Fundargerð stjórnar #237 (fundargögn)

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2016, mánudaginn 28. nóvember kl. 13:15 var haldinn 237. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

 

Fundinn sátu:  Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir, Kjartan Magnússon, Valdís Eyjólfsdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson og Sigríður Rut Júlíusdóttir sem tók þátt um fjarfundarbúnað.

 

Einnig sat fundinn Bjarni Bjarnason.

 

Fundarritari var Elín Smáradóttir

 

Þetta gerðist:

 

 1. Fundargerð SF 236 staðfest og undirrituð.

 

 1. Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála mætti til fundarins og kynnti ásamt Bjarna Frey Bjarnasyni stöðu fjármála og fjármögnunar, helstu markmið og mælikvarða og stöðu „Plansins“. Áhættuskýrsla, dags. 17.11.2016 lögð fram. Einnig kynnt breyting á fjárfestingarramma.

 

 1. Bryndís María Leifsdóttir, forstöðumaður reikningshalds, mætti til fundarins, lagði fram og kynnti 9 mánaða árshlutareikning. Einnig lögð fram umsögn endurskoðunarnefndar um reikninginn, dags 22. nóvember 2016. Uppgjörið borið upp og samþykkt samhljóða.

 

 1. Lagt fram og kynnt minnisblað um breytingar á forsendum vegna fjárhagsáætlunar 2017 og fimm ára áætlunar 2018-2022, vegna óskar frá Reykjavíkurborg um að fjárhagsáætlun yrði uppfærð vegna breyttra forsendna, sem byggja á þjóðhagsspá Hagstofunnar frá nóvember 2016. Bjarni Freyr gerði grein fyrir þeim áhrifum sem breyttar forsendur hafa í för með sér. Umræður. Uppfærð fjárhagsáætlun 2017 og fimm ára áætlun 2018-2022 borin upp.

 

Stjórn samþykkir framlagða áætlun í samræmi við breyttar forsendur en leggur áherslu á að rekstrarleg áhrif hinna breyttu forsendna hafa ekki verið rýnd í þaula. Því kann að koma til þess að áætlanirnar verði endurskoðaðar á gildistíma þeirra. Samþykkt með atkvæðum Brynhildar Davíðsdóttur, Gylfa Magnússonar, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur og Valdísar Eyjólfsdóttur. Áslaug M. Friðriksdóttir og Kjartan Magnússon sitja hjá.

 

 1. Lögð fram svohljóðandi breytt áhættustefna til samþykktar:

 

Meginmarkmið áhættustefnu er að tryggja að Orkuveita Reykjavíkur geti sinnt grunnhlutverki sínu á sem hagstæðastan máta með lágmarksáhættu. Þetta gerir OR með því að:

 • draga úr sveiflum í afkomu samstæðunnar á hverjum tíma með tilliti til undirliggjandi áhættu í rekstrinum og að áhættuþættir séu ávallt innan skilgreindra marka sem stjórnin setur og er skráð í áhættuhandbók. Mynd að neðan tilgreinir helstu áhættuþætti í samstæðu OR.
 • tryggja að OR hafi nægt fé til að standa undir uppbyggingu á þjónustu og reglulegri starfsemi
 • stuðla skal að því að OR hafi aðgang að fjölbreyttri fjármögnun frá mörgum fjármálastofnunum og treysta ekki um of á eina tegund fjármögnunar umfram aðra

Stjórn felur áhætturáði að framfylgja áhættustefnu í rekstri OR og innan marka sem sett eru í áhættuhandbók. Breytingar á mörkum krefjast samþykktar stjórnar OR.

 

Áhættustefnan byggir á gildum og heildarstefnu OR og er sett fram til samræmis við eigendastefnu fyrirtækisins.

Samþykkt samhljóða.

 

 1. Lagt fram minnisblað framkvæmdastjóra Þróunar, dags. 19. október 2016, um stofnun hlutafélags vegna heimsþings Alþjóða jarðhitasambandsins árið 2020 (World Geothermal Congress 2020). Einnig lagðar fram samþykktir Heimsþings 2020 ehf., samstarfssamningur Heimsþings 2020 og Iceland Geothermal og hluthafasamkomulag Heimsþings 2020. Umræður.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir samhljóða þátttöku Orkuveitu Reykjavíkur í Heimsþingi 2020 ehf.

 

 1. Guðrún Erla Jónsdóttir, stefnustjóri kom á fundinn og kynnti skýrslu um framfylgd eigendastefnu. Stjórn samþykkir að leggja skýrsluna fyrir eigendafund.

 

 1. Minnisblað um stöðu umhverfismælikvarða, dags. 24. nóvember 2016, lagt fram og kynnt.

 

 1. Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna ohf. mætti til fundarins og kynnti fyrirhugaðar gjaldskrárbreytingar Veitna ohf. um næstu áramót.

 

 1. Sunna Jóhannsdóttir, fulltrúi OR í endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar og Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi OR, mættu til fundarins og kynntu starfsemi endurskoðunarnefndar og innri endurskoðunar OR.  Innri endurskoðandi lagði fram og kynnti niðurstöður úr úttektum. Umræður.

 

 1. Íris Þórarinsdóttir, tæknistjóri fráveitu lagði fram og kynnti minnisblað til framkvæmdastjóra Veitna, dags. 18. október 2016, um plastagnir í skólpi, í tengslum við tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks sem frestað var á SF 234. Samþykkt að vísa tillögunni til stjórnar Veitna ohf. til meðferðar þar sem ákvarðanir um framkvæmdir í fráveitu eru á ábyrgð stjórnar Veitna ohf. og félagsfundar Orkuveitu Reykjavíkur-vatns- og fráveitu sf.

 

 1. Forstjóri lagði fram og kynnti skýrslu sína, dags. 25. nóvember 2016, um starfsemina á milli stjórnarfunda. Umræður.

 

 1. Lagt fram svar framkvæmdastjóra Veitna ohf., dags. 11. nóvember 2016, við fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks frá SF232.

 

 1. Önnur mál.
 • Ákveðið að desemberfundur stjórnar verði haldinn 12. desember kl. 14:00-18:00 í Stöðvarstjórahúsi í Elliðaárdal í stað 28. desember eins og gert er ráð fyrir í starfsáætlun stjórnar.

 

 

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 17:00.

 

Brynhildur Davíðsdóttir,

Áslaug Friðriksdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson,

Gylfi Magnússon, Kjartan Magnússon, Sigríður Rut Júlíusdóttir, Valdís Eyjólfsdóttir.