Fundargerð stjórnar #251 (fundargögn)

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2017, föstudaginn 20. október kl. 12:25 var haldinn 251. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn um síma.

 

Í fundinum tóku þátt: Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Kjartan Magnússon, Sigríður Rut Júlíusdóttir, Rakel Óskarsdóttir og Marta Guðjónsdóttir í fjarveru Áslaugar M. Friðriksdóttur.

 

Einnig tók þátt Bjarni Bjarnason, forstjóri og Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála.

 

Fundarritari var Eiríkur Hjálmarsson.

 

Þetta gerðist:

 

  1. Ingvar Stefánsson lagði fram og kynnti að nýju fjárhagspá 2018-2023 fyrir samstæðu OR, með breytingum frá SF250.

Fjárhagsspáin samþykkt.

Kjartan Magnússon og Marta Guðjónsdóttir sitja hjá.

 

Í ljósi batnandi fjarhagsstöðu OR samstæðunnar felur stjórn forstjóra jafnframt að gera sérstaka greiningu á möguleikum á lækkun gjaldskrár til framtíðar.

 

  1. Ingvar Stefánsson lagði fram eftirfarandi tillögu. Tillögunni fylgir greinargerð. Jafnframt var lagt fram minnisblað frá Landslögum lögfræðistofu:

 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) heimilar forstjóra/fjármálastjóra að ganga til samninga um kaup á Fossi fasteignafélagi slhf. sem er eigandi fasteigna að Bæjarhálsi 1 og leigusali OR. Endanlegur samningur, ef niðurstaða næst í viðræðum, verður lagður fyrir stjórn OR til samþykktar.

Tillagan samþykkt.

 

Kjartan Magnússon og Marta Guðjónsdóttir sitja hjá og óska bókað:

 

Árið 2013 ,,seldi“ Orkuveita Reykjavíkur húsnæði sitt að Bæjarhálsi fyrir 5.100 milljónir króna samkvæmt sérstakri ákvörðun meirihluta borgarstjórnar, þ.e. fulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykktu ekki umræddan gjörning enda töldu þeir vafa leika á að um raunverulega sölu væri að ræða þar sem ,,sölusamningurinn“ fól jafnframt í sér leigu Orkuveitunnar á húsinu til 10-20 ára. Þar sem Orkuveitan hefur jafnframt greitt rekstrarkostnað og ábyrgð á viðhaldi hússins síðan ,,salan“ átti sér stað verður að líta svo á að umræddur sölu- og leigusamningur við Foss sé í raun lánasamningur þar sem leigugreiðslur eru ígildi vaxtagreiðslna. ,,Kaupverð“ hússins var langt undir endurstofnverði en heildarbyggingarkostnaður við Orkuveituhúsið nemur um 11,4 milljörðum króna á núgildandi verðlagi. Þá eru vaxtakjör á samningnum óhagstæð miðað við þau kjör sem Reykjavíkurborg og Orkuveitan njóta á lánum sínum þannig að segja má að með honum hafi Orkuveitan í raun verið að taka dýrt lán. Ljóst er að þessi viðskipti hafa verið óhagstæð fyrir Orkuveituna óháð þeim skemmdum á húsinu sem nú hafa verið leiddar í ljós. Enginn kostur virðist vera góður í þeirri stöðu sem nú er kominn upp. En í ljósi þess taps sem Orkuveitan hefur orðið fyrir vegna hins furðulega fjármálagjörnings frá árinu 2013 verður þó að telja æskilegt að kannað sé til hlítar hvort það fasteignafélag, sem er nú skráður eigandi hússins og hefur haft af því tekjur undanfarin ár, eigi ekki að axla meiri ábyrgð á kostnaði vegna óhjákvæmilegra viðgerða og endurbóta á því en ráð er gert fyrir samkvæmt fyrirliggjandi tillögu.

 

  1. Önnur mál voru engin.

 

 

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 12:40.

 

Brynhildur Davíðsdóttir,

Gylfi Magnússon, Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir, Rakel Óskarsdóttir, Sigríður Rut Júlíusdóttir.