Fundargerð stjórnar #233 (fundargögn)

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2016, mánudaginn 22. ágúst kl. 14:00 var haldinn 233. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn á Akranesi

 

Fundinn sátu:  Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir, Kjartan Magnússon, Páll Gestsson í fjarveru Sigríðar Rutar Júlíusdóttur, Valdís Eyjólfsdóttir og Björn Bjarki Þorsteinsson.

 

Einnig sat fundinn Bjarni Bjarnason, Ingvar Stefánsson og Guðmundur I. Bergþórsson.

 

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

 

Þetta gerðist:

 

  1. Fundargerð SF 232 staðfest og undirrituð.

 

  1. Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála, mætti til fundarins ásamt Bryndísi Maríu Leifsdóttur, forstöðumanni reikningshalds og Kristrúnu Ingólfsdóttur, endurskoðanda og kynntu 6 mánaða uppgjör Orkuveitu Reykjavíkur. Umræður.

Reikningurinn lagður fram, samþykktur samhljóða og undirritaður.

Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Páll Gestsson, Valdís Eyjólfsdóttir og Björn Bjarki Þorsteinsson óska bókað:

 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur fagnar þeim árangri sem náðst hefur í rekstri fyrirtækjanna í OR-samstæðunni sem þetta árshlutauppgjör sýnir. Fyrri hluti ársins skilar betri afkomu en við höfum séð frá því Planið var samþykkt.

 

Starfsfólki fyrirtækjanna er sérstaklega þakkað fyrir þeirra þátt í bættri afkomu. Höfuðmáli skiptir að þetta hefur tekist á sama tíma og þjónustan er traust og kannanir sýna að ánægja viðskiptavina með þjónustu fyrirtækjanna er mikil.

 

Áslaug María Friðriksdóttir og Kjartan Magnússon óska bókað:

 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórn Orkuveitunnar fagna góðum árangri, sem náðst hefur í rekstri fyrirtækja OR-samstæðunnar á fyrri hluta ársins. Fyrirliggjandi sex mánaða uppgjör sýnir betri afkomu en náðst hefur um árabil.

Starfsfólki OR-samstæðunnar er sérstaklega þakkað fyrir þátt þess í hinum góða árangri sem náðst hefur á sama tíma og þjónusta við orkunotendur er traust og ánægja þeirra með þjónustu fyrirtækjanna mikil samkvæmt könnunum.

Viðskiptavinum OR-samstæðunnar er einnig þakkað sérstaklega fyrir þátt þeirra í þessum góða árangri en eins og kunnugt er þurftu þeir að sætta sig við verulegar gjaldskrárhækkanir fyrir nokkrum árum þegar Orkuveitan glímdi við mikla erfiðleika. Rétt er að viðskiptavinir fyrirtækjanna njóti þess með gjaldskrárlækkun eða öðrum áþreifanlegum hætti þegar fyrirtækið stendur vel að vígi og margt bendir til þess að erfiðleikarnir verði senn að baki. Tímabært er orðið að viðskiptavinir OR njóti sterkrar stöðu samstæðunnar eins og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa vakið máls á og er óskað eftir að þess sjáist merki í fjárhagsáætlun ársins 2017.

 

  1. Ingvar Stefánsson kynnti rekstraryfirlit samstæðu OR til júní 2016. Stöðuskýrsla aðgerðaáætlunar (Plansins) til júní 2016 lögð fram. Umræður.

 

Einnig lagt fram og undirritað umboð stjórnar til forstjóra og framkvæmdastjóra fjármála vegna samninga við Deutche Bank.

 

  1. Minnisblað umhverfisstjóra um stöðu umhverfismælikvarða, dags. 18. ágúst 2016, lagt fram og kynnt.

Umræður.

 

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi 232:

 

Stjórn OR felur forstjóra að óska eftir því að teknar verði saman upplýsingar um þjónustuþörf á starfssvæði félagsins miðað við ákveðnar og ólíkar forsendur. Metin verði þörf fyrir rafmagn, kalt og heitt vatn og fráveitu á næsta áratug. Þjónustuþörfin verði metin út frá ólíkum sviðsmyndum um þá þætti sem helst hafa áhrif á þörf. Til dæmis íbúafjölda, fjölda ferðamanna og tæknibreytingar (s.s. rafbílavæðingar). Eins verði tekið inn í áætlunina þróun á mörkuðum sem tengjast félaginu, s.s. hverjir gætu óskað eftir samningum við félagið á næstu árum ásamt áætlaðri þörf þeirra félaga sem nú eru í viðskiptavinahópnum. Áætluð þörf verði borin saman við afköst félagsins nú og hver afköst félagsins þyrftu að vera til að anna þörfinni til framtíðar. Taka ætti áhrif vænts orkusparnaðar inn í áætlunina.

 

Samþykkt samhljóða.

 

  1. Rætt um breytingar á starfsáætlun stjórnar. Stjórnarfundir frá áramótum verði 3. mánudag í mánuði. Innri endurskoðandi og fulltrúi endurskoðunarnefndar komi ársfjórðungslega til fundar við stjórn.

 

  1. Bjarni Bjarnason lagði fram og kynnti minnisblað forstjóra um starfsemina á milli stjórnarfunda, dags. 18. ágúst 2016.

Umræður.

 

  1. Önnur mál.

 

  • Ákveðið að hafa starfsdag stjórnar eftir hádegi 26. september nk. Stjórnarfundur verði haldinn fyrir hádegi þann sama dag.

 

 

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 16:00.

 

Brynhildur Davíðsdóttir,

Áslaug Friðriksdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson, Gylfi Magnússon,

Kjartan Magnússon, Páll Gestsson, Valdís Eyjólfsdóttir.