Fundargerð stjórnar #234 (fundargögn)

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2016, mánudaginn 26. september kl. 9:00 var haldinn 234. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn í Stöðvarstjórahúsinu í Elliðaárdal.

 

Fundinn sátu:  Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir, Kjartan Magnússon, Sigríður Rut Júlíusdóttir, Einar Brandsson og Björn Bjarki Þorsteinsson.

 

Einnig sat fundinn Bjarni Bjarnason, Ingvar Stefánsson og Guðmundur I. Bergþórsson.

 

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

 

Þetta gerðist:

 

 1. Fundargerð SF 233 staðfest og undirrituð.

 

 1. Reynir Guðjónsson, öryggisstjóri og Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, mættu til fundarins og fjölluðu um öryggismál. Sérstaklega var gerð grein fyrir banaslysi sem varð 2. september sl. og þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til í kjölfarið.

Umræður.

 

Stjórn óskar bókað:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur telur að öryggi eigi ávallt að vera í fyrirrúmi í allri starfsemi fyrirtækisins og dótturfyrirtækja þess, Orku náttúrunnar, Veitna og Gagnaveitu Reykjavíkur. Stjórn Orkuveitunnar er einhuga um að styðja dótturfyrirtæki sín eindregið til að tryggja öryggi í allri starfsemi, hvort sem hún snýr að eigin starfsmönnum, starfsmönnum verktaka eða almenningi.

 

Fyrirspurn

Óskað er eftir upplýsingum um tíðni slysa í starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækja síðastliðin tíu ár.

 

 1. Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála, mætti til fundarins og kynnti stöðu fjármögnunar. Ingvar sagði m.a. frá niðurstöðu víxla- og skuldabréfaútboðs í byrjun september og varnarsamningum sem gerðir hafa verið. Upplýst um hækkaða lánshæfiseinkunn Orkuveitu Reykjavíkur úr Ba3 í Ba2. Kynnt staða og horfur varðandi Magma bréfið svokallaða. Lagt fram tilboð Alterra um samninga varðandi Magma bréfið. Stjórn samþykkir að heimila forstjóra að ganga til samninga við Alterra á þeim grundvelli sem kynntur hefur verið. Endanlegur samningur verði gerður með fyrirvara um samþykkti stjórnar.

 

 1. Íris Lind Sæmundsdóttir, lögfræðingur mætti til fundarins og kynnti svohljóðandi beiðni frá Gagnaveitu Reykjavíkur varðandi undanþágu frá upplýsingalögum.

 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, samþykkir að leggja það til við eigendur sína, sveitarfélögin Reykjavíkurborg, Akraneskaupstað og Borgarbyggð að þau leggi til við forsætisráðherra að undanþága GR frá gildissviði upplýsingalaga sem veitt var 20. desember 2013 verði framlengd.

 

Frestað.

 

 1. Ingvar Stefánsson, Bjarni Freyr Bjarnason og Brynja Kolbrún Pétursdóttir mættu til fundarins, lögðu fram og kynntu fjárhagsáætlun samstæðu OR 2017 og 5 ára áætlun 2018-2022. Einnig kynntar sérstaklega lykiltölur í rekstri móðurfélags. Umræður.

Afgreiðslu áætlunarinnar frestað. Ákveðið að halda umræðum og undirbúningi ákvörðunar um áætlunina áfram á símafundi þann 3. október nk. kl. 13:00.

 

 1. Sólrún Kristjánsdóttir, starfsmannastjóri mætti til fundarins ásamt Guðrúnu Erlu Jónsdóttur, stefnustjóra. Lögð fram og kynnt endurskoðuð jafnréttisáætlun.

 

 1. Kristjana Kjartansdóttir, gæðastjóri OR, mætti til fundarins ásamt Olgeiri Helgasyni. Lögð fram og kynnt ný og endurskoðuð gæðastefna.

Samþykkt.

 

Einnig lögð fram og kynnt ný og endurskoðun upplýsingaöryggisstefna.

Samþykkt.

 

 1. Lagt fram erindi Stangaveiðifélags Reykjavíkur, dags. 14.09.2016, ásamt tillögu og greinargerð.

Frestað.

 

 1. Minnisblað umhverfisstjóra um stöðu umhverfismælikvarða, dags. 22. september 2016, lagt fram.

 

 1. Önnur mál.

 

 • Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins

Samkvæmt niðurstöðum norrænnar rannsóknar berst margfalt meira magn plastagna, sem talið er að skaði lífríki hafsins, út í sjó úr íslenskum skólphreinsistöðvum en í sænskum og finnskum skólphreinsistöðvum. Samkvæmt rannsókninni berast um 6,3 milljónir plastagna úr skólphreinsistöðinni við Klettagarða á hverri klukkustund. Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að hreinsibúnaður skólphreinsistöðva Veitna verði efldur sem fyrst í því skyni að hann verði á við það sem best þekkist.  Þannig verði magni plastagna, sem berst úr stöðvum fyrirtækisins í hafið, haldið í algeru lágmarki.

 

 • Fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins

Á síðasta kjörtímabili samþykkti stjórn Orkuveitunnar tillögu Sjálfstæðisflokksins um að allar fundargerðir stjórnar frá stofnun fyrirtækisins árið 1999 yrðu opinberaðar og gerðar almenningi aðgengilegar á heimasíðu fyrirtækisins. Nú er einungis að finna fundargerðir til ársins 2010 á heimasíðunni og er óskað eftir upplýsingum um hvenær ætlunin sé að bæta úr því í samræmi við áðurnefnda samþykkt.

 

 

 

 

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 12:35.

 

Brynhildur Davíðsdóttir,

Áslaug Friðriksdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson, Einar Brandsson, Gylfi Magnússon,

Kjartan Magnússon, Sigríður Rut Júlíusdóttir.