Fundargerð stjórnar #256 (fundargögn)

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2018, mánudaginn 26. febrúar kl. 13:15 var haldinn 256. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

 

Fundinn sátu: Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Kjartan Magnússon, Sigríður Rut Júlíusdóttir, Áslaug M. Friðriksdóttir, Rakel Óskarsdóttir og Björn Bjarki Þorsteinsson.

 

Einnig tók þátt Bjarni Bjarnason, forstjóri og Hallur Símonarson, innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar, að hluta.

 

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

 

Þetta gerðist:

 

 1. Fundargerð stjórnafundar SF 255 undirrituð og staðfest.

 

 1. Klukkan 13:20 mættu Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála og Bjarni Freyr Bjarnason til fundarins og kynntu drög að ársreikningi 2017. Umræður. Ákveðið að halda símafund til að afgreiða reikninginn þann 8. mars 2018.
 2. Ingvar Stefánsson fór yfir lykiltölur fjármála. Lögð fram áhættuskýrsla, dags. 13. febrúar 2018. Einnig lagt fram og kynnt minnisblað um arðsemiskröfu starfsþátta, dags. 20. febrúar 2018. Umræður.
 3. Klukkan 14:30 kynnti Hallur Símonarson, innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar, innri endurskoðun borgarinnar og hlutverk embættisins gagnvart OR, skv. tímabundnum samningi.

 

 1. Lagt fram erindi Reykjavíkurborgar, dags. 24. janúar 2018, þar sem fram kemur að tekið hafi verið tilboði endurskoðunarfyrirtækisins Grant Thornton í útboði samstæðu Reykjavíkurborgar á endurskoðunarþjónustu.

Lögð fram svohljóðandi tillaga:

 

„Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að Grant Thornton verði ráðið endurskoðunarfyrirtæki fyrir reikningsskil áranna 2018 til og með 2022.“

 

Samþykkt samhljóða.

 

 1. Gylfi Magnússon og Rakel Óskarsdóttir lögðu fram og kynntu minnisblað, dags. 26. febrúar 2018, ásamt tillögu að framtíðar fyrirkomulagi innri endurskoðunar OR. Samþykkt að afla umsagna endurskoðunarnefndar og innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um tillöguna fyrir marsfund stjórnar.

 

 1. Klukkan 15:00 vék forstjóri af fundi. Sigríður Rut Júlíusdóttir kynnti framlagt minnisblað, dags. 20. febrúar 2018, ásamt eftirfarandi tillögu starfskjaranefndar um starfskjör forstjóra:

 

„Starfskjaranefnd telur rétt að laun forstjóra OR séu hækkuð um 6,9%. Tillaga starfskjaranefndar er að laun forstjóra hækki úr 2.220.870 í 2.374.110 (6,9%) þann 1. febrúar 2018 að undangengnu frammistöðumati.“

 

Tillagan samþykkt með atkvæðum Brynhildar Davíðsdóttur, Gylfa Magnússonar, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur og Rakelar Óskarsdóttur. Kjartan Magnússon og Áslaug M. Friðriksdóttir sitja hjá. Stjórnarformanni falið að meta frammistöðu forstjóra.

 

 1. Klukkan 15:15 mætti Íris Lind Sæmundsdóttir, lögfræðingur og kynnti skýrslu regluvarðar, dags. 23. febrúar 2018. Einnig lögð fram og kynnt svohljóðandi viðmið um skráningu á fruminnherjalista:

 

„Á fruminnherjalista skulu öllu jöfnu vera skráðir stjórnarmenn í samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur, varamenn þeirra, forstjóri og helstu stjórnendur innan hennar, innri og ytri endurskoðendur fyrirtækisins og endurskoðunarnefnd Reykja­víkurborgar.

Einnig skulu aðrir starfsmenn samstæðunnar sem hafa víðtækan aðgang að gögnum vera skráðir fruminnherjar, t.a.m. starfsmenn upplýsingatækni og öryggisverðir. Skal regluvörður meta þörf á skráningu slíkra aðila á innherjalista hverju sinni.

Verði innherji ekki við tilmælum regluvarðar um skil á yfirlýsingu um að hann og fjárhagslega tengdir aðilar hafi kynnt sér tilkynningu um réttarstöðu innherja og reglur sem um viðskipti þeirra gilda, ber regluverði að upplýsa stjórn um það í reglulegri skýrslu sinni til stjórnar.“

 

Samþykkt.

 

 1. Klukkan 15:30 mætti Kenneth Breiðfjörð, forstöðumaður Innkaupa og rekstrarþjónustu til fundarins og kynnti innkaupstefnu Orkuveitu Reykjavíkur. Lagt er til að stefnan verði samþykkt óbreytt.

Samþykkt samhljóða.

 

 1. Klukkan 15:40 mættu Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi og Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri til fundarins, lögðu fram og kynntu drög að árs- og umhverfisskýrslu 2017. Umræður.

Skýrslan borin upp, samþykkt og árituð af stjórnarmönnum.

 

 1. Klukkan 16:05 kynntu Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri og Edda Sif Aradóttir, staðgengill framkvæmdastjóra Þróunar minnisblöð um stöðu umhverfismælikvarða, dags. 22. febrúar 2018 og um forðagæslu, dags. sama dag. Umræður.

Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir óska bókað:

 

„Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir fagna uppsetningu loftgæðamælistöðvar í Grafarholti-Úlfarsárdal, sem fyrirhugað er að taka í notkun um mánaðamótin febrúar-marz. Frá árinu 2013 hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekað lagt fram tillögur um að loftgæðamælingar í eystri hluta borgarinnar verði auknar í því skyni að tryggja að almenningur sé ætíð upplýstur um loftgæði á áhrifasvæði Hellisheiðarvirkjunar. Hafa þeir lagt til að síritandi mælistöðvar verði settar upp við austurenda byggðar í Grafarholti-Úlfarsárdal og í Breiðholti. Um leið og uppsetningu mælistöðvar í Grafarholti-Úlfarsárdal er fagnað, er enn og aftur minnt á tillögur Sjálfstæðisflokksins um að slíkri stöð verði einnig komið fyrir í Breiðholti.“

 

 1. Edda Sif Aradóttir og Elín Smáradóttir gerðu grein fyrir fundi með Einkaleyfastofu um einkaleyfi í jarðhita.

 

 1. Klukkan 16:40 mætti Guðrún Erla Jónsdóttir, stefnustjóri til fundarins og kynnti stefnuáætlanir og áherslur í samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur.

 

 1. Forstjóri lagði fram og kynnti skýrslu sína um starfsemina á milli stjórnarfunda. Umræður.

 

 1. Önnur mál.

 

 • Áslaug M. Friðriksdóttir og Kjartan Magnússon lögðu fram eftirfarandi tillögu:

 

Stjórn Orkuveitunnar samþykkir ósk forstjóra Símans um að hitta stjórn OR til að gera grein fyrir sjónarmiðum Símans í ljósi þess að Gagnaveitan hefur formlega hafnað frekari viðræðum við Símasamstæðuna um aðgang að ljósleiðaraneti GR í óvirku formi en Síminn hefur óskað eftir að eiga viðskipti við Gagnaveituna sem nemur um mörg hundruð milljónum árlega.

Frestað.

 

 • Áslaug M. Friðriksdóttir og Kjartan Magnússon lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:

 

Óskað er eftir upplýsingum um samninga ON við fyrirtæki vegna rafhleðslustöðva. Hvernig var samið, hver voru samningsmarkmið og hvernig sér ON fyrir sér framhaldið til dæmis með það hvernig horfið verði af samkeppnismarkaði þegar hann tekur við sér.

 

Stjórnarformaður lagði fram tilboð um ytra mat á störfum stjórnar.

 

 

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 17:00.

 

Brynhildur Davíðsdóttir,

Áslaug M. Friðriksdóttir, Gylfi Magnússon, Kjartan Magnússon, Rakel Óskarsdóttir,

Sigríður Rut Júlíusdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson.