Fundargerð stjórnar #243 (fundargögn)

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2017, föstudaginn 31. mars kl. 11:30 var haldinn 243. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn um síma.

 

Í fundinum tóku þátt: Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir, Kjartan Magnússon, Sigríður Rut Júlíusdóttir, Valdís Eyjólfsdóttir og Björn Bjarki Þorsteinsson.

 

Einnig tóku þátt Bjarni Bjarnason, forstjóri og Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála.

 

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

 

Þetta gerðist:

 

  1. Framkvæmdastjóri fjármála lagði fram og kynnti svohljóðandi tillögu til aðalfundar. Tillögunni fylgir greinargerð:

 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) samþykkir að gera tillögu til aðalfundar um arðgreiðslu að fjárhæð 750 milljónir króna. Tillagan er háð því að öll arðgreiðsluskilyrði séu uppfyllt fyrir og eftir arðgreiðslu.

 

Umræður. Kl 11:50 var afgreiðslu tillögunnar og fundi frestað til framhaldsfundar sem haldinn verður um síma kl. 9:00 mánudaginn 3. apríl 2017.

 

Mánudaginn 3. apríl kl. 9:00 var símafundi stjórnar fram haldið og tóku allir stjórnarmenn þátt í fundinum.

Tillagan borin upp og samþykkt með atkvæðum Brynhildar Davíðsdóttur, Gylfa Magnússonar og Sigríðar Rutar Júlíusdóttur. Áslaug M. Friðriksdóttir og Kjartan Magnússon greiða atkvæði gegn tillögunni. Valdís Eyjólfsdóttir situr hjá.

 

Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon og Sigríður Rut Júlíusdóttir óska bókað:

 

Orkuveita Reykjavíkur, OR, horfir nú fram á bjartari tíma. Tímabil fjárhagslegra erfiðleika er að baki. Planið, aðgerðaáætlun til að takast á við bráðan fjárhagsvanda, sem hrint var í framkvæmd snemma árs 2011 gekk upp. Frá árinu 2009 hafa nettóskuldir félagsins lækkað um meira en 100 milljarða króna og eiginfjárhlutfall nærri þrefaldast. Aðhald í rekstri hefur m.a. skilað þeim árangri að árið 2016 var rekstrarkostnaður lægri að raunvirði en árið 2010.

 

Eigendur og viðskiptavinir munu njóta þessarar betri stöðu fyrirtækisins á ýmsan hátt á næstu árum. Fyrstu skrefin í þá átt voru tekin um síðustu áramót með lækkun gjaldskrár fyrir nokkra liði. Fleiri skref í þá átt verða fyrirsjáanlega tekin á næstu árum. Þá greiðir OR nú tekjuskatt í fyrsta sinn um langt árabil enda búið að vinna upp að mestu uppsafnað tap erfiðleikaáranna. Er ánægjulegt að leggja á þann hátt sinn skerf til samfélagsins.

 

Þá verður nú jafnframt hægt að greiða arð til eigenda. Þeir hafa staðið vel að baki fyrirtækinu undanfarin ár. Arðgreiðslur verða mjög hóflegar þessu sinni en eru þó táknrænt merki um betri stöðu þess. Eigið fé fyrirtækisins var um síðustu áramót rúmur 121 milljarður og eðlilegt að eigendur fái nokkurn arð af því fé. Lagt er til að arðgreiðsla vegna ársins 2016 verði 750 milljónir króna eða um 0,6% af eigin fé.

 

Fyrirsjáanlegt er að arðgreiðslurnar geta vaxið talsvert á næstu árum. Því hafa þó verið settar þröngar skorður hve miklar þær geta verið hverju sinni með sérstökum arðgreiðsluskilyrðum. Afkoma síðustu ára hefur bætt stöðu fyrirtækisins svo mjög að nú, þegar aðalfundur OR er haldinn árið 2017, er ljóst að skilyrðin verða von bráðar uppfyllt í fyrsta sinn frá því að þau voru sett í árslok 2015. Jafnframt er útlit fyrir að svo verði áfram. Arðgreiðslan ógnar því ekki fjárhagslegri stöðu fyrirtækisins og verður ekki innt af hendi fyrr en skilyrðin hafa verið formlega uppfyllt.

 

Áslaug M. Friðriksdóttir og Kjartan Magnússon óska bókað:

 

Eigendur Orkuveitu Reykjavíkur hafa sett arðgreiðsluskilyrði fyrir félagið þar sem m.a. kemur fram að veltufjárhlutfall skuli vera yfir 1,0. Samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningi fyrirtækisins er veltufjárhlutfallið undir þessum mörkum eða 0,8. Þegar aðalfundur tekur ákvörðun um arðgreiðslu er augljóst að miða ber við síðasta ársreikning enda er arður ávallt greiddur af hagnaði síðasta árs og það sem félagið kann að eiga í lausum sjóðum í lok þess. Samkvæmt verkferli fjármála, ber að athuga stöðu arðgreiðslumælikvarða þegar ársreikningur fyrirtækisins liggur fyrir og er því ljóst að miða ber við ársreikninginn í þessu sambandi. Það er því mjög óeðlilegt að stjórn Orkuveitunnar samþykki nú tillögu til aðalfundar um arðgreiðslu vegna ársins 2016 þegar mikilvægu arðgreiðsluskilyrði, sem eigendur félagsins hafa sett því, hefur ekki verið fullnægt. Tillagan hefur verið unnin í miklum flýti eins og meðferð málsins ber með sér og eru slík vinnubrögð óviðunandi í ljósi mikilvægis þess.

 

Valdís Eyjólfsdóttir óskar bókað:

 

Undirrituð telur sjálfsagt að eigendum OR sé greiddur arður á einhverjum tímapunkti. En ég tel ekki tímabært, svo skömmu eftir að Planinu lýkur, að hefja arðgreiðslur til eigenda. Auk þess þá sýnir Ársreikningur 2016 að einu arðgreiðsluviðmiði er ekki náð og því spurning hvort rétt sé að horfa fram hjá því út frá þeim skýringum sem lagðar hafa verið fram því til stuðnings.

 

Fyrirspurn KM og ÁF

Óskað er eftir upplýsingum um hvort innri endurskoðandi Orkuveitunnar hafi verið boðaður á stjórnarfund hennar, þar sem fjallað var um og afgreidd tillaga um arðgreiðslu, sem fram fór 31. marz og 3. apríl.

 

 

 

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 9:30.

 

Brynhildur Davíðsdóttir,

Áslaug Friðriksdóttir, Gylfi Magnússon, Kjartan Magnússon,

Sigríður Rut Júlíusdóttir, Valdís Eyjólfsdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson.