Fundargerð stjórnar #272 (fundargögn)

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2019, fimmtudaginn 14. mars kl. 12:00 var haldinn 272. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn um síma og að Bæjarhálsi 1.

 

Fundarmenn: Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Sigríður Rut Júlíusdóttir, Kjartan Magnússon, Katrín Atladóttir í fjarveru Hildar Björnsdóttur, Guðjón Viðar Guðjónsson og Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir.  

 

Einnig tók þátt Bjarni Bjarnason, forstjóri og Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála, Bjarni Freyr Bjarnason, Gísli Björn Björnsson og Gréta Guðnadóttir.

 

Frá endurskoðendum Grant & Thornton: Sturla Jónsson, Davíð Arnar Einarsson og Bjarni Már Jóhannesson.

 

Frá endurskoðunarnefnd: Lárus Finnbogason og Sunna Jóhannsdóttir

 

Fundarritari var Elín Smáradóttir

 

Þetta gerðist:

 

  1. Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála kynnti ársreikning Orkuveitu Reykjavíkur fyrir árið 2018. Endurskoðandi Orkuveitu Reykjavíkur, Davíð Arnar Einarsson kynnti helstu áherslur og mikilvæg atriði við endurskoðun ársreikningsins, sem fram koma í endurskoðunarskýrslu. Lárus Finnbogason, formaður endurskoðunarnefndar kynnti umsögn endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar um reikninginn.

 

Reikningurinn borinn upp og samþykktur samhljóða og staðfestur.

 

Stjórn óskar bókað:

 

Ársreikningur Orkuveitu Reykjavíkur fyrir árið 2018 staðfestir að fjárhagurinn er traustur og heilbrigður þar sem góð tök á rekstrargjöldum eru lykilþáttur ágætrar afkomu.

 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur þakkar starfsfólki öllu og stjórnendum fyrirtækjanna innan samstæðunnar fyrir að vinna af heilindum að öllum okkar sameiginlegu markmiðum; fjárhagslegum, samfélagslegum og ekki síst umhverfis- og loftslagsmarkmiðum.

 

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga um umboð til boðunar aðalfundar borin upp:

 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að veita stjórnarformanni umboð til boðunar aðalfundar Orkuveitu Reykjavíkur 2019 í samræmi við sameignarsamning og að höfðu samráði við eigendur.

 

Samþykkt samhljóða.

 

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga um arðgreiðslur. Tillögunni fylgir greinargerð:

 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) samþykkir að gera tillögu til aðalfundar um arðgreiðslu að fjárhæð 1.500 milljónir króna. Tillagan felur í sér að fjárhagsleg skilyrði eru uppfyllt fyrir og eftir arðgreiðslu samkvæmt fjárhagsspá yfir tímabilið 2019-2024.

Samþykkt með atkvæðum Brynhildar Davíðsdóttur, Gylfa Magnússonar, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur og Guðjóns Viðars Guðjónssonar. Katrín Atladóttir og Kjartan Magnússon sitja hjá og óska bókað:

 

Katrín Atladóttir og Kjartan Magnússon telja að lækka mætti arðgreiðslur svo svigrúm skapist til að lækka gjaldskrár og draga úr skuldsetningu.

 

Aðrir stjórnarmenn óska bókað:

 

Miklar umbætur síðustu ára í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækjanna hafa í senn skilað traustum fjárhag, verulegri lækkun skulda og auknu eigin fé, og ágætri afkomu. Eigendur Orkuveitu Reykjavíkur voru einhuga um eigendastefnu sem kveður hvorttveggja á um að verð fyrir þjónustuna skuli vera sanngjarnt og að eigendur njóti arðs í samræmi við ábyrgð þeirra á fyrirtækinu.

 

Hér er lagt til, í samræmi við stefnu eigenda, að greiddur verði arður vegna rekstrarársins 2018.

 

Forstjóri óskar að koma á framfæri þökkum fyrir gott samstarf við stjórn.

 

 

 

 

Fleira gerðist ekki.
Fundi slitið kl. 12:56.  
 
Næsti reglulegi fundur stjórnar er fyrirhugaður 25. mars 2019.

 

Brynhildur Davíðsdóttir,

Guðjón Viðar Guðjónsson, Gylfi Magnússon, Katrín Atladóttir, Kjartan Magnússon,

Sigríður Rut Júlíusdóttir, Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir.