum við vísindin enda Háskóli Íslands okkar nánasti samstarfsaðili frá upphafi. Í ofanálag erum við líka í samstarfi við stór alþjóðleg fyrirtæki sem hafa áhuga á að kanna möguleikann á því að nota Carbfix aðferðina til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá sinni starfsemi.

Edda 3.jpg

Viljum ná veldisvexti í kolefnisförgun á komandi árum

Við vinnum að því að stórauka kolefnisförgun hér á landi og á heimsvísu og þannig skapa nýja atvinnugrein í íslensku efnahagslífi. Öfugt við COVID-19 faraldurinn viljum við ná veldisvexti í kolefnisförgun á komandi árum því þannig næst árangur í loftslagsmálum. Í dag höfum við fargað 65 þúsund tonnum af CO2 og stefnum að því að brjóta 100 þúsund tonna múrinn snemma á næsta ári. Næst setjum við markið á milljón tonn, svo milljarð og þá ætti að hilla í viðsnúning í loftslagsmálum.

Við kolefnisfargarar erum vön að takast á við og sigrast á áskorunum

Okkur hefur tekist með eindæmum vel að aðlagast breyttum aðstæðum enda erum við kolefnisfargarar vön að takast á við og sigrast á áskorunum. Það gerðist t.d. ekki af sjálfu sér að hugmynd á blaði um að hreinsun og förgun CO2 í bergi umbreyttist yfir í sjálfvirka tækni á iðnaðarskala.

Framvinda verkefna hefur gengið vonum framar en það er auðvitað skrýtið að hittast bara á skjánum. Ég finn a.m.k. hvað ég sæki mikla orku í samvinnu við samstarfsfólk mitt. Við höfum tamið okkur að taka stöðutékk a.m.k. einu sinni á dag í gegnum fjarfundarbúnað og passa okkur að ræða ekki bara vinnuna heldur líka daginn og veginn og hvaða áskorunum við stöndum frammi fyrir hverju sinni.

Edda 4.jpg

Ætla að knúsa allt fólkið mitt – fjölskyldu, vini og vinnufélaga

Það sem hjálpar mér að halda geðheilsu þessa dagana er yndisleg fjölskyldan, vinir og samstarfsfólk sem er alltaf hægt að leita til með hvað sem er – hvort sem er spjall um daginn og veginn, áskoranir í starfi eða heimavið. Gönguskíði koma líka sterk inn þegar veður leyfir.

Eftir að samkomubanninu verður aflétt ætla ég svo að knúsa allt fólkið mitt – fjölskyldu, vini og vinnufélaga, fara með krökkunum í sund og halda síðbúna afmælisveislu. Ég hlakka sjúklega mikið til!

Viðar Einarsson © Atli Már Hafsteinsson
Viðar Einarsson
© Atli Már Hafsteinsson

apríl 2020

Viðar Einarsson, verkstjóri götuljósa og hlaða hjá ON

Við erum almennt miklar félagsverur

Þegar neyðarstigi var lýst yfir á landinu og allt skrifstofufólk flutti sína starfsemi heim í stofu ákváðum við hjá ON að ég mundi einn mæta á verkstæði götuljósanna ásamt tveimur verkstæðisstarfsmönnum. Við sinnum okkar þjónustu á sex bílum þar sem tveir og tveir eru saman í bíl. Venjulega rótera menn á milli bíla en nú voru allir skikkaðir með fastan félaga og bannað að hitta aðra í teyminu.

Við erum almennt miklar félagsverur svo það hefur reynt töluvert á mig og teymið að halda mönnum í sundur og banna þeim að hittast. Strákarnir hafa því þurft að húka í bílunum allan daginn án þess að koma á okkar bækistöð. Svo ef upp hafa komið veikindi eða menn þurft að vera heima vegna lokunar skóla hjá börnum hefur vinnufélaginn á bílnum þurft að vera einn þann daginn - þetta hefur tekið á.

Þessa dagana er ég einstaka sinnum með hundinn Tinna með mér í vinnunni til að okkur leiðist ekki en Tinni er þjálfaður leitarhundur og getur fundið týnt fólk á víðavangi, í húsarústum eða í snjóflóðum. Þegar einhver þarf á okkur að halda stökkvum við af stað með Hjálparsveit skáta í Garðabæ.

Viðar 3.jpg

Ég er búinn að starfa hjá ON síðan 2006 eða í 14 ár. Ég er rafvirki en lærði iðnfræði í Danmörku og bjó þar þegar ég sá auglýst starf hjá virkjunum OR um það leyti sem Hellisheiðarvirkjun var gangsett. Ég var fyrst um sinn í vaktmannahópi Nesjavallavirkjunar en síðar voru vaktmannahópar allra virkjana ON sameinaðir og ég starfaði því einnig í Andakílsárvirkjun, Elliðaárstöðvar auk Nesjavalla og Hellisheiðar. Svo fór ég í ýmis dagvinnustörf hjá virkjunum m.a. sem staðgengill tæknistjóra rafbúnaðar en síðustu tvö ár hef ég verið verkstjóri í götuljósateymi ON sem er 15 manna flokkur.

Götuljósateymið sér um viðhald á öllum 55 þúsund götuljósum höfuðborgarsvæðisins auk Akraness. Þetta eru ljósastaurar frá 4 metra hæð á hjóla- og göngustígum upp í 22 metra há möstur á hafnarsvæðum og íþróttavöllum og allt þar á milli. Svo sinnum við viðhaldi á allskonar ljósapollum, ljósum í trjábeðum og skrautljósum sem aðallega eru í miðbæjum sveitarfélaganna.

Einnig sjáum við um viðgerð á götuljósastrengjum sem óvart eru grafnir í sundur við framkvæmdir. Við endurnýjum einnig staura, til dæmis alla staura sem eknir eru niður eða verða fyrir tjóni. Þeir eru nokkuð margir, en að meðaltali er ekið á einn staur á dag allan ársins hring, yfir 350 tjón.

Viðar 1.jpg

Undanfarin misseri höfum við tekið þátt í því með sveitarfélögunum að skipta gömlum götuljósum út fyrir ný LED ljós – þetta hafa verið 2-3000 lampar á ári.

Það jákvæða sem ég sé í þessu ástandi er aukin notkun á ýmiskonar samskiptaforritum á fjarfundum. Þetta er eitthvað sem ég held að við eigum eftir að halda áfram að tileinka okkur.

Eftir að hafa staðið í ströngu við að stía mönnum í sundur og reka menn út úr húsi, held ég að ég bjóði uppá stórt hópknús fyrir þá sem vilja og svo verði haldið gott partý.

Ellen Ýr Aðalsteinsdóttir © Atli Már Hafsteinsson
Ellen Ýr Aðalsteinsdóttir
© Atli Már Hafsteinsson

mars 2020

Ellen Ýr Aðalsteinsdóttir, mannauðssérfræðingur hjá OR

Hvaða jákvæðu breytingar sérð þú í þessum breyttu aðstæðum?

Þó að það hafi legið fyrir í nokkurn tíma að við færum að miklu leyti í fjarvinnu um leið og neyðarstigi yrði lýst yfir þá vorum við ekki búin að þjálfa okkur sérstaklega í þeim hluta. Það er ótrúlegt að upplifa að fara úr því að vera fyrirtæki sem kunni ekki fjarvinnu yfir í að vera fyrirtæki sem er orðið leiðandi í fjarvinnutækni

Ég finn fyrir mikilli samkennd og þakklæti á meðal starfsfólks. Við erum að tengjast og kynnast á nýjan hátt, það hefði verið erfiðara að fara í gegnum svona tímabil án tækninnar. Þessar aðstæður hafa dregið enn betur fram í dagsljósið hve samstilltur og flottur hópur vinnur hjá OR samstæðunni sem tekur nýjum áskorunum með jákvæðni og útsjónarsemi. Það væri líka gaman að skoða hvaða jákvæðu áhrif breytt vinnulag gæti haft á kolefnisspor okkar.

Hvað hefur mannauðsteymi OR samstæðunnar gert til að tækla þetta nýja vinnuumhverfi?

Þar sem við sinnum mikilvægri grunnþjónustu samfélagsins þá skipti miklu máli að hlúa vel að mannauði okkar í þessum aðstæðum því kerfin eru ekkert án starfsfólksins sem rekur þau. Við ákváðum strax að leggja áherslu á að rækta bæði líkamlega og andlega heilsu allra og fylgjumst vel með líðan fólks.

„Hvernig líður þér“ er mikilvæg spurning sem við spyrjum oft og sýnum frumkvæði af því að hafa samband við fólk og kanna aðstæður. Samhliða því er lögð áhersla á að horfa fram á við og muna að þetta er tímabundið ástand sem mun taka enda.

Ellen 2.jpg

Við höfum boðið upp á sálfræðitíma í gegnum Teams og, í samvinnu við sálfræðiþjónustuna Líf og sál, sett saman góð ráð í heimavinnu bæði í formi myndbanda og fræðsluefnis. Einnig erum við með sérstaka fræðslu fyrir stjórnendur í að stjórna í fjarvinnu – því það eru líka nýjar aðstæður fyrir okkur. Það er mikið stuðningsefni og góð ráð að finna á veraldarvefnum sem við deilum á Workplace og fáum oft á tíðum góðar umræður í kringum.

Rannsóknir sýna að í fjarvinnu er hætta á að fólk taki færri pásur og sitji jafnvel lengi við tölvuna því mörkin milli vinnu og einkalífs hverfa skyndilega. Til að sporna við því erum við að hvetja starfsfólk til að skipuleggja daginn í lotum og bæta hreyfingu og pásum inn í dagskrána. Það eru ýmsar leiðir til að brjóta upp daginn en á meðal þess sem við höfum lagt áherslu á er jóga og heimaleikfimi í gegnum Workplace eða Teams og ætlum við að enda þriðju vikuna í heimavinnu á að fara öll saman í gegnum leidda hugleiðslu með Flow meditation á Workplace.

Við höfum lagt áherslu á að skapa góða upplifun og sameiginleg augnablik í rafrænni samveru því það ýtir undir samstöðu og samkennd. Það verður líka að vera gaman í vinnunni og við leitum allra leiða til að finna tækifærin í áskorunum og ástandinu og hafa gaman. Í því samhengi höfðum við samband við Berg Ebba uppistandara og báðum hann um að taka að sér uppistand sem var streymt í beinni á Workplace. Hann tók vel í þá tilraun og hélt dúndur uppistand fyrir nánast tómum sal og við fjölmörgu sem heima sátum skemmtum okkur konunglega og vorum virk á umræðuþræði á meðan uppistandinu stóð. Þessi viðburður tókst gríðarlega vel og það var gott að fara hlægjandi inn í helgina.

Ellen 3.jpg

Hvers hlakkar þú mest til þegar samkomubannið er yfirstaðið?

Það má með sanni segja að lífi fjölskyldunnar hafi verið snúið á hvolf og öll plön gufað upp. Ætli ég byrji ekki á því að skipuleggja með hraði utanlandsferð, bústaðarferð og skelli í eitt gott matarboð. Svo bruna ég með fjölskylduna upp í sveit og skála í kampavíni við fólkið mitt þar. 😊

Af hverju var OR samstæðan svona fljót að bregðast við nýjum aðstæðum?

Hjá OR samstæðunni ríkir mikil öryggisvitund sem hefur komið bersýnilega í ljós núna í þessum miklu og fljótu viðbrögðum allra í samstæðunni. Sterk öryggismenning er lykilatriði og hefur aðstoðað okkur í að vera skrefi á undan og ganga fumlaust til verka á hverju stigi. OR samstæðan hefur áður farið í gegnum erfiðar aðstæður og við kunnum mjög vel að taka á málum af festu. Fyrirtækið ber umhyggju fyrir starfsfólki og því er mikill vilji að gera frekar meira en minna til að vernda starfsfólk okkar og viðskiptavini.