Fundargerð stjórnar #269 (fundargögn)

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2018, mánudaginn 17. desember kl. 13:15 var haldinn 269. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Stöðvarstjórahúsinu Elliðaárdal.

 

Fundarmenn: Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Sigríður Rut Júlíusdóttir, Kjartan Magnússon, Katrín Atladóttir í fjarveru Hildar Björnsdóttur, Geir Guðjónsson í fjarveru Guðjóns Viðars Guðjónssonar og Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir. Einnig Björn Gíslason að hluta í fjarveru Kjartans Magnússonar.

 

Einnig Bjarni Bjarnason, forstjóri.

 

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

 

Þetta gerðist:

 

 

 1. Fundargerð SF 268 lögð fram, samþykkt og undirrituð.

 

 1. Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála mætti til fundarins kl. 13:15 og fór yfir stöðu fjármögnunar. Áhættuskýrsla, dags. 7.12.2018, lögð fram og kynnt. Umræður.

 

 1. Klukkan 13:53 mættu Eiríkur Hjálmarsson, Heiða Aðalsteinsdóttir og Jakob S. Friðriksson til fundarins, lögðu fram og kynntu tillögu um orkuvinnslu, sögu og tæknisýningu í Elliðaárdalnum, sem frestað var á SF268. Lögð fram svohljóðandi tillaga. Tillögunni fylgir greinargerð:

 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir fyrirliggjandi drög að samkeppnislýsingu vegna fyrirhugaðrar tækni- og sögusýningar í Elliðaárdal, sbr. samþykkt stjórnar 20. mars 2017. Jafnframt er samþykkt að halda áfram hönnunarvinnu vegna raforkuvinnslu í Elliðaárstöð með nýrri aflvél, sbr. fyrirliggjandi forhönnun.

Samþykkt samhljóða.

 

Klukkan 14:30 mætti Björn Gíslason til fundarins og Kjartan Magnússon vék af fundi. Þá viku Eiríkur Hjálmarsson og Heiða Aðalsteinsdóttir einnig af fundi.

 

 1. Jakob S. Friðriksson kynnti svokallað „snjallmælaverkefni“ Veitna ohf. sem fyrirhugað er að ráðast í. Samþykkt samhljóða að veita forstjóra umboð til að fara með málið á hluthafafundi Veitna ohf. Stjórn leggur áherslu á að fá upplýsingar úr tilraunaverkefnum áður en farið verður um þau „hlið“ sem gert er ráð fyrir áður en endanleg ákvörðun verður tekin.

 

 1. Lagður fram til staðfestinga samningur SVFR og Orkuveitu Reykjavíkur um veiðiréttindi í Elliðaánum, sem samþykktur var rafrænt á milli funda. Samningurinn staðfestur.

 

 1. Sigríður Rut Júlíusdóttir, formaður starfskjaranefndar, lagði fram og kynnti svohljóðandi tillögu nefndarinnar. Tillögunni fylgir greinargerð:

 

Starfskjaranefnd Orkuveitu Reykjavíkur leggur til við stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að eftirfarandi tillaga verði samþykkt:

 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að laun til nefndarmanna í starfskjaranefnd verði 25.000 fyrir hvern unninn klukkutíma. Formaður hljóti sömu þóknun auk 50% álags.

 

Geir Guðjónsson lagði fram breytingartillögu um að laun verði 10.000 kr. fyrir hvern unninn klukkutíma.

Breytingartillagan borin upp og felld með atkvæði Geirs Guðjónssonar.

Tillaga starfskjaranefndar borin upp og samþykkt með atkvæðum Brynhildar Davíðsdóttur, Gylfa Magnússonar, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur, Katrínar Atladóttur og Björns Gíslasonar. Geir Guðjónsson greiðir atkvæði gegn tillögunni.

 

Katrín Atladóttir og Björn Gíslason ítreka þá skoðun, sem áður hefur komið fram að ekki sé þörf á sérstakri nefnd til að fjalla um kjör eins manns með þeim kostnaði sem slíku fylgir.

 

Einnig lagt til að Drífa Sigurðardóttir taki sæti í nefndinni.

Samþykkt samhljóða.

 

 1. Starfsáætlun stjórnar fyrir árið 2019 lögð fram.

Samþykkt samhljóða.

 

 1. Ákveðið að starfsdagur og stefnumótun stjórnar verði föstudaginn 18. janúar 2019.

 

 1. Lögð fram svohljóðandi tillaga um sölu eignarhlutar Orkuveitu Reykjavíkur í Neyðarlínunni. Tillögunni fylgir greinargerð:

 

Stjórn samþykkir að farið verði í viðræður við Reykjavíkurborg um kaup Reykjavíkurborgar á eignarhlut OR í Neyðarlínunni ohf.

Samþykkt samhljóða.

 

 1. Klukkan 15:30 mætti Guðrún Erla Jónsdóttir stefnustjóri til fundarins og kynnti framvindu og stöðu stefnuverkefna í samstæðu OR á árinu 2018.

Umræður.

 

 1. Elín Smáradóttir kynnti verklag og stöðu á úrvinnslu ábendinga í úttektarskýrslu Innri endurskoðanda á vinnustaðamenningu og mannauðsmálum hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Umræður.

 

 1. Klukkan 15:50 mætti Hildigunnur Thorsteinsson til fundarins, lagði fram og kynnti minnisblað um stöðu auðlindamælikvarða, dags. 13.12.2018.

Umræður. Stjórn óskar skriflegra upplýsinga um mun á mælingum þeim á örplasti í neysluvatni sem gerðar hafa verið að undanförnu.

 

 1. Forstjóri lagði fram og kynnti skýrslu sína um starfsemina á milli stjórnarfunda. Umræður.

 

 1. Önnur mál.

 

Eftirfarandi fyrirspurn barst frá Guðjóni Viðari Guðjónssyni:

 

Varðandi það sem Hallur Símonarson var að tala um hvort einhver eftirfylgni verði með þá aðila sem kvörtuðu um einelti á vinnustað í vinnustaðakönnunni?

Vísað er til 11. liðar.

 

Eftirfarandi fyrirspurn barst frá Geir Guðjónssyni:

 

Þetta á við bæði fyrir og eftir tilvist Orku náttúrunnar.

Hvað hafa margir viðskiptavinir hjá Orkuveitu samstæðunni fært sig um set síðan það var hægt með nýjum raforkulögum.

Greint niður á hve margir hafa fært sig til Orkuveitunnar og frá henni, heimili, fyrirtæki, ár og loks breyting í tekjum.

 

Hver hefur rekstrarkostnaðurinn við markaðsdeildina verið á sama tímabili, greint niður í launakostnað, beinan auglýsingakostnað, aðkeypta þjónustu, húsnæðiskostnað og annað greinanlegt hjá Samstæðunni.

Forstjóri mun óska eftir upplýsingum frá stjórn Orku náttúrunnar.

 

Eftirfarandi bókun barst frá byggðaráði Borgarbyggðar:

 

Byggðarráð þakkar markviss viðbrögð við þeirri stöðu sem kom upp innan OR á haustdögum. Mikilvægt er að bregðast markvisst við þeim atburðum sem áttu sér stað til að orðspor fyrirtækisins og starfsfólks þess verði fyrir sem minnstum álitshnekki. Einnig var mikilvægt að kannað væri til hlítar hvort um undirliggjandi vanda væri að ræða í starfsmannamálum og samskiptum starfsmanna innan fyrirtækisins. Í ljós kom að svo var ekki heldur er innra starf að mannauðsmálum og staða þeirra á flestan hátt til fyrirmyndar. Í úttektinni komu fram ýmsar ábendingar um það sem betur má fara í þessum efnum. Byggðarráð tekur undir nýlega ályktun starfsmannafundar OR um að mikilvægt sé að umræða um fyrirtækið og það starfsfólk sem hjá því vinnur byggi á staðreyndum en ekki upphrópunum og rangfærslum. Í þessu sambandi er rétt að minna á að framlegð og afkoma reksturs OR og dótturfélaganna voru betri á fyrstu níu mánuðum þessa árs en 2017. Hagnaður fyrstu níu mánuði ársins var 5.9 ma.kr. Í ljósi þessarar góðu afkomu fyrirtækisins er eðlilegt að knýja á að jafnræði ríki í álagningu þjónustugjalda milli þeirra íbúa sem búa á starfssvæði fyrirtækisins. Íbúar Borgarbyggðar greiða um 42% hærra fastagjald og 62% hærra fermetragjald fyrir neysluvatn og 32,5 % hærra fráveitugjald en íbúar höfuðborgarsvæðisins og á Akranesi.

 

 
Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 16:35.
Næsti fundur er fyrirhugaður 28. janúar 2019.

 

Brynhildur Davíðsdóttir,

Geir Guðjónsson, Gylfi Magnússon, Katrín Atladóttir,

Kjartan Magnússon, Björn Gíslason, Sigríður Rut Júlíusdóttir, Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir.