Fundargerð stjórnar #236 (fundargögn)

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2016, mánudaginn 24. október kl. 13:15 var haldinn 236. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

 

Fundinn sátu:  Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir, Kjartan Magnússon og Ragnar Frank Kristjánsson. Sigríður Rut Júlíusdóttir tók þátt um fjarfundarbúnað og Valdís Eyjólfsdóttir tók þátt um síma.

 

Einnig sat fundinn Bjarni Bjarnason, Ingvar Stefánsson, Ásgeir Westergren, Guðrún Erla Jónsdóttir, Guðmundur I. Bergþórsson og Jakob Sigurður Friðriksson.

 

Fundarritari var Íris Lind Sæmundsdóttir.

 

Þetta gerðist:

 

 1. Fundargerðir SF 234 og 235 staðfestar og undirritaðar.

 

Klukkan 13:20 kom á fundinn Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála.

 

 1. Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála lagði fram svohljóðandi tillögu, en til­lög­unni fylgir greinargerð:

 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) samþykkir heimild til forstjóra eða fram­kvæmda­stjóra fjármála til fjármögnunar, í formi skuldabréfaútgáfu, víxlaútgáfu eða bankaláns fyrir allt að 10 milljarða króna á árinu 2017.

 

Stjórnin veitir jafnframt heimild til að nýta fjármögnunarheimild yfirstandandi árs á næsta fjárhagsári 2017, að því marki sem hún reynist ónýtt í árslok, en nú­ver­andi eftirstöðvar þeirrar heimildar nemur um 6 milljörðum króna.

 

Stjórn OR samþykkir einnig stofnun ramma utan um útgáfu skuldabréfa og víxla sem getur numið allt að 50 milljörðum króna, útistandandi á hverjum tíma, en útgáfa sem fyrr ávallt háð samþykki stjórnar OR. Sótt verður sérstaklega um heimild innan rammans fyrir hvert fjárhagsár.

 

Fjármögnunarheimildin er í samræmi við samþykkta fjárhagsáætlun.

 

Framangreind heimild nær einnig til undirritunar allra skjala sem heimildin nær yfir.

 

Samþykkt.

 

Áhættuskýrsla, dags. 30. september 2016, og rekstraryfirlit, ódags. en útgefið í sept­em­ber 2016, lagt fram og kynnt af Ingvari. Umræður.

 

Stjórn óskar eftir því að Guðmundur I. Bergþórsson, framkvæmdastjóri innri endur­skoð­unar, taki út ferli við vöktun á stöðu auðlinda, auðlindastýringu og hvernig ákvarð­ani­r á grundvelli þeirra upplýsinga eru teknar og berast svo stjórn hverju sinni.

 

Klukkan 13:40 komu á fundinn Ásgeir Westergren, forstöðumaður áhættustýringar, og Guðrún Erla Jónsdóttir, stefnustjóri.

 

 1. Ásgeir Westergren, forstöðumaður áhættustýringar lagði fram svohljóðandi tillögur varðandi áhættustefnu og arðstefnu. Tillögunum hvorri um sig fylgja greinargerðir:

 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir framlagðar breytingar á arðstefnu fyrirtækisins.

 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir framlagðar breytingar á áhættustefnu fyrirtækisins.

 

Valdís Eyjólfsdóttir, óskaði eftir að eftirfarandi yrði bókað í tengslum við tillögu að breyt­­ingum á arðstefnu fyrirtækisins:

 

Nauðsynlegt er að OR setji sér ákveðinn ramma sem segir til um hvenær komi til greina að greiða eigendum arð, líkt og gert er í arðstefnu fyrirtækisins. En, áður en til arðgreiðslu kemur, er einnig mjög mikilvægt að búið sé að taka um­ræð­una í stjórn OR og hjá eigendum, um hvort nýta eigi afrakstur góðs rekstrar frekar til að lækka gjaldskrár. Þá er jafnvel eðlilegt að ákvörðun um slíkt hverju sinni sé rökstudd með tilliti til vals milli þessa tveggja valkosta: 1) arðgreiðsla eða 2) lækkun gjaldskrár.

 

Stjórn óskar eftir því að á næsta fundi verði lagt fram svar fjármálaskrifstofu Reykja­víkur­borgar vegna skoðunar á gjaldskrármálum, sem lagt var fyrir borgarráð.

 

Stjórn samþykkir framlagðar tillögur að breytingu á arðstefnu OR með svohljóðandi orðalagsbreytingu á 2. málslið í kafla um arð (orðalagsbreyting/viðbót undirstrikuð:

Við ákvörðun stjórnar að tillögu til aðalfundar að útgreiðslu arðs er unnið eftir verkferli sem innifelur heildstætt mat Fjármálasviðs á áhrifum arðgreiðslu á getu OR til að fjármagna rekstur og fjárfestingar fyrirtækisins.

 

Stjórn samþykkir framlagðar tillögur að breytingu áhættustefnu OR.

 

Klukkan 14:05 yfirgáfu Guðmundur I., Ásgeir, Ingvar og Guðrún Erla fundinn og á sama tíma kom á hann Jakob Sigurður Friðriksson, viðskiptaþróunarstjóri.

 

 1. Jakob Sigurður Friðriksson, viðskiptaþróunarstjóri, lagði fram og kynnti svohljóðandi til­lögu varðandi Elliðaár, sem frestað var á SF 234. Tillögunni fylgir greinargerð:

 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur staðfestir, með fyrirvara um samþykki Reykja­vík­ur­borgar viðaukasamning við Stangveiðifélag Reykjavíkur (SVFR) um stang­veiði í Elliðaám, sem byggi á meðfylgjandi greinargerð.

 

Samþykkt.

 

Klukkan 14:10 yfirgaf Jakob Sigurður fundinn.

 

 1. Lögð var fram svohljóðandi tillaga um skipan í starfskjaranefnd en henni fylgir greinar­gerð:

 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að skipa Sigríði Rut Júlíusdóttur í starfskjaranefnd í stað Brynhildar Davíðsdóttur.

 

Samþykkt.

Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir ítreka þá skoðun sína að ekki sé þörf á sérstakri pólitískri nefnd til að fjalla um starfskjaramál fyrirtækisins og sérstaklega um kjör forstjóra og stjórnarmanna með þeim kostnaði sem slíku fylgir.

 

 1. Íris Lind Sæmundsdóttir, lögfræðingur, lagði fram og kynnti svohljóðandi tillögu um áframhaldandi undanþágu GR frá upplýsingalögum, sem frestað var á fundi 234. Til­lög­unni fylgir greinargerð.

 

Tillagan var samþykkt með 4 atkvæðum gegn 2 atkvæðum Kjartans Magnússonar og Áslaugar Friðriksdóttur.

 

 1. Lagt fram minnisblað Elínar Smáradóttur, dags. 24. október 2016, um nýjar reglur um persónuvernd.

 

 1. Lagt fram minnisblað umhverfisstjóra, dags. 19. október 2016, um umhverfismál.

 

 1. Lagt fram svar við fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks frá SF234 varðandi birt­ingu fundargerða á vef.

 

 1. Lagt fram minnisblað tæknistjóra fráveitu til framkvæmdastjóra Veitna, dags. 18. október 2016, um plastagnir í skólpi, í tengslum við tillögu borgarfulltrúa Sjálf­stæðis­flokks sem frestað var á SF 234. Umræður.

 

 1. Forstjóri lagði fram og kynnti skýrslu sína, dags. 20. október 2016, um starfsemina á milli stjórnarfunda. Umræður.

 

 1. Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:

 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir upplýsingum um umfangsmiklar viðgerðir sem nú standa yfir á húsnæði Orkuveitunnar við Bæjarháls. Hefur verið gerð heildarúttekt á skemmdum og kostnaði vegna þeirra? Hver ber straum af kostnaði vegna viðgerðanna?

 

 1. Klukkan 14:38 yfirgáfu Brynhildur Davíðsdóttir, Sigríður Rut Júlíusdóttir, Áslaug María Friðriksdóttir og Valdís Eyjólfsdóttir fundinn. Um leið lögðu þær fram eftir­far­andi bókun:

 

Baráttudagur íslenskra kvenna var fyrst haldinn árið 1975 á kvennaári Sameinuðu þjóðanna. Þann dag lögðu konur um allt land niður vinnu til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir þjóðfélagið.

 

Árið 2005 sýndu íslenskar konur á ný samstöðu í verki og lögðu tugþúsundir kvenna niður störf kl. 14:08 og fylltu miðborgina svo eftir var tekið. Mánudaginn 25 október árið 2010 gengu konur út kl. 14:25 og tóku virkan þátt í mótmælum víða um land undir kjörorðunum „Já, ég þori, get og vil“.

 

Orkuveita Reykjavíkur vinnur markvisst að því að útrýma kynbundnum launamismun og leggur mikla áherslu á jafnrétti allra. Kynbundinn launamismunur er í dag 2,1% hjá fyrirtækinu og hefur farið lækkandi ár frá ári.

 

Þrátt fyrir að nokkrum árangri hafi verið náð í íslensku atvinnulífi, eru í dag meðal atvinnutekjur kvenna á Íslandi aðeins 70,3% af meðal atvinnutekjum karla. Samkvæmt því eru konur búnar að vinna fyrir sínum launum eftir 5 klukkustundir og 38 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9-17.

 

Með því að ganga út úr vinnu kl. 14:38 í dag mótmælum við með táknrænum hætti þessu kynbundna launamisrétti.Kjarajafnrétti strax!

 

 1. Önnur mál.

 

 

 

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 14:38.

 

Brynhildur Davíðsdóttir,

Áslaug Friðriksdóttir, Gylfi Magnússon, Kjartan Magnússon,
Ragnar Frank Kristjánsson, Sigríður Rut Júlíusdóttir og Valdís Eyjólfsdóttir.