Fundargerð stjórnar #248 (fundargögn)

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2017, fimmtudaginn 24. ágúst kl. 13:15 var haldinn 248. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1. 

Fundinn sátu: Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir, Kjartan Magnússon, Sigríður Rut Júlíusdóttir, Ólafur Adolfsson í fjarveru Rakelar Óskarsdóttur og Björn Bjarki Þorsteinsson. 

Einnig tók þátt Bjarni Bjarnason, forstjóri. 

Fundarritari var Elín Smáradóttir. 

Þetta gerðist: 

 1. Fundargerðir stjórnarfunda 246 og 247 undirritaðar og staðfestar.
   
 2. Árshlutareikningur. Sex mánaða uppgjör. Ingvar Stefánsson, fjármálastjóri mætti til fundarins ásamt Bryndísi Maríu Leifsdóttur, forstöðumanni reikningshalds, lagði fram og kynnti árshlutareikning, 6 mánaða uppgjör Orkuveitu Reykjavíkur.Reikningurinn borinn upp og staðfestur.

  Vegna breytinga á fundartíma stjórnarfundar komst fulltrúi endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar, Sunna Jóhannsdóttir, ekki á fundinn, en endurskoðunarnefnd hafði boðað til fundar á sama tíma til að fjalla um útboð á endurskoðunarþjónustu fyrir samstæðu Reykjavíkurborgar.
   
 3. Ingvar Stefánsson kynnti stöðu fjármögnunar Orkuveitu Reykjavíkur, lagði fram og kynnti svohljóðandi tillögu. Tillögunni fylgir greinargerð:

  Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) veitir áhætturáði OR undanþágu frá samþykktum stjórnar á gildandi tímamörkum fastvaxtahlutfalla til framkvæmdar áhættuvarnarsamninga gagnvart tilteknum lánasamningum út líftíma þeirra, þ.e. allt til ársins 2028. 

  Tillagan samþykkt samhljóða. 

  Ingvar kynnti einnig hugmyndir um möguleg endurkaup Orkuveitu Reykjavíkur á fasteigninni að Bæjarhálsi 1 í Reykjavík.  

  Þórður Ásmundsson, forstöðumaður tækniþróunar, Grettir Haraldsson, verkefnisstjóri og Kenneth Breiðfjörð, forstöðumaður innkaupamála, mættu til fundarins og kynntu ásamt forstjóra ástand vesturhúss að Bæjarhálsi 1, þegar áfallinn kostnað og möguleika á úrbótum, sem taka þarf til nánari skoðunar. 
   
 4. Guðrún Erla Jónsdóttir, stefnustjóri, mætti til fundarins og kynnti stöðu stefnuverkefna.
   
 5. Sólrún Kristjánsdóttir, starfsmannastjóri, mætti til fundarins, kynnti rýni jafnréttisstefnu og lagði til að stefnan yrði samþykkt óbreytt.
  Samþykkt samhljóða.
   
 6. Lagt fram erindi forstjóra Símans til stjórnarmanna frá 11. júlí sl. ásamt samantekt frá Gagnaveitu Reykjavíkur um bréfið.

  Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Fregnir hafa borist af óánægju íbúa vegna endurtekins skurðgraftar í gegnum lóðir við lagningu ljósleiðara tveggja fyrirtækja. Augljóst er að slíkur tvíverknaður skapar íbúum óþægindi og hefur í för með sér sóun fjármuna og óþarfa jarðrask. Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur beinir því til stjórnar Gagnaveitu Reykjavíkur að hefja sem fyrst samstarf við Mílu um lagningu ljósleiðara eftir því sem kostur er í því skyni að draga úr óþægindum, auka hagkvæmni og koma í veg fyrir óþarfa jarðrask í tengslum við slíkar framkvæmdir. 

  Afgreiðslu tillögunnar frestað og ákveðið að óska ítarlegri greinargerðar frá GR um efnisatriði bréfsins og hugmynda að auknu samstarfi sem miði að hagkvæmri uppbyggingu innviða. 

  Björn Bjarki Þorsteinsson vék af fundi kl. 16:35. 
   
 7. Lögð fram minnisblöð um stöðu umhverfismála og forðagæslu, dags. 22. ágúst 2018. Umræður.
   
 8. Lögð fram greining á lagalegri stöðu varðandi takmarkanir á flughæð yfir virkjana- og vatnsverndarsvæðum, sem óskað var eftir á fundi stjórnar þann 20. febrúar 2017.
   
 9. Skýrsla forstjóra um starfsemina á milli stjórnarfunda lögð fram og kynnt.
  Umræður.
   
 10. Önnur mál.
 • Kjartan Magnússon greindi frá stöðu undirbúnings málþings til að heiðra minningu Jóhannesar Zoëga, fyrrverandi hitaveitustjóra í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá fæðingu hans. Rætt um fimmtudaginn 9. nóvember.

 

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 17:10. 

Brynhildur Davíðsdóttir, 
Áslaug Friðriksdóttir, Gylfi Magnússon, Kjartan Magnússon,  Sigríður Rut Júlíusdóttir, Ólafur Adolfsson, Björn Bjarki Þorsteinsson.