Fundargerð stjórnar #252 (fundargögn)

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2017, mánudaginn 20. nóvember kl. 13:15 var haldinn 252. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

 

Fundinn sátu: Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Kjartan Magnússon, Sigríður Rut Júlíusdóttir, Áslaug M. Friðriksdóttir, Rakel Óskarsdóttir og Björn Bjarki Þorsteinsson.

 

Einnig tók þátt Bjarni Bjarnason, forstjóri.

 

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

 

Þetta gerðist:

 

 1. Fundargerðir stjórnafundar SF 250 og SF 251 undirritaðar og staðfestar.

 

 1. Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála, mætti til fundarins ásamt Bryndísi Maríu Leifsdóttur forstöðumanni reikningshalds, lagði fram og kynnti 9 mánaða uppgjör samstæðu OR. Einnig mættu til fundarins undir þessum lið Sunna Jóhannsdóttir og Ingvar Garðarsson, nefndarmenn í endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar, lögðu fram og kynntu umsögn endurskoðunarnefndar um reikninginn.  Reikningurinn borinn upp og samþykktur samhljóða.

Ingvar Stefánsson kynnti stöðu fjármögnunar Orkuveitu Reykjavíkur. Áhættuskýrsla, dags. 10. 11. 2017 lögð fram.

 

Stjórn óskar eftir kynningu á tekju- og fjárhagsmódeli Gagnaveitu Reykjavíkur á næsta fundi.

 

Einnig lögð fram svohljóðandi tillaga varðandi kaup á Fossi fasteignafélagi. Tillögunni fylgir greinargerð. Áslaug M. Friðriksdóttir vék af fundi við umfjöllun og afgreiðslu málsins:

 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) samþykkir að heimila forstjóra og/eða fjármálastjóra að samþykkja og undirrita tilboð sem jafnframt er skuldbindandi samningur um kaup á Fossi fasteignafélagi slhf. sem er eigandi fasteigna að Bæjarhálsi 1 og leigusali OR. Tillagan felur í sér kaup 100% eigin fjár Foss Fasteignafélags slhf. og endurfjármögnun skulda félagsins með útgáfu skuldabréfa í nafni OR. Samþykktin er gerð með fyrirvara um samþykkt eigendafundar.

 

Samþykkt með atkvæðum Brynhildar Davíðsdóttur, Gylfa Magnússonar, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur og Rakelar Óskarsdóttur. Kjartan Magnússon situr hjá og óskar bókað:

 

Árið 2013 ,,seldi“ Orkuveita Reykjavíkur húsnæði sitt að Bæjarhálsi fyrir 5.100 milljónir króna sem nemur 5.467 milljónum króna að núvirði miðað við neysluverðsvísitölu. Nú, réttum fjórum árum síðar, er húsnæðið keypt aftur á 5.516 milljónir króna. Á þessu fjögurra ára tímabili hafa leigugreiðslur af húsinu numið 906 milljónum króna.

,,Salan“ 2013 fór fram samkvæmt sérstakri ákvörðun meirihluta borgarstjórnar, þ.e. fulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykktu ekki umræddan gjörning þar sem þeir töldu mikinn vafa leika á að um raunverulega sölu væri að ræða enda fól ,,sölusamningurinn“ jafnframt í sér leigu Orkuveitunnar á húsinu til 10-20 ára. Þar sem Orkuveitan hefur auk leigu greitt rekstrarkostnað og ábyrgð á viðhaldi hússins síðan ,,salan“ átti sér stað verður að líta svo á að umræddur sölu- og leigusamningur við Foss sé í raun lánasamningur þar sem leigugreiðslur eru ígildi vaxtagreiðslna. ,,Söluverð“ hússins árið 2013 var langt undir endurstofnverði en heildarbyggingarkostnaður við Orkuveituhúsið nemur um 11,4 milljörðum króna á núgildandi verðlagi. Þá eru vaxtakjör á samningnum óhagstæð miðað við þau kjör sem Reykjavíkurborg og Orkuveitan njóta á lánum sínum þannig að segja má að með honum hafi Orkuveitan í raun verið að taka dýrt lán. Ljóst er að þessi viðskipti hafa verið óhagstæð fyrir Orkuveituna óháð þeim skemmdum á húsinu sem nú hafa verið leiddar í ljós. Enginn kostur virðist vera góður í þeirri stöðu sem nú er kominn upp. En í ljósi þess taps sem Orkuveitan hefur orðið fyrir vegna hins furðulega fjármálagjörnings frá árinu 2013 verður þó að telja æskilegt að kannað sé til hlítar hvort það fasteignafélag, sem er nú skráður eigandi hússins og hefur haft af því tekjur undanfarin ár, eigi ekki að axla meiri ábyrgð á kostnaði vegna óhjákvæmilegra viðgerða og endurbóta á því en ráð er gert fyrir samkvæmt fyrirliggjandi tillögu.

 

 1. Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi mætti til fundarins kl 14:20, lagði fram og kynnti upplýsingar um eftirfarandi málefni:

 

 • Yfirlit yfir stöðu úrlausna. Til upplýsingar. Trúnaðarmál.

 

 • Yfirlit yfir stöðu gæðaverkefna í innri endurskoðun. Til upplýsingar.
 • Aðgangur að stjórnendafundum – álit ráðgjafa. Til upplýsingar.
 • Aðgangur að upplýsingakerfum – álit ráðgjafa. Til upplýsingar. Innri endurskoðandi mun gera tillögu um aðgang að kerfum sem nauðsynlegur er fyrir starfsemi innri endurskoðunar.

 

 1. Stjórn staðfestir fundarboð reglulegs eigendafundar 24. nóvember n.k.

 

 1. Guðrún Erla Jónsdóttir, stefnustjóri mætti til fundarins kl 14:45, lagði fram og kynnti skýrslu um framfylgd eigendastefnu. Samþykkt að leggja skýrsluna fram á eigendafundi.

 

 1. Guðrún Erla Jónsdóttir og sagði frá rannsókn á stjórnháttum og óskaði eftir þátttöku stjórnar í rannsókninni.

 

 1. Keilir – Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs. Tekið af dagskrá.

 

 1. Hólmfríður Sigurðardóttir umhverfisstjóri mætti til fundarins kl. 15:30, lagði fram og kynnti umhverfis- og auðlindastefnu. Umræður. Stefnan samþykkt samhljóða.

 

 1. Umhverfisstjóri lagði fram og kynnti óbreytta stefnu um vistvænar samgöngur. Umræður. Stefnan samþykkt samhljóða.

 

 1. Umhverfisstjóri lagði fram og kynnti minnisblað um stöðu umhverfismælikvarða, dags. 16. nóvember 2017. Umræður.

 

 1. Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi OR, mætti til fundarins kl. 15:55 og gerði grein fyrir fyrirhuguðum breytingum á árlegri skýrslugjöf samstæðu OR.

 

 1. Hildigunnur H. Thorsteinsson, framkvæmdastjóri Þróunar mætti til fundarins kl. 16:10 og kynnti minnisblað um stöðu auðlindamælikvarða, dags. 16. nóvember 2017.

 

 1. Lögð fram kynningar drög að starfsáætlun stjórnar fyrir árið 2018. Umræður.

 

 1. Forstjóri lagði fram og kynnti skýrslu sína um starfsemina milli stjórnarfunda, dags 17. nóvember 2017. Umræður.

 

 1. Önnur mál.

 

Formaður stjórnar lagði fram svohljóðandi tillögu:

 

Þegar endurskoðunarnefnd OR var lögð niður á sínum tíma urðu talsverðar breytingar á skipulagi og stöðu innri endurskoðunar og endurskoðunarnefndar samstæðunnar. M.a. tók endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar við hlutverki endurskoðunarnefndar OR og þar með nokkuð viðamiklum samskiptum við innri endurskoðanda OR. Á sínum tíma voru ýmsar aðrar útfærslur ræddar en sú sem varð niðurstaðan.

 

Nú er komin nokkur reynsla á þetta skipulag og tímabært að meta reynsluna.    

 

Stjórn felur forstjóra að leita eftir sjónarmiðum eigenda á þessu skipulagi.

 

Tillaga Kjartans Magnússonar og Áslaugar Friðriksdóttur:

 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur beinir því til Orku náttúrunnar að fjölga hraðhleðslustöðvum (hlöðum) fyrir rafbíla á höfuðborgarsvæðinu. Óskað er eftir því að hraðhleðslustöðvar verði settar upp sem fyrst í Breiðholti, Grafarvogi og Vesturbænum.

 

 

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 17:00.

Næsti fundur ákveðinn 18. desember nk.

 

Brynhildur Davíðsdóttir,

Áslaug M. Friðriksdóttir, Gylfi Magnússon, Kjartan Magnússon, Rakel Óskarsdóttir, Sigríður Rut Júlíusdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson.